Ferill 23. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 23 . mál.


23. Tillaga til þingsályktunar



um nýtingu landkosta.

Flm.: Jón Helgason, Jón Kristjánsson, Stefán Guðmundsson,


Pétur Bjarnason, Ingibjörg Pálmadóttir,


Valgerður Sverrisdóttir, Finnur Ingólfsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd, sem í eigi sæti fulltrúar allra þingflokka og aðilar vinnumarkaðarins, til að gera úttekt á þeim möguleikum sem lega landsins og aðrir landkostir í víðtækum skilningi gefa þar sem m.a. verði metin eftirfar andi atriði:
     a.     Tækifærin sem lega landsins á krossgötum fjarlægra heimshluta gefa til aukinna viðskipta og þjónustu.
     b.     Geta þjóðarinnar til að nýta þessi tækifæri gæti hún þess að halda stöðu til þess og lokast ekki inni innan múra svæðisbundinna hagsmunasamtaka.
     c.     Hvað strjálbýlt land gæti orðið gjöful undirstaða að öflugu atvinnulífi verði því haldið hreinu og ómenguðu og þeir kostir nýttir til framleiðslu gæðaafurða og þjón ustu.

Greinargerð.


    Mikil umræða hefur verið á síðustu árum um hvernig framtíð þjóðarinnar verður best tryggð með samskiptum hennar við aðrar þjóðir. Augljóst er að sú umræða mun halda áfram og innan skamms verður að taka afdrifaríkar ákvarðanir fyrir framtíð þjóðarinnar bæði á innlendum vettvangi og með samningum við aðrar þjóðir.
    Vegna einhæfrar framleiðslu og annarra aðstæðna þurfa Íslendingar á miklum sam skiptum við aðrar þjóðir að halda og skiptir því miklu máli hvernig þeim er hagað. Það er því mikilvægt að ákvarðanir á þeim vettvangi byggist á vandlegri athugun og skýrum rökum.
    Í umræðum um ávinning af inngöngu í Evrópusambandið er því haldið fram að hún sé okkur nauðsynleg því að öðrum kosti munum við einangrast eins og það er orðað. Ekki hefur verið rökstutt nánar í hverju sú einangrun er fólgin og hverju við kunnum að fórna með inngöngunni.
    Hins vegar hefur verið bent á að lega landsins á krossgötum á norðurhvelinu milli Evr ópu, Norður-Ameríku og Austur-Asíu gefi okkur sérstök tækifæri sem við mundum að meira eða minna leyti glata ef við lokuðum okkur innan múra Evrópusambandsins, þar sem áhrif okkar yrðu harla lítil vegna fámennis þjóðarinnar. Sjálfstæði okkar utan banda laga gæti eitt sér skapað okkur eftirsóknarverða sérstöðu auk hinnar landfræðilegu stað setningar.
    Í hinni ört vaxandi fólksfjölgun með miklum mengunarvandamálum er líklegt að strjálbýlt og hreint land verði eftirsóknarverðari áningar- og dvalarstaður. Viljum við varðveita þann möguleika verður að miða fjárfestingar- og atvinnustefnuna við það. Að undanförnu hefur lítið heyrst minnst á að tugir stóriðjuvera muni leysa vanda okkar, enda hafa tilraunir til að taka næsta skref á þeim vettvangi orðið þjóðinni þungar í skauti síðasta áratuginn. Og ein vanhugs uð framkvæmd gæti sett slæman stimpil á landið.
    Vonir um ávinning af hreinni ásýnd landsins eru líka ekki eingöngu bundnar við heimsóknir ferðamanna. Á síðustu árum hefur margfaldast eftirspurn eftir matvælum, sem framleidd eru við slíkar aðstæður. Íslensku bændasamtökin hafa því beitt sér fyrir könnun á því hvort það gæti skapað landbúnaði hér nýja möguleika og fyrstu vísbendingar gefa til kynna að svo geti orðið. Það er líka í samræmi við stefnu Alþjóðabændasamtakanna, sem þau hafa mótað eftir ráðstefnu þeirra hér á landi árið 1991, að umhverfis- og mengunarvarnir séu mikilvægustu málefni framtíðarinnar. Alþjóða viðurkenning á hreinleika Íslands gæti líka orðið ómetanlegur styrkur fyrir útflutning sjávarafurða sem unnar eru hér.
    Ítarleg úttekt á þessum málum er því ákaflega brýn og til þess að fá sem breiðasta samstöðu um þá vinnu og væntanlega niðurstöðu er lagt til að aðild að henni eigi fulltrúar allra stjórn málaflokka og þeirra samtaka sem nefnd hafa verið aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. launþega samtök, vinnuveitendur og bændur.