Umfjöllun allshn. um þáltill. um embættisfærslu umhverfisráðherra

89. fundur
Miðvikudaginn 08. febrúar 1995, kl. 13:44:09 (4054)


[13:44]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég heyrði ekki upphaf þessarar umræðu, var á leið af fundi til þingfundar, en heyri að það hefur gerst að það mál sem vísað var af meiri hluta þingsins til allshn. í gær hefur verið rifið þar út af meiri hluta og þingviljinn í raun að engu hafður sem fram kom í gær. Svo þegar formaður allshn., hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, er að rökstyðja þessa málsmeðferð þá er það ekki með þeim hætti að það renni stoðum undir þetta því hann orðaði það svo hér áðan að verkefnið hefði verið fyrir nefndina að meta hvort ástæða væri til að kjósa slíka nefnd en ekki að vinna það verk sem þessi nefnd ætti að vinna. Þetta var það sem hv. þm. sagði efnislega um þetta. Þetta er hárrétt, auðvitað var það verkefni allshn. að meta það hvort það ætti að kjósa nefndina en það verk hefur ekki verið unnið ef ekki er fallist á að átta sig á því hvort ástæður væru til þess efnislega að setja slíka rannsókn af stað með því að samþykkja tillöguna og kjósa rannsóknarnefnd. Það er eins og hér kom fram með þessari málafylgju verið að koma í veg fyrir það með öllum ráðum að farið sé ofan í málsmeðferð hæstv. umhvrh. á þessu máli. Spillingarmál Alþfl. þola ekki dagsljós. Það fer nú að fenna yfir ályktanirnar og áherðinguna frá Alþfl. sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kannast við að það eigi ekkert að fela, allt eigi að koma fram í dagsljósið, nú eigi að taka upp góð vinnubrögð. Ég tek undir þá kröfu, virðulegur forseti, að forsn. þingsins ræði þessi mál með formönnum þingflokka og reyni að tryggja að ekki verði gengið þannig á eðlilega málsmeðferð í þinginu.