[14:11]
     Aldursforseti (Ragnar Arnalds):
    Nú verður minnst látins fyrrv. alþingismanns.
    Eggert G. Þorsteinsson, fyrrverandi forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, alþingismaður og ráðherra, andaðist í Landspítalanum þriðjudaginn 9. maí. Hann var á sjötugasta aldursári.
    Eggert G. Þorsteinsson var fæddur 6. júlí 1925. Foreldrar hans voru hjónin Þorsteinn Eggertsson, skipstjóri í Keflavík, og Margrét Guðnadóttir húsmóðir. Að loknu hefðbundnu skyldunámi hóf hann nám í múraraiðn og lauk sveinsprófi í múrsmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1947. Auk þess stundaði hann tungumálanám í aukatímum og á kvöldnámskeiðum. Næstu sex ár, 1947--1953, var aðalstarf hans við múrverk og árin þar á eftir sinnti hann því að nokkru með öðrum störfum. Í alþingiskosningunum 1953 var hann í kjöri á Seyðisfirði fyrir Alþýðuflokkinn og hlaut sæti landskjörins þingmanns, sat þá á þrem þingum. Við kosningarnar 1956 og eftir það var hann í framboði í Reykjavík og náði þingsæti ýmist sem þingmaður Reykvíkinga eða landskjörinn, að undanskildu fyrsta þinginu, 1956--1957, hann var þó varaþingmaður alllengi á því þingi. Var hann síðan þingmaður til vors 1978, sat á 27 þingum alls. Hann var forseti efri deildar á sumarþinginu 1959 og fyrsti varaforseti deildarinnar 1959--1965 og 1971--1978. Hinn 31. ágúst 1965 var hann skipaður sjávarútvegs- og félagsmálaráðherra, en við breytta skipan innan Stjórnarráðsins í upphafi árs 1970 varð hann sjávarútvegs-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og gegndi þeim störfum til 14. júlí 1971. Hann var skrifstofustjóri Húsnæðismálastofnunar ríkisins 1961--1965, framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 1972--1979 og forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins 1979--1993.
    Eggert G. Þorsteinsson var skipaður eða kjörinn til fleiri starfa en hér hafa verið talin. Árið 1951 var hann skipaður í endurskoðunarnefnd laga um iðnaðarmál. Í landsbankanefnd var hann 1954--1957, síðustu ár þeirrar nefndar, og í öryggisráði á vinnustöðum 1955--1958. Hann var kosinn í atvinnumálanefnd 1955, var í húsnæðismálastjórn 1957--1965, formaður hennar frá 1960 og það ár var hann skipaður í endurskoðunarnefnd um húsnæðismál. Árið 1961 var hann kosinn í vinnutímanefnd og skipaður í endurskoðunarnefnd laga um Iðnlánasjóð 1962. Hann var í stjórn Íslenska járnblendifélagsins 1975--1982 og stjórnarformaður hlutafélagsins Gutenbergs 1984.
    Enn eru ótalin störf Eggerts G. Þorsteinssonar í þágu flokks og stéttarfélags og skulu nokkur þeirra nefnd. Hann var í miðstjórn Alþýðuflokksins 1948--1988, formaður Félags ungra jafnaðarmanna 1949--1953 og næstu tvö ár formaður Sambands ungra jafnaðarmanna. Ritari Múrarafélags Reykjavíkur var hann 1949--1953 og formaður þess 1953--1958, sat af þess hálfu á fundum Alþýðusambands Íslands frá 1952. Hann var varaforseti Alþýðusambandsins 1958--1960.
    Á æskustöðvum sínum í Keflavík kynntist Eggert G. Þorsteinsson lífi og störfum verkalýðs. Hann var í ætt við kunna aflamenn á sjó, en valdi sér starf í landi. Hann skipaði sér ungur í raðir jafnaðarmanna, gekk í félag með þeim og komst þar innan skamms tíma í forustusveit. Hann var líka ungur valinn til forustu í verkalýðssamtökum. Hann hlaut að hverfa eftir nokkurra ára störf frá þeirri iðn sem hann menntaði sig til. Á hann hlóðust störf á öðrum vettvangi, eins og glöggt má sjá af þeim starfsferli sem hér hefur verið rakinn. Hann reyndist styrkur forustumaður, brást ekki trúnaði þeirra sem að baki honum stóðu. Á Alþingi var hann löngum í efri deild og varð oft að starfa í mörgum nefndum þeirrar deildar. Öll störf hans hér einkenndust af vinnusemi, staðfestu og tryggð við þann málstað sem hann kaus á ungum aldri að helga líf sitt og starf.
    Ég vil biðja þingheim að minnast Eggerts G. Þorsteinssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]