Náttúruvernd

94. fundur
Þriðjudaginn 14. febrúar 1995, kl. 22:52:27 (4275)


[22:52]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 10. þm. Reykv. fyrir ábendingar og tilvitnun í mál hæstv. umhvrh. varðandi valdsvið Náttúruverndarráðs. Þessi tilvitnuðu ummæli hafa farið fram hjá mér. Ég tók ekki eftir hvenær ræðan var haldin? ( KE: 17. nóv.) Það var 17. nóv. og passar við það að þá sat ég ekki á þingi þannig að þetta atriði hefur fram hjá mér farið af eðlilegum ástæðum. Það er skýrar orðað þarna af hæstv. ráðherra en stundum má ætla af textum og m.a. textum sem ég hef vitnað til í mínu máli, þar á meðal frá 8. náttúruverndarþingi 29. okt. 1993 þegar hæstv. ráðherra flutti sína inngangsræðu gagnvart þinginu og talaði mjög fjálglega um hið frjálsa eða sjálfstæða, það mun hafa verið orðað þannig: hið sjálfstæða, óháða Náttúruverndarráð sem reynt hefur verið að gera mikið úr í sambandi við þann málflutning sem tengist þessu frv.