Afgreiðsla frv. um tóbaksvarnir

108. fundur
Laugardaginn 25. febrúar 1995, kl. 20:16:35 (5226)


[20:16]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 15. þm. Reykv. fyrir að vekja athygli á því að þetta mál er ekki á dagskránni. Ég tek eindregið undir með henni og hv. 5. þm. Norðurl. e. að það er mjög slæmt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, ef þetta mál á ekki að fá hér framgang. Hér er um að ræða stórt hagsmunamál heilsufarslega séð og framfaraspor sem ég held að njóti stuðnings yfirgnæfandi meiri hluta á þinginu og væntanlega í vaxandi mæli meðal þjóðarinnar. Ég vænti þess að það verði athugað að taka þetta mál fyrir og leitað samkomulags um það við þann eða þá fáu sem hafa viljað bregða fæti fyrir frv. hvort það geti ekki komið fyrir þingið áður en því verður frestað.