Kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr. þingskapa

1. fundur
Miðvikudaginn 17. maí 1995, kl. 14:32:42 (13)


[14:23]
     Forseti (Ólafur G. Einarsson) :
    Ég þakka háttvirtum starfsaldursforseta, Ragnari Arnalds, árnaðaróskir og alþingismönnum það traust sem mér er sýnt með því að kjósa mig forseta Alþingis.
    Þetta traust met ég mjög mikils og mun reyna að sýna það í verki með því að leggja mig fram um að sem best samstarf takist milli forseta Alþingis og allra hv. alþingismanna.
    Starf Alþingis er enn í mótun eftir þá grundvallarbreytingu er varð fyrir fjórum árum þegar Alþingi varð ein málstofa. Að sönnu hafa mótast ákveðnar starfsreglur sem ekki verður breytt, sumar arfur frá löngu liðnum tíma, aðrar nýjar. Af þeim reglum er þegar fengin nokkur reynsla --- og af reynslunni lærum við og metum hvað betur má fara. Og sjálfsagt er það margt sem forseti Alþingis og hv. alþingismenn gætu orðið sammála um að mætti færa til hins betri vegar í störfum Alþingis. Um leiðirnar kunnum við að hafa skiptar skoðanir, en þá er að rata á réttar lausnir, og þær finnur enginn einn. Því heiti ég á hv. alþingismenn til samstarfs.
    Starf forseta Alþingis felst í því að veita forustu löggjafarsamkomunni og sjá til þess að störf hennar fari fram þannig að sæmd sé að. Okkur er hollt að hafa í huga, alþingismönnum, að saga Alþingis er rauði þráðurinn í þjóðarsögunni, allt frá upphafi, allt frá 10. öld og fram á þennan dag.
    Við minnumst þess 1. júlí nk. að þá verða 150 ár liðin frá því að Alþingi í nútímaskilningi kom saman í fyrsta sinn --- en Alþingi sem þjóðarsamkoma og vettvangur forustumanna Íslendinga er hins vegar jafngamalt þjóðríki á Íslandi. Við erum stolt af þessari löngu sögu.
    Ég vil nefna hér nokkur atriði sem hugur minn stendur til að vinna að.
    Fyrst vil ég þar nefna svipmót þingsins, hvernig þingstörfin birtast almenningi um sjónvarpsskjáinn og í umfjöllun fjölmiðla. Þar þykir mér sem draga þyrfti upp aðra mynd en birtist. Þingmenn gætu sýnt meiri háttvísi í orðavali og framgöngu hver gagnvart öðrum, enda eru það þingmenn sjálfir sem mest áhrif hafa á hver ímynd Alþingis er í augum þjóðarinnar.
    Fyrir nokkru hófust beinar sjónvarpsútsendingar frá Alþingi. Það var enn eitt skrefið í þá átt að færa Alþingi nær þjóðinni. Landsmenn hafa átt þess kost að fylgjast með daglegum störfum í þessum sal um tíma. Það er til bóta en ég get ekki leynt þeirri skoðun minni að þingstörfin hafa ekki tekið mið af þeim miklu breytingum sem orðið hafa á mörgum sviðum þjóðlífsins, í fjölmiðlun, boðskiptum og margvíslegri tæknivæðingu. Umræðuhefðin hér á Alþingi á með öðru þátt í veikri stöðu þess gagnvart framkvæmdarvaldinu og áliti almennings. Það er mjög mikilvægt að Alþingi rífi sig upp úr því fari sem það hefur lent í á undanförnum árum. Almenningur, sem nú fylgist með störfum okkar daglega, gerir ríkar kröfur um vitrænan málflutning, snarpar umræður og tilþrif á Alþingi. Þess vegna verðum við að setja strangar reglur um umræður og gera meiri kröfur til sjálfra okkar en verið hefur um sinn. Of mikill tími fer í umræður utan dagskrárinnar, eða athugasemdir um fundarstjórn forseta, eins og það heitir nú. Agaleysi af þessu tagi má laga með góðri samvinnu þingmanna, ráðherra og forseta.
    Fyrir rúmum tveim áratugum var sá háttur tekinn upp á Alþingi að stjórnarflokkar og stjórnarandstöðuflokkar hefðu samvinnu um val á þingmönnum til trúnaðarstarfa á vegum þingsins. Ég var þá að hefja þingmennsku og man vel að hugmyndin vakti nokkra tortryggni í röðum okkar þáverandi stjórnarandstæðinga. En það hvarf fljótt því að það sýndi sig að samvinna af þessu tagi var af hinu góða. Stjórnarandstæðingar hafa ekki brugðist trausti við slík störf. Samstarf þingflokka um forustu í nefndastarfi, sem hófst fyrir tveimur árum, er nýtt skref á þessari braut. Ég hvet til áframhaldandi samvinnu á þessum vettvangi því að hún mun áreiðanlega auka sjálfstæði Alþingis og styrkja stöðu þess.
    Þá nefni ég samskipti Alþingis og ríkisstjórnar. Oft heyrist að þingið sé ekki annað en afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórn á hverjum tíma. Sú skoðun má ekki festast í sessi. Að sönnu tryggir sá þingmeirihluti sem að baki ríkisstjórnar stendur framgang stjórnarfrumvarpa. En innri málum þingsins ræður þingið eitt.
    Raunar eru skilin milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds --- milli Alþingis og ríkisstjórnar, milli Alþingis og ýmissa stjórna og ráða utan þingsins --- ekki skörp. Þess vegna leggja nú ýmsir áherslu á að alþingismenn sitji ekki í stjórnum og ráðum utan þingsins, telja það ekki samræmast góðum stjórnarháttum og aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Þó þykir sumum eðlilegt að alþingismenn séu jafnframt ráðherrar, æðstu menn framkvæmdarvaldsins. Það hlýtur þó að vera álitamál.
    Þá vil ég víkja að húsnæðismálum Alþingis, en það starfar sem kunnugt er í átta húsum sem eru

misvel fallin til að þjóna Alþingi og alþingismönnum. Ég tel það því meðal mikilvægustu verkefna nýrrar forustu þingsins að koma húsnæðismálum þess í viðunandi horf. Að því máli hefur verið unnið á undanförnum missirum og ber að þakka það. Nú er komið að framkvæmdum og ég heiti á alþingismenn alla að duga í því máli. Koma verður starfsaðstöðu þingnefnda, þingflokka og alþingismanna í það horf sem annars staðar tíðkast hér á landi og þykir sjálfsagt mál, að ekki sé talað um samanburð við önnur þjóðþing.
    Það hefur lengi verið svo á vettvangi fjárveitingavaldsins að alþingismenn hafa látið sín mál sitja á hakanum. Það kann að vera gott og göfugt en ég tel að þessi viðhorf séu farin að skaða þingið. Það verður að búa svo um hnútana að hverjum þeim sem kjörinn er til setu á Alþingi standi til boða starfsumhverfi sem almennt tíðkast í stjórnsýslunni, stofnunum og fyrirtækjum. Hér er með öðrum orðum um sjálfsvirðingu Alþingis að tefla.
    Á fjárlögum þessa árs er veitt fé til að lagfæra ytra byrði tveggja húsa Alþingis við Kirkjustræti. Afar æskilegt er að aukin fjárveiting fáist til þess að unnt verði að ljúka endurbótum innan húss einnig. Alþingi er í brýnni þörf fyrir aukið rými.
    Ég hlýt jafnframt í þessu sambandi að hvetja til þess að launamál og starfskjör alþingismanna verði tekin til endurskoðunar. Því miður er það svo að það eru útbreiddar ranghugmyndir í þjóðfélaginu um launakjör þingmanna. Sannleikurinn er sá að margir þeirra sem kjörnir eru til setu á Alþingi lækka við það í launum. Ég hef áhyggjur af Alþingi sem stofnun ef launakjör og starfsaðstaða fælir þá frá þátttöku í stjórnmálastörfum sem fengur væri að fá á Alþingi. Hér eins og víðar er vandratað meðalhófið en á þessu máli er nauðsynlegt að taka.
    Ég býð nýja þingmenn velkomna til starfa á Alþingi. Þeir eru 19 að þessu sinni, tæpur þriðjungur þingheims. Það er mikil endurnýjun og ljóst að hún mun setja mark sitt á þingstörfin fyrst í stað. Þeir sem nú hefja störf á Alþingi eru sjálfsagt ólíkir þeim sem kvöddu í vetur, flestir yngri og með önnur viðhorf. Þetta er kjarni lýðræðisins sem við metum. Ég vænti góðs samstarfs við þá eins og aðra reyndari og endurkjörna þingmenn.
    Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum og vona að samstarf hennar og Alþingis verði farsælt.
    Það þing sem nú er að hefjast mun standa skamman tíma. Eigi að síður verða mikilvæg mál til umræðu og afgreiðslu, þar á meðal staðfesting frumvarps um ný mannréttindaákvæði í stjórnarskrána. Einnig er ljóst að á því kjörtímabili sem nú er að hefjast munu mörg viðamikil mál koma til kasta þingsins. Umheimurinn breytist hratt og staða Íslands jafnframt. Mál tengd þeim breytingum hljóta óhjákvæmilega að hafa áhrif á störf þingsins næstu árin. Einnig hlýt ég í þessu sambandi að nefna það viðfangsefni stjórnvalda að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og tryggja jafnframt traust velferðarkerfi og menntunarmöguleika ungs fólks.
    Ég tek að mér starf þingforseta fullur áhuga á því að bæta starfsaðstöðu og starfskjör þingmanna og styrkja stöðu Alþingis í stjórnkerfinu. Ég kalla á samstöðu þingmanna um þessi mál og óska eftir nánu samstarfi við ríkisstjórn og þingflokka.
    Ég endurtek þakkir til þingheims fyrir að trúa mér fyrir þessu embætti. Það er einlægur ásetningur minn að reynast þess trausts verður.