Náttúruvernd

94. fundur
Miðvikudaginn 15. febrúar 1995, kl. 02:43:38 (4314)


[02:43]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega mörg atriði sem ástæða er til að koma að úr

máli hæstv. ráðherra og ég mun gera það síðar í þessari umræðu. En það er tvennt sem ég ætla að nefna sérstaklega sem hann vék að. Það er í fyrsta lagi sú staðhæfing hæstv. ráðherra að hann hafi í engu breytt frá stefnu forvera síns í sambandi við undirbúning þessara mála. Það tel ég fráleita staðhæfingu. Forveri hæstv. ráðherra í starfi skipaði nefnd með tilnefndum fulltrúum þingflokka til að vinna að undirbúningi málsins undir sinni forustu með formann og varaformann, en hæstv. umhvrh. lagði þá nefnd af og setti embættismenn í undirbúning málsins, innan húss í sínu ráðuneyti.
    Nefndin sem Eiður Guðnason skipaði 29. jan. 1992 fékk það verkefni að endurskoða þá þætti laga nr. 47/1971, um náttúruvernd, sem lúta að hlutverki Náttúruverndarráðs og stjórn náttúruverndarmála. Einnig segir í skipunarbréfi: ,,Nefndin skal að endurskoðun lokinni semja drög að frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd og um aðrar lagabreytingar sem hún telur æskilegt að gera varðandi stjórn náttúruverndarmála.``
    Um það var spurt snemma í nefndarstarfi hvort það ætti að takmarka það við sem lyti að Náttúruverndarráði sérstaklega og stjórnunarþættinum en því var svarað að svo væri ekki. Það gæti allt verið undir sem varðaði lögin um náttúruvernd. Það var tilefnislaust að mínu mati að leggja þessa nefnd af þó hún hafi ekki getað klárað verkefni sín á tilsettum tíma. Það var ekki vegna fyrirstöðu fulltrúa þingflokka í nefndinni. Það kann að eiga að skrifast á trúnaðarmenn ráðherra. Ég vil ekki leggja mat á það en svo fer nú oft um nefndastörf.
    Síðan aðeins, virðulegur forseti, atriði sem ég kem þá að síðar þegar ég hef rétt til andmæla.