Leigubifreiðar

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 22:13:24 (5024)


[22:13]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að gera athugasemd við eitt atriði sérstaklega í sambandi við þessa lagabreytingu sem ég tel að horfi til rangrar áttar. Það er það ákvæði sem er að finna í brtt. samgn. við ákvæði til bráðabirgða, a-lið, þar sem segir:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 3. gr. skulu þeir sem stunda akstur leigubifreiða við gildistöku laga þessara og hafa verið undanþegnir reglunni um hámarksaldur halda atvinnuréttindum sínum óskertum til 1. janúar 1996.``
    Sú skýring sem fylgir um þetta atriði í nál. er svohljóðandi:

    ,,Loks er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði gert skýrara hvað snertir að þeir aðilar sem verða 71 árs á yfirstandandi ári missi við það réttindi sín, eins og gert er ráð fyrir í gildandi lögum, nema þeir hafi ekki sætt aldurstakmörkunum en þá helst leyfið til ársloka 1995. Fyrrgreindir aðilar geta þó haldið akstri áfram til 75 ára aldurs standist þeir læknisskoðun og hæfnispróf á grundvelli 7. gr.``
    Þegar mál þetta var til umfjöllunar og lög voru sett árið 1989 var þetta eitt af þeim ákvæðum sem þar var breytt frá fyrra horfi en áður höfðu ekki gilt aldurstakmörk. Eftir mikla vinnu í þingnefnd þar sem ég starfaði varð þetta niðurstaðan og sættust menn á þetta og það var í góðu samkomulagi við hagsmunaaðila að þessu var breytt og tekið fyrir það, sem að mínu mati var óeðlilegt, að þarna væru ekki á takmarkanir. Auðvitað eru aldursmörk álitaefni og ég vil inna framsögumann og formann samgn., hv. 2. þm. Norðurl. v., eftir því hvaða rök séu fyrir því að draga þessi aldursmörk við 75 ára aldur sem er fimm árum ofar en almenn starfslok eru í þjóðfélaginu. Hér er um að ræða stjórn á tækjum og flutning á fólki þar sem reynir mjög á öryggi og aðstæður í samfélagi okkar almennt. Það sýnist ekki sérstök þörf á því þar sem um leyfisveitingar er að ræða og fyrst verið er á annað borð með íhlutun í þessi efni þá sé verið að færa þetta til annars horfs en er í gildandi lögum.
    Ég tel nauðsynlegt að það komi mjög skýrt fram af hálfu nefndarinnar hvaða rök hún telur fyrir þessu. Mér finnst þetta ekki hafa verið rökstutt sem skyldi í nál. en verð þó að viðurkenna, virðulegur forseti, að ég hlýddi ekki á framsögu formanns nefndarinnar, var ekki í þingsal þegar hann mælti fyrir málinu við 2. umr. og bið velvirðingar á því og má vera að hann hafi þá í rauninni skýrt málið af nefndarinnar hálfu hvað þetta snertir.
    Mér er það ljóst að það geta verið ástæður til þess að samræmis sé gætt í þessum efnum við aðrar starfstéttir eða aðra sem starfa að hliðstæðum málum eins og leigubifreiðaakstri og þá er auðvitað að taka á því. En fyrst hér er verið að setja skilgreind mörk þá finnst mér að það vanti skýr rök fyrir því hvers vegna þau eru einmitt dregin við 75 ára aldur, að vísu með ákveðnum takmörkunum og eftirliti varðandi heilsufar þeirra sem í hlut eiga og er það til bóta frá því sem ella var.
    Hér var um að ræða atriði sem var auðvitað umdeilt á sínum tíma og sársaukafullt fyrir einhverja. Mér er kunnugt um það að t.d. hv. 3. þm. Reykv. hefur lagst í nokkurn víking fyrir því sjónarmiði að það beri að rýmka þessi mörk, skrifað um það margar blaðagreinar ef ég man rétt og haft mikinn áhuga á því. Það er sennilega verið að láta undan sjónarmiðum sem ég segi ekki að séu ekki gild út af fyrir sig, þ.e. eigi fullan rétt á sér að fram komi en mér finnst þetta ekki vera skynsamlegt. Ég held að það sé ekki mikill stuðningur hjá hagsmunaaðilum, þeim sem við leigubifreiðaakstur fást að breyta þessu og vera að taka þetta ákvæði upp með þessum hætti. Þetta verður til þess að þeir verða færri sem komast inn í stéttina eða og hljóta leyfi og ég held að það séu ekki mikil rök fyrir því. Hér er um að ræða vandasamt starf og erfitt. Það er alltaf erfitt fyrir hvern sem er að ganga úr starfi, það vitum við, en ég vildi gjarnan heyra fyrir þessu ljósari rök en ég hef heyrt.