Vegasamband milli Austurlands og Norðurlands

87. fundur
Mánudaginn 06. febrúar 1995, kl. 19:04:29 (3985)


[19:04]
     Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ekki efni til að teygja þetta frekar en ég vil aðeins benda á að athugun hefur verið gerð nýlega á breyttu vegarstæði frá því sem núverandi leið liggur um Öxarfjarðarheiði, þ.e. að fara nokkru norðar með leiðina sérstaklega vestanverða og koma niður í Núpasveit með veginn, þ.e. nálægt Valþjófsstöðum, og það er talið mun vænlegra vegarstæði heldur en menn höfðu horft til áður.
    Um Reykjaheiði skal ég ekki heldur fullyrða. Ég þekki hana ekki sem fjallveg, hef aldrei ekið hana og er þar að tala í rauninni úr tómum poka hvað snertir eigin reynslu, en vildi nefna þetta og svo hitt sem seint verður sennilega Íslendingum kennt að segja sem svo: Við rekum eina leið að vetrarlagi frá 1. nóv. til t.d. 1. apríl, eitthvað slíkt, og kostum því til og spörum þá þann kostnað sem er af því að halda tveimur opnum. Ég er ekki að segja að það sé auðvelt verk að almenningur uni slíku ef snjóalög eru t.d. undir meðallagi, ef vetur er snjóléttur en auðvitað væri ákveðin skynsemi í því ef þessu er kostað til að standa þannig að verki.