Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 789, 118. löggjafarþing 89. mál: málflytjendur (fjárvarsla, starfsábyrgðartrygging).
Lög nr. 24 3. mars 1995.

Lög um breyting á lögum um málflytjendur, nr. 61 4. júlí 1942, með síðari breytingum.


1. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn Lögmannafélags Íslands skal tilkynna dómsmálaráðherra ef félagsmaður missir eitthvert hinna almennu skilyrða til að fá leyfi til málflutnings. Skal ráðherra afturkalla málflutningsleyfið meðan svo er ástatt.
     Dómsmálaráðherra er heimilt að afturkalla málflutningsleyfi um stundarsakir eða ótímabundið eftir því hversu miklar sakir eru ef stjórn Lögmannafélags Íslands leggur til að félagsmaður verði sviptur leyfi vegna tiltekinna óviðurkvæmilegra athafna í starfi sínu. Sama gildir ef lögmaður brýtur gegn samþykktum félagsins eða reglum um fjárvörslureikninga og sinnir ekki áskorun félagsstjórnarinnar um úrbætur.
     Dómsmálaráðherra er enn fremur heimilt að afturkalla málflutningsleyfi í allt að tvö ár ef lögmaður hefur þrisvar sætt réttarfarssektum.
     Dómsmálaráðherra skal leita umsagnar stjórnar Lögmannafélags Íslands áður en málflutningsleyfi er veitt að nýju.
     Nú hefur leyfi lögmanns til málflutnings verið afturkallað, og getur hann þá borið afturköllunina undir dómstóla með venjulegum hætti að stefndum dómsmálaráðherra af hálfu ríkisins.

2. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Lögmenn skulu hafa með sér félag er nefnist Lögmannafélag Íslands. Stjórn þess kemur fram fyrir þeirra hönd gagnvart dómurum og stjórnvöldum í málum er lögmenn varða. Samþykktir félagsins skulu lagðar fyrir dómsmálaráðherra til staðfestingar.
     Lögmannafélag Íslands skal í samþykktum sínum setja reglur um skyldu félagsmanna til þess að kaupa ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi eða leggja fram aðra jafngilda tryggingu að mati stjórnar Lögmannafélagsins vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af störfum þeirra eða starfsmanna þeirra. Í samþykktunum skal kveðið á um lágmark vátryggingarfjárhæðar og hámark eigin áhættu vátryggingartaka með hliðsjón af góðum venjum á sviði vátrygginga og hagsmunum viðskiptamanna lögmanna. Sjálfsáhætta vátryggingartaka í tryggingarskilmálum hefur engin áhrif á réttarstöðu þriðja manns. Undanskyldir vátryggingarskyldunni eru lögmenn sem starfa hjá opinberum aðilum, lánastofnunum og vátryggingafélögum að því er varðar lögmannsstörf í þágu þessara aðila. Stjórn Lögmannafélagsins er heimilt að undanþiggja einstaka lögmenn tryggingarskyldunni, enda hafi þeir ekki opna starfsstofu. Stjórn Lögmannafélagsins úrskurðar um skyldu einstakra félagsmanna til vátryggingarkaupa. Ráðherra skal áður en hann staðfestir samþykktir um tryggingarskyldu leita umsagnar samtaka neytenda og vátryggingafélaga.
     Lögmanni er skylt að halda fjármunum sem hann tekur við fyrir hönd umbjóðanda síns aðgreindum frá eigin fé. Skulu þeir varðveittir á sérstökum reikningi, vörslufjárreikningi. Lögmannafélag Íslands skal setja reglur um vörslufjárreikninga og eru þær háðar staðfestingu ráðherra.
     Ráðherra getur lagt fyrir félagið að gera breytingar á reglum skv. 2. og 3. mgr. þessarar greinar innan tiltekins frests telji hann þær ekki veita viðskiptamönnum lögmanna nægilega vernd. Komi félagið ekki fram með breytingar á reglunum sem ráðherra telur unnt að staðfesta er honum heimilt að setja reglugerð um þessi atriði og skal hann leita umsagnar með sama hætti og segir í 2. mgr.

3. gr.

     8. gr. laganna breytist þannig:
  1. Í stað 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. kemur: Stjórn Lögmannafélags Íslands ber að hafa eftirlit með því að félagsmenn fari að lögum og samþykktum félagsins í starfa sínum og ræki skyldur sínar af trúmennsku og samviskusemi. Lögmanni er skylt að veita stjórn félagsins eða trúnaðarmanni hennar allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að stjórnin geti metið hvort fylgt sé reglum um starfsábyrgðartryggingu og vörslufjárreikninga, þar með talið aðgang að bókhaldi og bankareikningum. Sýni félagsmaður stjórninni ekki fram á að hann fylgi þessum reglum þrátt fyrir kröfu stjórnarinnar þar um getur hún gert tillögu til ráðherra um að málflutningsleyfi hans verði afturkallað.
  2. 4. mgr. fellur brott.


4. gr.

     2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:
  1. er lögráða og hefur haft forræði á fé sínu undanfarin tvö ár.


5. gr.

     2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
  1. er lögráða og hefur haft forræði á fé sínu undanfarin tvö ár.


6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Reglur um skyldu lögmanna til þess að kaupa starfsábyrgðartryggingu og varðveita fé umbjóðenda sinna á sérstökum vörslufjárreikningi skv. 2. og 3. mgr. 2. gr. laga þessara skulu eigi koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1996. Hafi Lögmannafélag Íslands ekki sett reglur þar að lútandi fyrir 1. nóvember 1995 skal dómsmálaráðherra eigi síðar en 1. desember 1995 setja slíkar reglur, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga þessara.
     Ákvæði b-liðar 3. gr. laga þessara skal eigi koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1996.

Samþykkt á Alþingi 23. febrúar 1995.