Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 01:06:55 (4297)


[01:06]
     Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig vonum seinna að hæstv. umhvrh. býðst til þess að bregðast við í umræðunni ýmsum fyrirspurnum sem til hans hefur verið beint af hálfu ræðumanna og er ég í þeirra hópi og kom að ekki ófáum atriðum sem varða þetta mál sem hér er rætt. Í rauninni gera þingsköpin, virðulegur forseti, ráð fyrir því að ráðherra geti komið inn í umræðu hvenær sem er og það er auðvitað hugsað til þess að geta greitt fyrir umræðum með því að ráðherra sitji ekki og þrumi yfir gögnum án þess að bregðast við orðum hv. þm. og fyrirspurnum.
    Í öðru lagi vildi ég nefna það sem ég er búinn að heyra frá mörgum hv. þm. undanfarna klukkutíma að gert hafi verið ráð fyrir því að hér yrði kvöldfundur en ekki næturfundur. Með tilliti til þess finnst mér það bera mjög einkennilega við að hæstv. forseti talar um að halda áfram umræðu án þess að greina frá hversu lengi þegar klukkan er að ganga tvö að nóttu. Það er ljóst að mikið er eftir órætt í þessu máli og það er það einnig af minni hálfu þó ég sé ekki á mælendaskrá. Ég tel að það sé mjög óskynsamlegt upp á störf þingsins næstu daga að ætla að fara að keyra umræðuna áfram langt fram á nóttina en ég ætla ekki að skorast undan því ef það er eindreginn ásetningur forseta. Auðvitað er hægt að gera það en það hlýtur að bitna á þingstörfum á næstu sólarhringum ef svo verður við haft. Mér finnst því að hæstv. forseti þurfi að hugsa ráð sitt í sambandi við framhald fundar.

    Ég tek undir það sem kom áðan fram að það er afar óviðfelldið að heyra það orðað af munni forseta að hann ætli ekki að sinni að beita ákvæði um skerðingu á ræðutíma, hvort sem hann kallar það hótun eða einhverju öðru nafni er matsatriði. En óviðfelldið er það a.m.k. svo ekki sé meira sagt. Ég skora á virðulegan forseta að hugsa sitt ráð og væri ekki illa til fundið að umræðunni lyki með því að hæstv. umhvrh. brygðist við einhverju af því sem fram hefur komið í fyrirspurnarformi til hans.