Þingsetning

0. fundur
Þriðjudaginn 16. maí 1995, kl. 14:07:14 (1)

    [14:07]
     Forseti Íslands (Vigdís Finnbogadóttir) :
    Hinn 3. maí 1995 var gefið út svofellt bréf:
    ,,Forseti Íslands gjörir kunnugt:
    Ég hef ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 16. maí 1995.
    Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett, að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.
Gjört í Reykjavík, 3. maí 1995.

Vigdís Finnbogadóttir.


_____________
Davíð Oddsson.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman þriðjudaginn 16. maí 1995.``
    Samkvæmt bréfi því sem ég nú hef lesið lýsi ég yfir því að Alþingi Íslendinga er sett.
    Það þing sem hér hefur störf er 119. löggjafarþing Íslendinga frá því að Alþingi var endurreist. Þinghald hefst að þessu sinni að nýafstöðnum kosningum og 19 nýir þingmenn taka til starfa við hlið þeirra mörgu sem langa reynslu hafa af störfum Alþingis Íslendinga.
    Ég óska alþingismönnum öllum stjórnvisku og gæfu til góðra verka. Það er í höndum þessarar virðulegustu stofnunar lýðveldisins Íslands að styrkja og efla hverja stund trú fólksins í landinu á framtíð fósturlandsins.
    Bið ég yður að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.
    [Þingheimur stóð upp og forsætisráðherra Davíð Oddsson mælti: ,,Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.`` Tóku þingmenn undir þessi orð með ferföldu húrrahrópi.]
    Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú þeim þingmanni sem lengsta fasta þingsetu hefur að baki að stjórna fundi þangað til forseti Alþingis hefur verið kosinn. Bið ég aldursforseta, Ragnar Arnalds, 4. þm. Norðurl. v., að ganga til forsetastóls.