Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 15:09:37 (4109)


[15:09]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Hér fer fram umræða um utanríkismál og það er vel. Það mætti vera oftar á Alþingi Íslendinga sem við förum yfir þann málafokk svo mjög sem utanríkismálin snerta okkur orðið nánar en áður og utanríkismál og innlend málefni hafa fléttast saman með þeim hætti að skilin á milli utanríkismála og innanríkismála eru orðin önnur og langtum minni en áður var, ekki síst vegna þeirra alþjóðlegu samninga sem við Íslendingar erum orðnir aðilar að. Þess vegna er óhjákvæmilegt að ræða þessi mál oftar enda ber þau á góma í tengslum við ýmis efni sem við erum að fjalla um hér þó ekki beri það yfirskriftina utanríkismál.
    Okkur sem ræðum þetta hér í dag er nokkur vandi á höndum í sambandi við það hvernig taka skuli á málum vegna þess sem hér bar við fyrr í dag, að formaður utanrmn. kaus að nota þennan vettvang, þessa umræðu, til persónulegra árása á alþingismenn og Alþb. sérstaklega. Ég hef mörg atriði, virðulegur forseti, sem ég þarf að ræða varðandi skýrslu hæstv. utanrrh. og mun nota tíma í þessari umræðu til þess í annarri ræðu minni en ég tel óhjákvæmilegt vegna þeirra árása í minn garð sem fram komu hjá formanni utanrmn. fyrr í umræðunni að ég noti fyrri ræðu mína til þess að víkja að hans máli og þáttum sem því tengjast.
    Það fór ekki fram hjá neinum hvernig hv. þm. Björn Bjarnason hagaði máli sínu í morgun í umræðunni og það fellur nokkuð að því sem kemur fram í Morgunblaðinu í ritstjórnargrein þann 7. febr. þar sem vikið er að sjónvarpsþætti frá sl. sunnudegi undir yfirskriftinni Stasi-skjölin. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Sjónvarpsmyndin sýnir að Hjörleifur Guttormsson alþingismaður Alþýðubandalags hefur verið Stasi hugleikinn en hins vegar hafa engar skjalfestar sannanir komið fram um hlutverk hans``, segir í ritstjórnargrein Morgunblaðsins.
    Litlu síðar segir í þessari ritstjórnargrein: ,,Allir hafa þeir menn sem hér hafa verið nefndir og koma við sögu í fyrrnefndri sjónvarpsmynd á undanförnum áratugum margsinnis hafnað öllum staðhæfingum bæði Morgunblaðsins og annarra um náin tengsl þeirra við stjórnvöld í Austur-Evrópu. Það er fyrst nú þegar þeir eiga engan annan kost að þeir ýmist játa störf fyrir Stasi eða viðurkenna að eftir hafi verið leitað.``
    Svona er nú haldið á máli í ritstjórnargrein Morgunblaðsins. Þetta fellur í nákvæmlega sama farveg og málflutningur hv. þm. formanns utanrmn. í morgun. Það er langt seilst til lokunar í þessum efnum. Nú er það svo, virðulegur forseti, að þau efni sem umræddir fréttamenn og myndhöfundar drógu fram og liggja fyrir og sýndu mér eru ekki merkilegri en svo í rauninni að ég varð satt að segja undrandi á því að ekki var meira að finna sem varðaði undirritaðan miðað við það sem sagt hefur verið frá um nákvæmni þessarar austur-þýsku leyniþjónustu. Og þau eru út af fyrir sig þess efnis að það er ekki lengi verið að fara yfir þau efni. Ég brást nú þannig við að segja að mér sýndist þetta vera frásögn af því að ég hefði verið nánast í sunnudagaskóla þarna eystra, saklaus drengur í sunnudagaskóla. Ég held að það gæti verið fróðlegt að þau væru einhvers staðar til sýnis, annaðhvort á bókasafni eða lestrarsal Alþingis eftir atvikum fyrir þá sem vilja lesa þann fróðleik. En ég vil hins vegar um leið og ég mótmæli og endurtek mótmæli mín við málflutningi hv. þm. rifja hér upp örfá atriði í sambandi við afstöðu Alþb. til ríkjanna í Austur-Evrópu og aðild mína að nokkru að þeim málum.
    Í fyrsta lagi það sama og kom fram af minni hálfu í morgun að ég af pólitískum ástæðum tók þá afstöðu eftir að ég kom heim til Íslands frá námi 1963 að fara ekki í ferðalög, að sækja ekki um vegabréfsáritanir í austurveg. Þetta var ekki vegna þess að ég hefði ekki gaman af að fylgjast með og skoða heiminn og ég hef gert það á árunum sem síðan liðu, bæði vestan hafs og í Evrópu. Þetta var gert af pólitískum ásetningi til þess að undirstrika andúð mína á því þjóðskipulagi og þeim vinnubrögðum sem viðhöfð voru í þessum ríkjum. Við þetta stóð ég þangað til 1990 að ég sótti um vegabréfsáritun sem ferðamaður til Eistlands í pólitískum tilgangi til þess að undirstrika samstöðu mina, fyrstur íslenskra þingmanna til þess að heimsækja Eystrasaltsríkin, undirstrika samstöðu mína með þeirri frelsishreyfingu sem þá var þar komin í gang og gaf utanrmn. Alþingis um það skýrslu.
    Ég vil líka nefna það vegna þess að það er ítrekað, það er nánast með nokkurra ára millibili að sama platan kemur upp og snýr að þeim sem hér talar þar sem reynt er að koma því á framfæri að ég hafi verið og sé áróðursmaður fyrir þau viðhorf og það kerfi sem ríkti í Austur-Evrópu. Ég held að það væri fróðlegt fyrir þá sem leika þessa plötu, ég tala nú ekki um fyrir þá sem vilja eitthvað grafast fyrir um hvað er raunverulega satt í þessum efnum, að lesa t.d. greinar sem ég ritaði í vikublaðið Austurland 1968 strax eftir að Sovétríkin réðust inn í Tékkóslóvakíu ásamt fylgiríkjum sínum. Undir fyrirsögnum eins og ,,Hernám Tékkóslóvakíu fordæmt`` og ,,Sovétríkin í pólitískri blindgötu``. Ég er með það fyrir þá sem vilja kynna sér það. Ég vil jafnframt nefna það að eftir að ég fór að hafa áhrif í Alþb., og það var nokkru áður en ég kom inn á þing, svona 10--12 árum áður sem ég gerðist forustumaður í alþýðubandalagsfélögum og kjördæmisráði Alþb. og síðan miðstjórn 1974, að ég lagði mig fram um það að í reynd væri staðið við þá samþykkt flokksins sem gerð var 1968 að klippa á samskipti við árásarríkin gegn Tékkóslóvakíu frá 1968.
    Það var réttilega minnt á það hér af formanni Alþb. sem opnaði allar gerðabækur Alþb. frá stofnun flokksins og lagði það fram fyrir blaðamenn í fjölriti þannig að allir mega lesa að 1976 flutti ég tillögu í miðstjórn Alþb. um það að alþjóðanefnd, sem sett hafði verið niður af framkvæmdastjórn, yrði tekin til sérstakrar skoðunar og lögð af ef hún væri ekki sett undir miðstjórnina. Um þetta voru greidd atkvæði og þetta var samþykkt. Auðvitað var það ekki gert að gamni sínu að tryggja að það væri ekki hugsanlega verið að fara fram hjá samþykktum í Alþb. Ég var langt frá því að vera einn um það. Við vorum mörg í Alþb. á þessum tíma sem stóðum um það dyggan vörð að ekki væri verið að brjóta samþykktir flokksins í þessum efnum. Um þetta geta menn sannfærst sem vilja kynna sér þessi mál.
    Ég vil segja hér eina litla sögu til viðbótar, virðulegur forseti. Á árum þegar ég var ráðherra gerðist sá, út af fyrir sig mundu menn segja, sárameinlausi atburður að í blaðinu Austurlandi, sem ég var tengdur eðlilega og gefið var út í minni heimabyggð, var komið á framfæri spurningakeppni um Sovétríkin eins og það hét með verðlaunum fyrir tvö ungmenni sem kæmu með réttar lausnir. Ég sá í þessum atburði dálítið annað en kannski flestir lesendur blaðsins, sá í honum tilraun til að smygla inn áróðri um Sovétríkin í þetta saklausa vikublað á Austurlandi. Ég leyfði mér að bregðast við þessu nokkuð harkaleg. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna til greinar sem ég skrifaði af þessu tilefni þar sem ég lýsti því í upphafi að ég hafi orðið ekki lítið undrandi við að sjá að fyrirhugað væri að leggja blaðið Austurland undir spurningakeppni af þessum toga. Þeir sem að stóðu voru MÍR, Samband sovéskra félaga-, vináttu- og menningartengsla við útlönd, eins og það hét, félagið Sovétríkin/Ísland og sovéska ferðaskrifstofan Spútnikk og síðan segir:
    ,,Það er þannig enginn smáliðssafnaður sem að baki þessu stendur og mikið við haft til að koma tveimur væntanlega austfirskum ungmennum í slíka boðsferð. Ekki er þess getið hver standa eigi undir kostnaðinum en mér þykir ólíklegt að hlutur blaðsins eigi að vera stór í því efni. Satt að segja hélt ég að íslenskir sósíalistar hefðu fengið sig fullsadda af utanstefnum austur fyrir tjald og óþarft að draga saklaus ungmenni inn í þá myllu. Ég ætla hér ekki að gera neina úttekt á ,,sendinefndakerfinu`` sem Sovétríkin og fylgiríki þeirra hafa beitt sér fyrir á liðinni tíð. Aðferðin er vel þekkt og gefur færi á þeirri handleiðslu og leiðsögn sem hæfir lokuðu landi og hver man ekki ferðasögur í lofgerðastíl sem sprottið hafa upp úr slíkum reisum. Þær ásamt ,,jákvæðu hugarfari`` eru raunar það endurgjald sem vænst er af stórveldinu.
    Sannarlega get ég unnað mönnum að hleypa heimdraganum og svipast um á áður óþekktum slóðum. En mér þykir meira en lítið athugavert við það að sjá Austurland lagt undir áróðursherferð fyrir Sovétríkin með tilheyrandi vinarhótum. Alþb. hefur frá því það var stofnað hafnað öllum samskiptum við kommúnistaflokka Austur-Evrópu enda á það ekkert skylt við þá hugmyndalega. Alþb. hefur ítrekað fordæmt grófa íhlutun og ofbeldi Sovétríkjanna á áhrifasvæði þeirra og brot gegn mannhelgi og lýðréttindum sem við hér á Íslandi teljum sjálfsögð. Ég á ekki von á að neinn hafi gleymt því hvernig vorið í Prag var traðkað niður í innrás Rússa og dyggustu fylgiríkja þeirra 1968 og allt sl. ár hefur sovéskt herlið reynt að berja Afgani til hlýðni með grímulausu ofbeldi og vítisvélum. Skyldu þeir ekki hafa fengið nóg af ,,sovéskum dögum`` og hafa þörf fyrir siðferðilegan stuðning vopnlausrar smáþjóðar þótt fjarlæg sé.``
    Og fleira er sagt í þessum dúr í þessari grein. Hún vakti kannski ekki mjög mikla athygli en um hana var þó skrifað í Vísi 16. febr. 1981 og vakin athygli á því með orðum blaðsins:
    ,,Morguninn eftir útkomu Austurlands í síðustu viku var ljósrit af grein Hjörleifs í umferð á Hótel Borg og höfðu þeir sem sáu stór orð um að þarna væri á ferðinni ein harðasta árás á stjórnskipulagið í Sovétríkjunum sem sést hefði lengi, jafnvel úr borgarapressunni. Maður hélt að þegar ráðherra Alþb. skrifar þannig þá sé það frétt sem birtist strax en ekki einhverjar óljósar tilvitnanir í kjaftadálkum og enginn álítur að svo langt sé á milli Neskaupstaðar og Reykjavíkur að ekki hafi verið fært fyrir helgi að nálgast blaðið Austurland. Hvorki borgarapressan né ríkisfjölmiðlarnir þora að taka almennilega með venjulegum hætti á málinu``, segir þar. ,,Þess vegna er svona ógnarlangt til Neskaupstaðar þegar eitthvað markvert gerist í málgagninu þar eystra.``
    Ég vil minna á það, virðulegur forseti, í lokin á ræðu minni að ég flutti skömmu seinna tillögu á Alþingi um erlend sendiráð og sú tillaga var samþykkt. Hún fól í sér að utanrrn. skyldi taka á málefnum erlendra sendiráða út frá sjónarmiðum Vínarsamningsins. Í umræðum um það efni dró ég fram hvernig sendiráð stórveldanna væru notuð hér á landi í njósnaskyni og hversu fráleitt það væri að lofa þeim að valsa þannig um á sama tíma m.a. og sovéska sendiráðið hleypti mönnum ekki nema í skömmtum út fyrir borgarmörkin í Moskvu.
    Menn ættu að kynna sér þessar samþykktir. Menn ættu að kynna sér viðbrögð Geirs Hallgrímssonar. Menn ættu að kynna sér aðgerðir utanrrh. Sjálfstfl. og síðan Alþfl. við það að framfylgja samþykkt Alþingis. Því miður var ekki mikið að gert í þeim efnum. En það er talað hér og það er dylgjað hér á sama tíma og menn hafa ekki fyrir því að kynna sér staðreyndir eða viðurkenna það hvernig menn taka á málum. Mér þykir það satt að segja raunalegt að tilefni þessarar umræðu skuli notað til að hefja árásir á Alþb. og einstaka þingmenn þess, óréttmætar árásir undir aðferðum Gróu á Leiti, svo ekki sé lengra til jafnað.