Vegáætlun 1995--1998

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 12:18:15 (5122)


[12:18]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það mál sem við ræðum hér, till. til þál. um vegáætlun til fjögurra ára, skiptir landsmenn miklu. Það er eðlilega mikill áhugi á þessu. Ekki síst á það við landsbyggðina þar sem vegalengdir eru meiri og vegir almennt í lakara ástandi að því er slitlag varðar a.m.k. en hér á þéttbýlissvæði. Ég vil þó segja í upphafi míns máls að ég sé engum sérstökum ofsjónum yfir því að gert sé átak til úrbóta á höfuðborgarsvæðinu til þess að leysa erfiðustu vandamál umferðar hér en geta þess þó jafnframt til umhugsunar að kannski væri ástæða til þess fyrir þetta svæði hér, höfuðborg okkar og þéttbýlið sem tengist henni, að leita annarra lausna til lengri tíma litið í samgöngumálum en tefla fyrst og fremst á einkabíla eins og hér er gert og reyna að líta til þess sem skást hefur verið gert í nágrannalöndum þar sem reynt er að taka þessi mál öðrum tökum og koma upp og búa að almenningssamgöngum með þeim hætti að þær geti verið raunverulegur kostur til hliðar við einkabíl í öðrum mæli en raun hefur orðið á hér. Það er ekki framtíðarstefna á aðalþéttbýlissvæðum landa og á ekki heldur við hér að ekki sé unnt að nota almenningssamgöngur í meiri mæli en gert er. Ég held að við getum lært nokkuð t.d. af nágrönnum okkar, Dönum,

í þessu efni, Kaupmannahafnarsvæðinu og hvernig þar er tekið á málum einnig að því er varðar fjárhagslega stýringu að því er snertir umferð einkabíla inn í hjarta miðbæjar þar. Þó ætla ég ekki að ræða það sérstaklega og ég ítreka það að tel að það sé mjög eðlileg krafa að til þessa svæðis verði varið meira fjármagni eins og er sannarlega gert í þessari áætlun og eins og minni hluti nefndar hefur ekki gert breytingartillögur um.
    Ég vil hins vegar, virðulegur forseti, koma að nokkrum atriðum almenns eðlis til áherðingar þess sem ég sagði við 1. umr. þessa máls en þá gagnrýndi ég margt af því sem varðar hinn almenna ramma þessa verks og fyrst af öllu það að ekki er allt sem sýnist í uppsetningu málsins að því er varðar fjármagn sem ríkisstjórnin er að státa sig af að sé dregið inn til vegamála. Það er reynt að láta líta svo út sem hér sé um 3.500 millj. kr. að ræða á tímabilinu sem sé aukning á vegafé en þegar betur er að gáð er hægt að draga meira en milljarð kr. frá þessari upphæð vegna þess sem dregið er í land að öðru leyti. Hér er að nokkru leyti verið að taka með annarri hendinni það sem gefið er með hinni. Við nefndum það hér og því var ekki neitað og ekki hrakið við 1. umr. málsins að í raun væru það 2.355 millj. kr. sem kæmu sérstaklega til viðbótar á þessu tímabili.
    Í öðru lagi vil ég nefna að það er ekki eðlilegt að ríkisstjórn sem er væntanlega að renna sitt síðasta skeið í aðdraganda kosninga, a.m.k. er fullkomin óvissa um framtíð hennar, sé að leggja áherslurnar og ráða megináherslunum í sambandi við vegamál til næstu fjögurra ára, fyrir komandi kjörtímabil. Ég er ekki að álasa þessari ríkisstjórn sérstaklega í því efni. Það er verið að fylgja hér hefð og leiðbeiningu í lögum að þessu leyti. En þetta eru ekki góð vinnubrögð. Það er að sjálfsögðu eðlilegra að móta stefnu í upphafi kjörtímabils, á fyrsta þingi kjörtímabils, af þeim sem við taka þannig að þeir geti komið sínum áherslum að í sambandi við þessi efni með öðrum hætti en felst í endurskoðun að tveimur árum liðnum. Ég vil jafnframt nefna það í þessu sambandi að í þeirri þál. sem hér liggur fyrir er réttilega á það bent að það verkefni bíði að móta langtímaáætlun sem leggja á til þriggja tímabila, samtals til 12 ára fram í tímann og það sé verkefni næsta þings. En við erum nú þegar á þessu þingi að móta stefnu um þriðjunginn af þessu tímabili. Og auðvitað á langtímaáætlun að koma á undan stefnumótun um hvernig eigi að skipta fé innan tímabilsins. Þetta minnir því nokkuð á valinkunna bræður sem við þekkjum úr þjóðsögunum, Bakkabræður. Þau vinnubrögð eru Bakkabræðraaðferð sem hér eru notuð í sambandi við stefnumótun og okkur til lítils sóma á Alþingi Íslendinga að standa þannig að málum.
    Ég tel að næsta ríkisstjórn sem við tekur þurfi, jafnhliða því sem langtímaáætlun er mótuð til lengri tíma, að endurskoða vinnubrögðin í þessum málum til framtíðar þannig að menn séu ekki að vinna meira og minna út frá skammtímasjónarmiðum eins og þetta mál liggur fyrir. Þetta varðar t.d. stórframkvæmdir í vegamálum eins og jarðgangagerð sem ég kem hér að síðar.
    Þá tel ég einnig að við mótun þessa máls og í þeim búnaði sem vegáætlun nú liggur fyrir sé stefnt til verulegra vandræða með því að vera í auknum mæli að búta niður fjárveitingar í einstaka sérflokka þannig að upphæðirnar til almennra framkvæmda sem eftir standa og varða vegakerfið almennt eru orðnir smáaurar, orðnar óverulegar upphæðir miðað við það sem er í sérmerkt verkefni sem heita ýmsum nöfnum, höfuðborgarsvæði, stórverkefni, framkvæmdaátak vegna atvinnu og sérstakt framkvæmdaátak sem er tengt höfuðborgarsvæðinu öðru fremur en síðan skipt eftir höfðatölureglu varðandi landið í heild. Og enn er verið að bæta við sérstökum flokki í þessum efnum eins og fram hefur komið, áfanga til að tengja byggðasvæði sem er að bætast við og kom fram í framsöguerindi meiri hluta nefndarinnar.
    Það er ekki skynsamlega að verki staðið að vera að kljúfa þetta niður með þessum hætti. Það kemur í veg fyrir það að menn geti litið sæmilega heildstætt á verkefnin sem við blasa og haft þann sveigjanleika í því sem eðlilegur væri. Það er að sjálfsögðu réttmætt að leggja áherslur og alveg óhjákvæmilegt að taka út úr almennri skiptingu stærstu átaksverkefni eins og t.d. jarðgangagerð. Um það þurfum við ekki að deila. En þegar svo er komið að hin almennu verkefni eru í raun orðinn minni hluti og verulegur minni hluti framkvæmdafjár til skipta þá er stefnt í verulegt óefni.
    Þá vil ég nefna það næst, virðulegur forseti, að vinnubrögðin í sambandi við deilingu þessa fjár sem hér er til skipta eru afar ranglát að þessu sinni og það sætir furðu að mínu mati að þingmenn af landsbyggðinni eins og hv. 2. þm. Norðurl. v., vel vinnandi þingmaður sem er að ljúka sínum ferli eftir langa og farsæla setu á Alþingi, þá tala ég almennt þó að ég hafi ekki verið hv. þm. sammála í öllum málum en oft átt með honum góða samleið og þar á meðal í ríkisstjórn, skuli standa að því hér sem frumkvæðisaðili og formaður samgn. að skipta fjármagni í einum af þessum framkvæmdaþáttum eins og raun ber vitni og ég mun koma frekar að.
    Ég er satt að segja mjög undrandi á því að hv. þm. skuli ekki hafa beitt sínu afli, sem er talsvert þegar hann vill svo við hafa, til þess að koma í veg fyrir að mínu mati óréttmæt vinnubrögð gagnvart einstökum kjördæmum í sambandi við skiptingu fjár. Í framsöguræðu fyrir meirihlutaáliti samgn. hafði hv. þm. nokkuð stór orð að mínu mati í garð minni hlutans sem er að reyna að koma fram með aðrar áherslur til þess að draga úr því sárasta í þessum efnum og ég vil í raun enn trúa því að það geti verið möguleiki á því að fá undirtektir og stuðning við það hér, m.a. frá hv. 2. þm. Norðurl. v., til þess að gera hér á leiðréttingu og teldi að það væri mjög verðugt hlutverk fyrir hann hér, e.t.v. á sínum síðasta þingdegi á Alþingi Íslendinga, eftir langa og dygga setu hér fyrir sitt kjördæmi og landið sem heild, að gerast sáttasemjari í þessu máli og reyna að hafa áhrif á hæstv. samgrh. sem nú er risinn úr rekkju og ég býð

sérstaklega velkominn til fundar. En hann hafði fjarvist fyrr á fundinum og er gott að hann skuli einnig vera hingað kominn og ætti að greiða fyrir því að það verði hægt að líta á þetta mál áður en umræðu lýkur.
    Það sem hér er um að ræða hefur vissulega verið rætt hér bæði af frsm. minni hluta nefndarinnar sem og af hv. 1. þm. Austurl. En það sem við okkur blasir, þingmönnum þriggja kjördæma í landinu, er það að verið er að hafa fjármagn af þeim miðað við skiptingu samkvæmt höfðatölureglu sem nemur á fjórða hundrað millj. kr. Þar af er Austurland með 141 millj. í mínus á tímabilinu og það munar um minna í vegaframkvæmdir í kjördæmi þar sem vegakerfið er ekki í betra ástandi heldur en raun ber vitni.
    Hér er reiknað á grundvelli þeirrar skiptiprósentu sem verið hefur í gildi á undanförnum árum og þokkaleg sátt hefur verið um en verið er að ganga gegn með því að láta höfðatöluregluna ráða í sambandi við skiptingu fjármagns í þeim flokki. Og Austurland hefur ekki meira í það að leggja hlutfallslega að íbúatölu en 4,9% á sama tíma og okkar skiptiprósenta er sú hæsta í einstökum kjördæmum, ef ég man rétt, nálægt 22% eða milli 21 og 22%, svolítið mismunandi eftir árum. Og önnur kjördæmi sem þarna eiga í hlut eru Vestfirðir með 110 millj. samkvæmt þessum útreikningi og Vesturlandskjördæmi með 46 millj. Er það sæmilegt, virðulegur forseti, að ætla að afgreiða þetta mál með þessum hætti, að hér sé meiri hluti landsins, bæði í kjördæmum talið og að ekki sé nú talað um höfðatölu, sem telur sig fá þokkalega úrlausn mála á meðan farið er með þessi kjördæmi og þar af a.m.k. tvö og ég býst við öll þrjú, sem eru með stærsta verkefnið óleyst í vegamálum innan sinna marka. Hér er verk að vinna fyrir hv. 2. þm. Norðurl. v. að bæta úr þessu, þessum stóra ágalla á málinu áður en umræðunni lýkur og ég skora á hv. formann meiri hluta samgn. að líta á þetta mál með minni hlutanum fyrr en seinna til þess að greiða fyrir því að málið fái þokkalega afgreiðslu í þinginu og um það geti verið þolanleg sátt.
    Hv. frsm., 2. þm. Norðurl. v., nefndi það alveg réttilega að yfirleitt hafa þingmenn reynt að ná saman um vegáætlun, megináherslur og skiptingu vegafjár. Við þingmenn Austurl. sem erum í stjórnarandstöðu treystum okkur ekki til þess og lái oss hver sem vill, að fara að standa að skiptingu fjár miðað við þessa niðurstöðu. Það breytir engu þó bent sé á það að ekki sé verið að draga úr því sem áður var gert ráð fyrir með vegáætlun sem verið hefur í gildi til þessa. Það breytir engu. Það gildir einnig um önnur kjördæmi. Það er sú mismunun sem er látin bitna á þessum kjördæmum sem við erum hér að gagnrýna og gera kröfu um að verði leiðrétt.
    Varðandi Austurlandskjördæmi sérstaklega og tengsl þess við önnur kjördæmi vil ég segja nokkur orð. Ég ætla ekki að fara að ræða í neinum smáatriðum þá skiptingu sem stjórnarþingmenn, hv. 3. þm. Austurl. og hv. 5. þm. Austurl., hafa leitt til lykta á grundvelli tillagna Vegagerðar ríkisins. Við gengum frá því borði, þingmenn Framsfl. á Austurlandi og sá sem hér talar, af ástæðum sem ég hef þegar greint frá. Og það þarf nokkuð til að við stöndum ekki að málum. Við höfum margt mátt þola á undanförnum árum og tekið þátt í mörgu þegar aðrir hafa verið að hlaupa þar frá að axla ábyrgð og það jafnvel á tíma þegar þeir hafa haft ítök um landsstjórnina.
    Við höfum látið það yfir okkur ganga eins og þingmenn fleiri kjördæma, að ríkisstjórn hefur gripið inn í hefðbundin vinnubrögð í vegamálum eins og gerðist sumarið 1992 með því að ákveða verulegar framkvæmdir sem voru undir merkjum atvinnuaukningar, að bæta úr atvinnuástandi og varið var talsverðu fjármagni til. Þá var það ríkisstjórnin sem gerði um það tillögur og stjórnarliðar sem fengu að sjá þær en stjórnarandstöðuþingmenn komu þar ekkert nærri, höfðu engin tækifæri til að hafa þar áhrif á. Við létum okkur samt hafa það að líta á endurskoðun vegáætlunar og láta það ekki verða til þess að standa ekki að því sem hefur verið reynt af þingmönnum kjördæmanna, þangað til nú, að þetta er útilokað af okkar hálfu eins og málin liggja nú fyrir og þarf í rauninni ekki að hafa um það fleiri orð.
    Í sambandi við stöðu mála á Austurlandi þá blasir við hvert verkefni þar er að vinna í sambandi við uppbyggingu vega og þarf í rauninni ekki annað heldur en vísa til þeirrar tillögu sem hv. 3. þm. Austurl. lagði inn í þingið í vetur, sem má líta á sem einhvers konar bænaskrá til núverandi forustu í vegamálum, ákall um það að fá leiðréttingu mála varðandi vegakerfið á Austurlandi og getið var um fyrr í umræðum. Þar eru stór svæði þar sem ekki er búið að koma bundnu slitlagi á vegi á stofnbrautum. Og þó að ég hafi það ekki nákvæmlega hér þá held ég að það sé um það bil helmingur af vegakerfinu hjá okkur á Austurlandi sem enn er ekki klætt bundnu sitlagi, eitthvað nálægt því og það segir mönnum nokkuð um það hvert verkefni þar er að vinna og það munar um á annað hundrað millj. á þessu tímabili eða 140 millj. sem um er að ræða þegar litið er á þörfina.
    Ég vil einnig koma því hér að, virðulegur forseti, að það er álitaefni hvort það eru réttar áherslur sem lagðar eru til næstu ára eins og í pottinn er búið, að fara að ráðast í uppbyggingu vegar miðað við að gera hann að megintengingu milli Norður- og Austurlands eins og hæstv. samgrh. hefur markað stefnu um og knúið fram og er að festa í sessi hér enn frekar með þessari vegáætlun. Ég held að það hljóti að vera mörgum umhugsunarefni eins og ástandið er á vegum innan byggða á Austurlandi, hvort menn hafi ráð á því að fara í þá tengingu og leggja þar til það fjármagn, þó ekki sé nema 30% af framkvæmdafé af vegafé kjördæmis. Þar með er ég ekki að segja að það blasi ekki við þörfin á því að bæta þar úr. En því máli tengist einnig það álitaefni, sem rætt hefur verið í þinginu í sambandi við sérstaka till. til þál. sem ég hef flutt ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, um athugun á vegasambandi milli Norður- og Austurlands, þar sem við höfum viljað fá rækilega skoðun á því hvort ekki sé réttmætt að ársvegurinn, meginvetrarleiðin á milli landshlutanna, fylgi byggðunum á Norðausturlandi, þannig að menn slái tvær flugur í

einu höggi að byggja upp byggðaveginn með ströndinni og yfir heiðar á Norðausturlandi, sem eru viðráðanlegar og bæta þannig samgöngur og þurfa ekki að reka tvo vegi yfir háveturinn eins og stefnt er að með núverandi stefnu. Það er ekki skynsamleg ráðstöfun á peningum miðað við þá miklu þörf sem uppi er og það er ekki skynsamleg stefna gagnvart byggðarlögunum á Norðausturlandi.
    Ég hef sagt það, virðulegur forseti, og endurtek það einnig hér að inn í þetta mál kemur spurningin um tengingu milli Héraðs og Vopnafjarðar með jarðgöngum því að sjálfsögðu þarf slík tenging að koma til þess að um sé að ræða öruggan vetrarveg. Og það eru að sjálfsögðu aðrar forsendur sem skapast í því máli ef menn líta á uppbyggingu vegasambands sem vetrarleiðar milli landshlutanna með ströndum fram um Vopnafjörð heldur en ef menn eru með þá áherslu sem nú er að fá framgang fyrir tilstilli núv. hæstv. samgrh., að byggja upp með forgangi leiðina yfir fjöllin sem er á löngum köflum í 600 metra hæð og jafnvel þar yfir.
    Ég vil þá einnig nefna það, virðulegur forseti, sem tengist vegaframkvæmdum á Austurlandi og það er spurningin um jarðgangagerð. Það má með rétti segja að það mál snerti ekki fyrst og fremst þá áætlun sem við ræðum hér um eða snerti hana ekki með beinum hætti, en þó. Síðasta ár þessa tímabils var gert ráð fyrir að yrði fyrsta framkvæmdaárið í jarðgöngum á Austurlandi. En hér eru í rauninni aðeins smáupphæðir sem eru settar á blað, smáupphæðir til rannsókna á jarðgöngum án þess þó að nokkrar áætlanir liggi þar að baki og fullkomlega ónógt fjármagn ef menn gera ráð fyrir því að unnt væri að ráðast í jarðgangagerð fyrir aldamót og bjóða verk út. Þetta blasir við í þessu plaggi og það er óhjákvæmilegt að nefna það hér í umræðu um þessa áætlun.
    Ég minni á það, virðulegur forseti, að um það er samstaða á Austurlandi og við það er stuðningur í mínum flokki eins og það var stuðningur þar 1988 þegar ákvarðanir voru undirbúnar og síðan teknar varðandi jarðgangagerð á Vestfjörðum. Við unum því illa að það sé verið að ýta þessum áherslum til hliðar að því er varðar Austurland. Við höfum notið stuðnings Vestfirðinga, milli þeirra landshluta sem búa að mörgu leyti við svipuð skilyrði. Það hefur verið gott samstarf og góður skilningur þar á milli manna. Auðvitað þurfum við á því að halda að fá stuðning annarra og skilning á þeim aðstæðum sem byggðarlögin búa við í þessum landshlutum og það á að vera eitt af verkefnunum í vegamálum að hafa í gangi samfellda jarðgangagerð í landinu sem ákveðinn þátt og leggja til slíkra framkvæmda vissan hlut af því fjármagni sem við höfum til ráðstöfunar.
    Það má vissulega nefna fleiri þætti, virðulegur forseti, sem tengjast þessu og ég vil aðeins koma að brúarframkvæmdum í þessu sambandi. Það er að skapast hjá okkur víða í vegakerfinu erfitt ástand vegna þess að brúarframkvæmdir hafa orðið út undan í sambandi við uppbyggingu vegakerfisins. Það er eðlilegt sjónarmið og eðlileg freisting að reyna að nota peningana til þess að gera vegina bærilega til umferðar með því að byggja þá upp og leggja þá bundnu slitlagi. Sú áhersla er mjög skiljanleg. En okkur alþingismönnum ber að mínu mati að líta á málið út frá heildarsýn og taka þá með í reikninginn að brýrnar eru hluti af vegunum og þurfa að hafa ákveðið burðarþol og þurfa að standast ákveðnar lágmarksöryggiskröfur umferðarlega séð, en það gera þær ekki margar hverjar. Þar er að finna miklar slysagildrur og þar tefla menn á tvísýnu í sambandi við burðarþol víða á landinu. Það eru þannig að skapast höft í tengingu milli landshluta eins og í tengingu Austurlands sunnan jökla til Suðurlands vegna þess að á þeirri leið eru nokkrar brýr sem ekki standast í raun þær kröfur sem eðlilegt væri að gera nú, hvað þá til framtíðar litið. Þetta er eitt af því sem þarf að skoða og breyta að mínu mati og það væri ekkert fráleitt að festa um ákveðið skeið, ef menn eru á annað borð að hólfa sundur vegaféð, að festa ákveðið hlutfall í framkvæmdum til brúargerðar til þess að menn sinni því verkefni eins og þörf er á.
    Ég er þá ekki, virðulegur forseti, að vísa til þeirra aðstæðna sem vakin hefur verið athygli á af minni hálfu og fleirum og geta skapast á veginum sunnan jökla við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Að vísu þurfa menn kannski ekki að hafa stórar áhyggjur af því þessa dagana þegar Jökulsá stendur uppi eða lokast hefur milli strandar og lóns eins og við höfum séð og heyrt af. En þarna hefur verið og er í gangi þróun sem getur leitt til mikilla erfiðleika og getur kostað mikið fjármagn að bregðast við og leysa og það er góðra gjalda vert að Vegagerð ríkisins hefur í auknum mæli núna síðustu árin beint sjónum sínum að þessari þróun og vonandi taka menn á því verkefni í tæka tíð ef sú þróun heldur áfram sem þar hefur verið í gangi um langt skeið eftir að jöklar tóku að hopa að ráði.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að eyða öllu meiri tíma í að ræða þetta mál að sinni, en það má vera að ég sjái mig tilknúinn til þess að koma hér aftur ef ekki verða einhver viðbrögð við áskorunum okkar þingmanna Austurlands og talsmanns minni hluta samgn. sem mælti fyrir brtt. sem kynnt hefur verið til að leiðrétta það sem við teljum vera óhæfu í sambandi við þetta mál. Ég vil ítreka áskorun mína um það og vænti að við fáum liðsinni frá þeim sem þurfa að koma hér til, þar á meðal frá þeim sem styðja stjórnina og eru þingmenn á Austurlandi, sem þurfa auðvitað að koma til liðs til þess að fá leiðréttingu á þessu óréttlæti ef einhver von á að verða til þess að þar verði einhver bót á ráðin áður en þetta mál verður leitt til lykta hér á Alþingi.