Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 786, 118. löggjafarþing 342. mál: barnalög (réttur til upplýsinga um barn o.fl.).
Lög nr. 23 3. mars 1995.

Lög um breyting á barnalögum, nr. 20 22. maí 1992.


1. gr.

     Við 3. mgr. 37. gr. laganna bætist nýr málsliður, svofelldur: Ef sérstaklega stendur á getur sýslumaður að ósk foreldris, sem ekki hefur forsjá barns, mælt fyrir um rétt þess til að hafa bréfa- og símasamband og hliðstætt samband við barnið.

2. gr.

     Við 39. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., svofelld:
     Nú fara foreldrar sameiginlega með forsjá barns og er öðru foreldri þá óheimilt að fara með barnið úr landi án samþykkis hins.

3. gr.

     Á eftir 40. gr. laganna kemur ný grein, 40. gr. A, svofelld:

J. Réttur til upplýsinga um barn.

40. gr. A.

     Það foreldri, sem ekki hefur forsjá barns, á rétt á að fá frá hinu upplýsingar um hagi barns, þar á meðal varðandi heilsufar þess, þroska, dvöl á barnaheimili, skólagöngu, áhugamál og félagsleg tengsl.
     Það foreldri, sem ekki hefur forsjá barns, á rétt á að fá upplýsingar um barnið frá barnaheimilum, skólum, sjúkrahúsum, heilsugæslu- og félagsmálastofnunum, félagsmálanefndum, barnaverndarnefndum og lögreglu. Réttur samkvæmt þessari málsgrein felur ekki í sér heimild til að fá upplýsingar um hagi forsjárforeldris.
     Stofnunum og stjórnvöldum, sem nefnd eru í 2. mgr., er þó heimilt að synja um upplýsingar ef hagsmunir foreldris af því að notfæra sér þær þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, þar á meðal ef telja verður að upplýsingar séu skaðlegar fyrir barn.
     Skjóta má synjun um upplýsingar um barn skv. 3. mgr. til sýslumanns innan tveggja mánaða frá því að foreldri var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðun sýslumanns samkvæmt þessari málsgrein verður ekki kærð til dómsmálaráðuneytis.
     Þegar sérstaklega stendur á getur sýslumaður ákveðið að ósk forsjárforeldris að svipta hitt foreldrið heimild til að fá upplýsingar skv. 2. mgr. Um kæru slíkrar ákvörðunar sýslumanns fer skv. 74. gr. þessara laga.

4. gr.

     Við 52. gr. laganna bætist ný málsgrein, 3. mgr., svohljóðandi:
     Dómsmálaráðuneytið getur heimilað að mál verði höfðað eftir lok fresta þeirra er greinir í 2. mgr. ef alveg sérstaklega stendur á. Á þetta einnig við þótt frestir til höfðunar vefengingarmáls eða til höfðunar máls til ógildingar á faðernisviðurkenningu hafi verið liðnir þegar lög þessi tóku gildi.

5. gr.

     3. mgr. 53. gr. laganna verður svofelld:
     2. og 3. mgr. 52. gr. eiga við um mál samkvæmt þessari grein að breyttu breytanda.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 23. febrúar 1995.