Vernd Breiðafjarðar

107. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 14:33:46 (5150)


[14:33]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með það að þetta mál er komið til afgreiðslu á Alþingi. Hér er um að ræða frv. sem er má segja annað frv., eða önnur lögin eftir að samþykkt verður, sem taka til sérstakrar verndunar á stærra svæði á landi okkar. Löggjöfin um Mývatn og Laxársvæðið frá 1974 er viss hliðstæða við þetta mál. Þó að hér sé kannski ekki gengið eins ákveðið fram í einstökum atriðum og gert var í þeirri löggjöf, þá er hér með þessu frv. verið að lögvernda stórt svæði sem í hugum Íslendinga er afar mikils virði og ómetanlegt. Eyjarnar á Breiðafirði eru eitt af því þrennu sem við lærðum í æsku að væri óteljandi á Íslandi og þær eru innan vébanda þessa svæðis, en það er einnig strandlengjan um hinn mikla Breiðafjörð.
    Ég tel að það hafi tekist á þeim stutta tíma sem nefndin hafði til umráða til að fara yfir þetta mál, sem að vísu var til meðferðar á síðasta þingi einnig en var ekki á forgangslista stjórnvalda, að koma því í þokkalegan búning. Ég vona að þetta verði til framdráttar verndun náttúru þessa svæðis og menningarminja sem er einnig hluti þess í góðri samvinnu við íbúana og þá sem um svæðið fara og það eru margir.
    Ég vil nefna í tengslum við þetta mál að ánægjulegt hefur verið að starfa í umhvn., sem er ekki mjög gömul í sögu þingsins, undir forustu núverandi formanns sem er úr stjórnarandstöðu. Þetta er ein af þremur nefndum þingsins þar sem stjórnarandstæðingum er treyst fyrir formennsku. Ég þakka formanni nefndarinnar fyrir ágætt samstarf og ágæta forustu í nefndinni á þessu tímabili. Hún er eins og kunnugt er að ljúka þingferli sínum, a.m.k. í bili, sjálfviljug skulum við segja og býður sig ekki fram. Þannig háttar raunar einnig með annan nefndarmann, sem er búinn að sitja lengur á Alþingi Íslendinga, hv. þm. Jón Helgason sem hefur átt þarna sæti og rækt störf sín mjög vel í þessari nefnd eins og annars staðar í þingstörfum. Ég vil af tilefni þessa máls, og þó að hér eigi eftir að koma ýmis góð mál frá nefndinni, þakka þessum þingmönnum og öllum nefndarmönnum gott samstarf í umhvn. á tímabilinu.