Flugmálaáætlun 1994--1997

101. fundur
Þriðjudaginn 21. febrúar 1995, kl. 21:01:18 (4642)

[21:01]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég get ekki orða bundist þegar þetta mál er rætt hér, breyting á þál. um flugmálaáætlun, sem samþykkt var í þokkalegu samkomulagi, ef ég man rétt, á Alþingi 6. maí 1994 og auglýsing um hana er undirrituð af hæstv. samgrh. 31. ágúst sama ár, þeim sama ráðherra og kemur hér fyrir þingið með breytingar á flugmálaáætlun, niðurskurð upp á 40 millj. kr., sem leitað er eftir staðfestingu á.
    Þetta mál var mikið rætt í tengslum við frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 og gagnrýnd þá harðlega sú stefna sem ríkisstjórnin hugðist þá knýja fram um mun meiri niðurskurð og enn þá opnari að því er varðaði það í hvað fjármagnið yrði notað sem fæst fyrir markaðan tekjustofn. Þannig að eitthvað var þrengt að fyrirætlunum hæstv. ríkisstjórnar sem hæstv. samgrh. var knúinn til að gera að sínum tillögum. Ég efast ekkert um að það hefur ekki verið neitt sérstaklega ljúft verk fyrir hæstv. samgrh. að standa að þessum niðurskurði sem hann þarna lagði til. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra sé nokkuð annt um sitt málasvið eins og öðrum ráðherrum sem reyna að starfa samviskusamlega í Stjórnarráðinu. Engu að síður, hæstv. ráðherra lét sig hafa það að bera fram þessa tillögu sem hlaut m.a. mjög harða gagnrýni af reyndum þingmönnum úr flokki hæstv. ráðherra og minnist ég þá sérstaklega framgöngu hv. 1. þm. Vestf. í sambandi við afstöðu til málsins í tengslum við frv. til breytinga á ríkisfjármálum, sem þetta var nú kannski sérstaklega tengt eftir á að hyggja og því frv. sem rætt var fyrir áramótin þar að lútandi.
    Hér er um að ræða mjög tilfinnanlegan niðurskurð fjárveitinga til nokkurra framkvæmda, sem eins og hér hefur verið vakin athygli á eru allar úti um land. Eitt af því er í Austurlandskjördæmi, sem er niðurskurður um 6 millj. kr. á flugstöðvarbyggingu sem þar var ráðgerð á þessu ári, þ.e. í tveimur áföngum og niðurstaðan af þessum niðurskurði er sú að lokaáfangi þeirrar framkvæmdar mun frestast. Þetta er afar tilfinnanlegt vegna þýðingar þess flugvallar, flugvallarins á Egilsstöðum, sem hefur verið endurbyggður eða byggður nýr flugvöllur, glæsileg mannvirki í raun. En það sem þrengt hefur að er aðstaða fyrir farþega og möguleikar á að sinna þar komu flugvéla og farþega, m.a. í tengslum við hugsanlega tollskoðun og utanlandsflug, sem er hægt að stunda á þessum nýja velli með þotum, enda flugvöllurinn varaflugvöllur fyrir millilandaflug jafnhliða, þarf að þjóna þeim tilgangi.
    Það er því afskaplega illa til fundið hjá hæstv. ríkisstjórn að leggja til atlögu við þennan málaflokk og þessar framkvæmdir sem þarna er um að ræða og alveg sérstaklega vegna þeirrar góðu samstöðu sem ríkti á sínum tíma þegar ákveðið var að taka upp tekjuöflun til framkvæmda í flugmálum með mörkuðum tekjustofni sem hefur haft geysilega mikla þýðingu fyrir málaflokkinn í heild sinni og framkvæmdir frá því að hann var tekinn upp. Þetta er svona með níðangurslegri verkum sem staðið hefur verið að af hæstv. ríkisstjórn, að mínu mati, í sambandi við framkvæmdir, enda hefur það hlotið almenna gagnrýni og fordæmingu margra.
    Hér hefur verið rætt um Flugmálastjórn og hennar starfshætti. Ég er ekki það kunnugur Flugmálastjórn og starfi á hennar vegum að ég þori að kveða þar upp einhverja dóma eða leggja mikið mat á það sem hér hefur verið sagt þar að lútandi. Ég hef átt ágætt samstarf þar við einstaka starfsmenn sem ég hef þurft að leita upplýsinga hjá og ræða við um fyrirhugaðar framkvæmdir, m.a. í mínu kjördæmi og vil ekki hafa uppi nein stór orð þar að lútandi. Hitt dylst manni ekki að í því kerfi sem tengist framkvæmdum við flugmál hagar allt öðruvísi til eins og frá því er gengið af hálfu löggjafar- og framkvæmdarvalds, þ.e. í sambandi við frágang á framkvæmdum og þátttöku þingsins í sambandi við ákvarðanir og það tel ég að sé í rauninni kerfi sem hefði þurft fyrir löngu að koma til endurskoðunar. Að vísu, ef ég man rétt, hefur sú breyting á orðið að eitthvað meira kemur þetta mál upp á borð fjárln. þingsins en áður var. Ég held að þetta hafi verið afskaplega lausbeislað framan af eftir að þetta kerfi var upp tekið, en ég stend í þeirri meiningu að það hafi eitthvað skánað að því er varðar aðkomu fjárln. að málinu, en get þó ekki fullyrt það nákvæmlega vegna þess að ég hafði ekki farið ofan í það hér áður en ég tók til máls um þetta efni. En það hefur verið býsna frjálslegt og ég tel að Flugmálastjórn hafi litið svo á málin að þeir hefðu það nokkuð í hendi sinni að flytja fjármagn á milli framkvæmdaliða án þess að það þyrfti að koma til sérstakrar ákvörðunar af hálfu þingsins, en það má vera að þetta sé að einhverju leyti breytt og fjárln. komi inn í skoðun þeirra mála.
    Við þingmenn einstakra kjördæma fáum í rauninni ekki aðgang að þessu máli öðruvísi en í gegnum þessa heildaráætlun sem lögð er fyrir og getum auðvitað fengið viðtöl við viðkomandi embættismenn, fyrir utan umræður hér í þinginu. En hér eru mál ekki framkvæmdalega frágengin með neitt viðlíka hætti og reynt hefur verið í sambandi við t.d. vegamál þar sem þingmenn kjördæma hafa haft mikið að segja í sambandi við skiptingu vegafjár og yfirleitt tekist sæmilegt samkomulag um það, þó að svo beri nú við í sambandi við núverandi vegáætlun að það er í rauninni þannig á þeim málum haldið að erfitt er nærri að koma vegna þess hvernig gengið er í þau efni.
    Það ætla ég ekki að ræða hér undir þessum dagskrárlið, en ég vildi, virðulegur forseti, taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á þennan tilfinnanlega niðurskurð og þá stefnu sem ríkisstjórnin tók upp fyrr í vetur í sambandi við það að höggva í markaðan tekjustofn í framkvæmdafé til flugmála.