Leigubifreiðar

106. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 22:38:49 (5032)

[22:38]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er dálítið erfitt að taka upp þráðinn eftir ræðu og innlegg frá virðulegum forseta þingsins í þessu efni sem var að taka svo hlýlega undir með formanni þess flokks sem ég starfa í. Ekki ætla ég að fara að vinna gegn því að þetta frv. nái fram að ganga, það hefur ekki verið í mínum huga þannig að menn skulu ekki hafa áhyggjur af því. En út af fyrir sig er það efni sem hér er rætt allrar umræðu og umhugsunar virði. Ég vil taka undir með hv. 10. þm. Reykv. sem talaði áðan, Kristínu Einarsdóttur, um það að menn þurfa í sambandi við þessi efni að reyna að skapa einhverjar almennar viðmiðunarreglur og hafa almenn sjónarmið og það er kannski ekki sérstaklega kjörið að byrja á fólki í þjónustustörfum þar sem er um jafnvandasöm verkefni að ræða og hér til þess að breyta reglu sem annars er almenn viðmiðunarregla.
    Ég vil líka taka undir með mönnum um að það væri kannski betra að það væri meiri og almennari virðing fyrir efri árum, fyrir þeim sem eru á eftir árum en raun ber vitni. Ég held að það hafi farið frekar á hinn veginn á þessari öld að því hafi hrakað. En öllu má vissulega ofgera einnig í þeim efnum og mismunandi sjónarmið geta átt rétt á sér að þessu leyti. En við skerum okkur kannski dálítið úr í seinni tíð með það að virðingin fyrir aldri og reynslu er ekki mjög mikil og við heyrum það oft, bæði í stjórnmálaumræðu og þess utan, hve mikið er höfðað til og skírskotað til hins unga og uppvaxandi og ég tala nú ekki um hins nýja því allt á að vera nýtt, helst splunkunýtt af nálinni til þess að vera gjaldgengt. Það er grunntónninn í áróðri í sambandi við stjórnmál m.a. og á auðvitað nokkuð til síns máls því auðvitað er lífið eitt samfellt ferli sem endar þó á einn veg sem betur fer og það þarf að líta á það í heild sinni.
    En það sem fékk mig til að biðja hér um orðið var það að ég vildi aðeins koma fáeinum atriðum á framfæri sem snúa að þessu umræðuefni. Það er þá kannski sérstaklega það sem varðar þann vanda sem nútímasamfélög í okkar hluta heimsins eiga við að glíma í mjög vaxandi mæli sem heitir atvinnuleysi og er að verða eitt af því sem ógnar öryggi og friði í samfélögunum. Þannig að þeir sem um stjórnvölinn halda og hafa kannski ekki haft mjög þungar áhyggjur af því, sumir hafa sakað menn um það sem ráða ríkjum að vilja hafa á stundum hæfilegt atvinnuleysi svona sem aðhald á vinnumarkaðinn, en nú er svo komið að það eru eiginlega flestir í þeim kór að vara við alveg inn í innstu búr Evrópusambandsins t.d., þar sem menn eru farnir að óttast þá stöðu og þróun sem er í gangi að sífellt fjölgar þeim sem ekki fá vinnu. Það eru nú að verða um 20 millj. manna í ríkjum Evrópusambandsins sem þannig er komið fyrir. Það hafa engir trú á því, hvorki hagspekingar né stjórnmálamenn sem eru að spá í þessi efni, að uppsveifla í hagkerfi á klassíska vísu, miðað við það sem verið hefur á þessari öld t.d., muni breyta nokkru teljandi í þessum efnum. Í raun hefur þetta verið að dýpka eða réttara sagt hefur þeim verið að fjölga stig af stigi sem ekki fá vinnu. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvernig verður við þessu brugðist.
    Hvernig verður við þessu brugðist? Þar hafa menn misjöfn sjónarmið og finna misjafna sökudólga fyrir þessu ástandi. Ég ætla ekki að fara að ræða það hér, en eitt er það sem í vaxandi mæli er flutt inn í umræðuna og það er nauðsynin á því að deila vinnunni sem fyrir hendi er. Að láta það ekki gerast að þjóðfélagið skiptist upp í þá sem hafa vinnu og hina sem eru atvinnulausir og það blasir við að þeir fylli þann flokk ævina út jafnvel, samanber þann gífurlega fjölda æskufólks í Evrópu sem býr við þetta hlutskipti. Ætli atvinnuleysi ungra í Evrópusambandinu sé ekki nálægt 30% allvíða, jafnvel meira.
    Þá kemur upp m.a. spurningin sem tengist því sem við erum að ræða hér: Höfum við ráð á því að lengja starfstímann í hina áttina til mikilla muna? Eða eigum við að stefna að því að greiða fyrir því að þar geti orðið á eðlileg skipti, þ.e. að menn geti horfið að öðru en launavinnu einni saman? Auðvitað er æskilegt að geta haft sveigjanleika í þessum efnum, það er æskilegt. En ég er þeirrar skoðunar að það eigi að greiða fyrir því að fólk finni sér viðfangsefni þegar árin færast yfir, finni sér viðfangsefni, skapandi störf við annað en hefðbundna launavinnu og það eigi að greiða fyrir því þannig að þeim fækki sem yngri eru að árum og hafa ekki verkefni á vinnumarkaði.
    Það eru þessi sjónarmið sem ég vildi koma hér á framfæri og tel að eigi að vera til umhugsunar í sambandi við efni eins og þau sem við erum að ræða hér. Þetta getur einnig átt við varðandi stjórnmálamenn. Auðvitað er það svo að fjöldi fólks, og fer fjölgandi, heldur ágætu bæði andlegu og líkamlegu þreki langt fram eftir ævi, langt fram yfir þau mörk sem við erum hér að tala um sem betur fer. En það á ekki endilega að fylgja sögunni að það séu skapaðar einhverjar nýjar reglur að því leyti að þeir eigi að geta setið í störfum á opinberum vegum eða annarra miklu, miklu lengur. Ég held að það eigi að leita eftir öðrum leiðum til þess að menn fái verðug viðfangsefni á meðan líf og kraftar endast.