Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 14:00:33 (4259)

[14:00]
     Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Eftir þau frýjunarorð sem hæstv. umhvrh. hefur mælt hér varðandi þetta þingmál sem snertir embættisfærslu hans, þá hlýtur hæstv. ráðherra að leggjast á sveif með hæstv. forseta um það að þetta mál verði rætt, þetta mál sem var eina málið á síðasta fundi í gær og hæstv. ráðherra segir að hann hafi verið þess albúinn að taka þátt í umræðu. Það var ekkert sérstakt sem tafði þá umræðu, ekkert óvenjulegt sem gerðist á fundi í gær þannig að það mátti vera fyrirsjáanlegt og þó að sú forsenda hafi brugðist að þetta mál kæmi til umræðu í gær þá ætti það að vera til hliðsjónar þegar dagskrá er sett upp á þessum degi að þetta brýna mál komist á dagskrá. En það dylst engum að stjórnarmeirihlutinn í allshn., að beiðni hæstv. umhvrh., knúði málið fram til síðari umr. sem á svo ekki að fara fram í þeirri röð sem greinilega var þó áætlað. Ég skora því í senn á hæstv. forseta og hæstv. umhvrh. að leggjast á sveif með okkur sem óskum eftir því að 3. mál verði tekið til umræðu núna, verði rætt sem næsta mál á dagskrá, þ.e. að frestað verði þeirri umræðu um 2. dagskrármál sem tekið var á dagskrá af hæstv. forseta áðan svo að þessi umræða geti farið fram. Annars verður það ekki skilið á annan veg en þann að það sé hæstv. umhvrh. sem kinokar sér við að ræða þetta mál hér og nú.