Ferill 332. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 332 . mál.


514. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum, nr. 53/1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.


    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verður 5. mgr., svohljóðandi:
    Heimild bifreiðastjóra til að stunda akstur samkvæmt lögum þessum fellur niður við lok 70 ára aldurs þeirra.

2. gr.


    Við lögin bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:
    Þrátt fyrir ákvæði 5. mgr. 1. gr. skulu þeir sem stunda akstur samkvæmt lögum þessum halda atvinnuréttindum sínum óskertum til 1. janúar 1996. Eftir þann tíma rennur heimild allra bif reiðastjóra til að stunda akstur bifreiða samkvæmt lögum þessum út við lok 70 ára aldurs þeirra.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að bifreiðastjórum langferðabifreiða sem annast akstur sam kvæmt lögum þessum, annaðhvort sem leyfishafar eða launþegar, sé ekki heimilt að annast þennan akstur í atvinnuskyni lengur en til loka 70 ára aldurs. Er það gert til að samræma starfs skilyrði þeirra sem stunda akstur í atvinnuskyni. Með lögum um leigubifreiðar, nr. 77/1989, var lögbundið 70 ára aldurstakmark leigubifreiðastjóra fólksbifreiða. Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um leigubifreiðar og frumvarp til laga um breytingu á lögum um vöruflutninga á landi, nr. 47/1994, en þau mæla fyrir um sams konar reglu hjá bifreiðastjórum leigubifreiða og flutningabifreiða. Með samþykkt þessara frumvarpa verður komið á fullu jafn ræði milli allra þeirra sem stunda akstur að atvinnu.
    Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að starfandi bifreiðastjórum verði veittur ákveðinn aðlög unartími. Er það í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í frumvarpi til laga um leigubifreiðar og frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vöruflutninga á landi, nr. 47/1994.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á


lögum um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum.


    Tilgangur þessa frumvarps er að banna bifreiðastjórum langferðabifreiða að stunda þennan akstur í atvinnuskyni eftir lok 70 ára aldurs.
    Ekki verður séð að frumvarpið feli í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.