Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

90. fundur
Fimmtudaginn 09. febrúar 1995, kl. 17:31:37 (4131)


[17:31]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mjög gagnlegt að eiga hér skoðanaskipti með þessum hætti og hv. 1. þm. Austurl. bæði metur stöðu Framsfl. og það sem þar hefði átt að vera stefnan á sínum tíma öðruvísi en margir gerðu í þeim flokki, m.a. varðandi þátttöku í NATO, ég tala nú ekki um spurninguna um það að kalla hingað erlent herlið á einni nóttu með leynd eins og gert var 1951. Það voru sem betur fer ekki allir framsóknarmenn sem stóðu að því, hvorki þingmenn hvað þá stuðningsmenn flokksins. Auðvitað er það alveg ljóst að hv. núv. formaður, 1. þm. Austurl., metur spurninguna um tengslin við Evrópusambandið með öðrum hætti en forveri hans sem hafði það þó af að hafa meiri hluta í þingflokki á móti aðild að Evrópsku efnahagssvæði. ( Utanrrh.: Rétt marði það.) Hann marði það. Þarna hafa hins vegar orðið stór umskipti. Auðvitað höfum við tekið eftir því á norrænum vettvangi þar sem við eigum samstarf að hjarta 1. þm. Austurl. hefur ekki slegið með andstöðuöflunum á Norðurlöndunum sem hafa verið að berjast við fjármagnið og mikið ofurefli fjölmiðla gegn því að löndin tengdust Evrópusambandinu. Ég hef ekki heyrt hans rödd í þeim hópi. Og síðan talar hann fyrir flokkinn í sambandi við Evrópusambandið. Ég vona að hann

haldi þeirri stefnu sem hann var að boða að væri stefnan núna en það var önnur stefna uppi í vor eftir að hann tók við flokknum. Það var spurningin um einhvers konar aukaaðild að Evrópusambandinu sem átti þá að vera á dagskrá. En ég vona það að hann haldi þeirri stefnu sem hann boðar núna, að hann sjái ekki að það geti gerst eins og horfir í bráð þó að hann hafi vaðið fyrir neðan sig í hinu orðinu.