Ferill 212. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 212 . mál.


240. Frumvarp til stjórnarskipunarlaga



um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir.



1. gr.


    Við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði um stundarsakir, svohljóðandi:
    Efna skal til stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Um skipan þingsins og störf fer samkvæmt sérstökum lögum. Þingið skal koma saman eigi síð ar en 1. júní 1995.
    Þegar þingið hefur afgreitt frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga skal bera það undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Meiri hluti at kvæða ræður úrslitum málsins. Nái tillagan samþykki skal hún staðfest af forseta lýðveldis ins og er hún þá gild stjórnarskipunarlög.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


I. Endurskoðun stjórnarskrárinnar.

     Endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur nú staðið í rúma fimm áratugi. Sú stjórnarskrár nefnd, sem nú er að störfum, er í reynd sú fimmta sem unnið hefur að endurskoðun stjórn arskrárinnar frá því að ákveðið var að slíta sambandinu við Danmörku og stofna lýðveldi 1944. Sú fyrsta var kjörin af Alþingi árið 1942 og vann að nauðsynlegustu breytingum vegna lýðveldisstofnunarinnar 1944. Árið 1945 skipaði Alþingi svo 12 manna endurskoð unarnefnd til ráðuneytis eldri nefndinni. Alþingi ákvað enn árið 1947 að skipa nýja nefnd sjö manna. Þá höfðu hinar nefndirnar ekki lokið störfum og féll umboð þeirra til starfans niður. Nefndin frá 1947 starfaði í nokkur ár en ekki tókst henni að ljúka störfum. Næst var kjörin stjórnarskrárnefnd árið 1972 og lauk hún ekki störfum frekar en hinar fyrri.
    Fimmta stjórnarskrárnefndin var skipuð 1978 og situr hún enn að störfum. Skilaði hún skýrslu til þingflokkanna í janúar 1983 sem hafði að geyma tillögur að nýrri stjórnarskrá. Þar var tekið á öllum þáttum stjórnarskrárinnar nema kjördæmaskipuninni. Nefndin taldi sig þó eiga eftir að fjalla betur um ýmsa þætti, svo sem eignarréttarákvæði og mannréttindi sem ágreiningur var um innan nefndarinnar. Nefndin skilaði 5. apríl sl. tillögum til þing flokkanna um endurskoðun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar en nefndin hefur enn ekki lokið umfjöllun um ýmis önnur atriði, svo sem eignarréttarákvæðin.

II. Stjórnlagaþing.
     Af þessu má sjá að áratugum saman hefur heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar vafist fyrir mönnum og hvílir ábyrgðin þar ekki síst á þingflokkunum. Því er lagt til að efnt verði til stjórnlagaþings næsta sumar sem hafi það verkefni að vinna að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Um skipan stjórnlagaþings og starfshætti þarf að setja sérstök lög. Gerðar eru tillögur um slíkt í fylgifrumvarpi með máli þessu. Þar er m.a. lagt til að þingið verði skipað þjóðkjörnum fulltrúum sem verði kjörgengir samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis, öðrum en alþingismönnum. Með slíku þingi væri komið í veg fyrir að alþingis menn fjölluðu um mál sem vörðuðu þá sjálfa, t.d. ákvæði stjórnarskrárinnar um kosninga skipan og ráðherraábyrgð.
    Hlutverk slíks stjórnlagaþings yrði að endurskoða stjórnarskrána í heild sinni. Rétt væri að það skoðaði sérstaklega kosningareglur og mannréttindaákvæði hennar, en tillögur stjórnarskrárnefndar um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar frá 5. apríl sl. hafa sætt gagnrýni og mörgum þykir þær ekki nógu skýrar.
    Einnig væri rétt að fela stjórnlagaþingi að skoða sérstaklega æskilegar breytingar á stjórnkerfinu, svo sem skýrari skil milli framkvæmdar- og löggjafarvalds. Er þá átt við atriði eins og hvort ráðherrar eigi jafnframt að vera þingmenn og hvort afnema skuli auka fjárveitingar.
    Þá er rétt að þingið athugi hvort rétt sé að breyta og setja skýrari ákvæði um þingrofs réttinn, hvort tekin verði upp sú skipan sem er í gildi í Noregi þar sem þingrofsheimild er ekki fyrir hendi. Enn fremur er rétt að huga að ákvæðum stjórnarskrárinnar um setningu bráðabirgðalaga í ljósi þess að nú situr Alþingi allt árið.
    Einnig mundi stjórnlagaþingið fjalla um ákvæði stjórnarskrárinnar um ráðherraábyrgð, og til umfjöllunar yrðu teknar þær skráðu og óskráðu reglur sem í reynd ríkja um embættis færslur í opinberri stjórnsýslu, einkum varðandi embættisveitingar í æðstu störf og ráðstöf un opinberra fjármuna og þá hvort rétt sé að draga úr stjórnmálalegum afskiptum í sjóða- og bankakerfinu.
    Stjórnlagaþinginu yrði síðan sérstaklega falið að athuga hvort ekki væri rétt að setja heimild í stjórnarskrána til þjóðaratkvæðagreiðslna þannig að réttur fólksins yrði aukinn í stærri málum.
    Að sjálfsögðu mundi stjórnlagaþingið, auk fyrrtaldra atriða, taka stjórnarskrána til end urskoðunar í heild.

III. Bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla.
    Loks er lagt til að tillögur stjórnlagaþings verði bornar undir þjóðaratkvæði. Niðurstaða af þeirri atkvæðagreiðslu yrði bindandi. Nái tillaga stjórnlagaþingsins fram að ganga verð ur hún lögð fyrir forseta Íslands til staðfestingar og tekur þá ný stjórnarskrá gildi.
    Flutningsmaður telur eðlilegt að stjórnlagaþing setji ákvæði í hina nýju stjórnarskrá um að eftir að hún hefur verið staðfest af forseta lýðveldisins skuli Alþingi rofið og efnt til kosninga þegar næsta haust samkvæmt þeirri kosningaskipan sem hin nýja stjórnarskrá kveður á um.