Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 20:56:08 (23)


[20:56]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. sagði í upphafi stefnuræðu sinnar að myndun ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. sé í fullu samræmi við úrslit kosninganna og vilja kjósenda eins og hann birtist í niðurstöðum talnanna.
    Það má vera, hæstv. forsrh., að það sé hægt að raða þingsætatölunum saman á þennan hátt, en hitt

er víst að sú stefna sem hæstv. forsrh. kynnti hér í kvöld er ekki í samræmi við þau fyrirheit sem þjóðinni voru gefin í kosningunum. Efst á blaði í stefnuræðu forsrh. hér áðan var niðurskurður í velferðarkerfinu. Aðgerðir gegn ,,innvortis meinsemdum`` velferðarkerfisins, svo notað sé orðalag hæstv. forsrh. Mér er spurn, Íslendingar góðir: Sögðu Sjálfstfl. og Framsfl. þjóðinni fyrir kosningar að brýnasta verkefni þeirra í nýrri ríkisstjórn væri niðurskurður í velferðarkerfinu? Var þá minnst á innvortis meinsemdir í heilbrigðismálum og menntamálum?
    Næst á blaði hæstv. forsrh. var svo áframhald á þeirri einkavæðingarstefnu sem Sjálfstfl. setti á oddinn á síðasta kjörtímabili. Mér er spurn: Sagði Framsfl. þjóðinni að einkavæðing banka og fjárfestingarlánasjóða væri brýnasta verkefnið ef Framsfl. tæki sæti í nýrri ríkisstjórn? Nei, Framsfl. lofaði 12.000 nýjum störfum til aldamóta. Kvöld eftir kvöld komu ungar stúlkur og ungir drengir á sjónvarpsskjáinn í kosningaauglýsingum Framsfl. og sögðu þjóðinni hvað þau ætluðu að verða. Enginn ætlaði að verða atvinnulaus. 12.000 ný störf til aldamóta voru einkunnarorð Framsfl. í kosningunum. Kjarninn í því trúnaðarsambandi sem hann bað um milli sín og kjósenda. Þetta helsta kosningaloforð Framsfl. hefur nú gufað upp strax á fyrstu vikum nýrrar ríkisstjórnar. Og í þeirri stefnuræðu sem hér var flutt áðan og í stjórnarsáttmálanum sem gefinn var út fyrir fáeinum vikum er ekki að finna eitt orð, ekki eitt einasta orð, um fyrirheitið 12.000 ný störf til aldamóta. Þvert á móti gaf Þjóðhagsstofnun, helsta trúnaðarstofnun ríkisstjórnarinnar, út það álit strax eftir myndun ríkisstjórnarinnar að Íslendingar gætu búist við til aldamóta að árlega yrði 4% atvinnuleysi í landinu.
    En Framsfl. lofaði meiru. Hann lofaði tafarlausum aðgerðum til að bjarga neyðarástandi í húsnæðismálum og forða gjaldþrotum þúsunda heimila í landinu. Í stefnuræðunni í kvöld og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var heldur ekki eitt orð, ekki eitt einasta orð, um slíkar tafarlausar aðgerðir til að forða neyðarástandi í húsnæðismálum og gjaldþrotum heimilanna.
    Framsfl. lofaði að leiðrétta hróplegt óréttlæti í skattamálum einstaklinga og fjölskyldna, sérstaklega ungs hjónafólks með börn og mikinn húsnæðiskostnað. Hér í kvöld, fyrir fáeinum mínútum, sagði hæstv. forsrh. að engar leiðréttingar yrðu gerðar í skattamálum á þessu ári og engar leiðréttingar yrðu gerðar í skattamálum einstaklinga og fjölskyldna á næsta ári. Það væri þá fyrst árið 1997 þegar kjörtímabilið væri hálfnað að þess væri að vænta að slíkar breytingar kæmu til framkvæmda. Voru það fyrirheitin sem þingmenn Framsfl. gáfu ungu barnafjölskyldunum í landinu fyrir fáeinum vikum síðan að þær yrðu að bíða, bíða til ársins 1997 til að fá leiðréttingu á hróplegu óréttlæti í skattamálum?
    Framsfl. lofaði að tafarlaust yrðu gerðar breytingar á lánakjörum íslenskra námsmanna en nú á engar slíkar breytingar að gera á þessu þingi þannig að íslenskir námsmenn munu í upphafi skólaársins í haust búa áfram við sama óréttlæti og lögleitt var í tíð síðustu ríkisstjórnar.
    Virðulegu tilheyrendur. Sú stefna sem Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., kynnti er í öllum meginatriðum í samræmi við áherslur Sjálfstfl. og verk hans. Ég vil skora á talsmenn Framsfl. hér í kvöld, hvern og einn þeirra, að tilgreina þó ekki sé nema eitt atriði í þeirri stefnuræðu sem hæstv. forsrh. flutti áðan sem er í samræmi við þau fyrirheit sem Framsfl. gaf þjóðinni í síðustu kosningum, fyrirheitin í atvinnumálum, fyrirheitin í skattamálum, fyrirheitin í húsnæðismálum, fyrirheitin í menntamálum, fyrirheitin í heilbrigðismálum. Eitt atriði af öllum þessum fyrirheitum Framsfl. sem hægt var að finna í stefnuræðu hæstv. forsrh.
    Niðurlæging Framsfl. í hinni nýju vist hjá Sjálfstfl. er síðan kórónuð með því að fyrstu frv. sem ríkisstjórnin leggur fram á þessu þingi eru hin svokölluðu ,,brennivínsfrumvörp``. Frv. um einkavæðingu ÁTVR til að gefa frjálsan innflutning á áfengi. Þessi frv. voru flutt á síðasta þingi og þá börðust þingmenn Framsfl. í þessum ræðustól, í þessum þingsal, fyrir þremur mánuðum síðan, maður á eftir manni, eins hart og þeir gátu gegn þessum sömu áfengisfrumvörpum og eru fyrstu þingmálin sem ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. leggur fram á þessu þingi. Hæstv. núv. félmrh. Páll Pétursson sagði að hann mundi aldrei samþykkja slík frv. En nú gerir Framsfl. einkavæðingu á áfengissölunni að fyrsta þingmáli nýrrar ríkisstjórnar. Það eru ekki atvinnumálin, 12.000 ný störf, sem eru fyrsta þingmálið. Það eru ekki skattamálin, leiðréttingin á misréttinu, sem eru fyrsta þingmálið. Það er ekki neyðarástandið í húsnæðismálunum sem er fyrsta þingmálið. Það er ekki óréttlætið gagnvart íslenskum námsmönnum sem er fyrsta þingmálið. Nei, það er gamla einkavæðingarfrumvarpið, ÁTVR, frá hæstv. fjmrh. Sjálfstfl., Friðriki Sophussyni, sem er fyrsta þingmálið. Aðgerðir í atvinnumálum þola greinilega bið að dómi þessarar ríkisstjórnar. Aðgerðir í húsnæðismálum þola greinilega bið. Aðgerðir í skattamálum þola greinilega bið. Aðgerðir í málefnum námsmanna þola greinilega bið. En einkavæðing áfengissölunnar, mál sem allur Framsfl. barðist gegn fyrir þremur mánuðum, þolir greinilega enga bið. Svo langt er gengið að í gær fór ríkisstjórnin fram á það að Alþingi kæmi saman til sérstaks fundar í fyrramálið svo hægt væri að hefja afgreiðslu brennivínsfrumvarpanna strax í þessari viku.
    Þannig birtist okkur strax á fyrstu sólarhringum þingsins eðli þessarar nýju ríkisstjórnar. Ríkisstjórnar sem er að öllu leyti í málefnamerkjum Sjálfstfl., ríkisstjórnar sem framkvæmir aðeins samkvæmt þeirri áhersluskrá sem Sjálfstfl. setur á oddinn. Stefnuræða forsrh. í kvöld staðfestir þessa niðurstöðu. Í henni, eins og ég sagði áðan, er ekki að finna eitt einasta atriði um þau fyrirheit sem Framsfl. gaf þjóðinni fyrir fáeinum vikum síðan. Flokkurinn sem talaði um trúnað og traust. Hvar er nú fyrirheitið um trúnað og traust? Það hefur reynst innihaldslaust þegar á hólminn var komið. Enda er sjálfur persónugervingur traustsins, hæstv. utanrrh., formaður Framsfl. önnum kafinn við önnur störf sem hann telur greinilega mikilvægari en að vera hér í kvöld við fyrstu stefnuræðu þessarar nýju ríkisstjórnar til þess að gera þjóðinni grein fyrir fyrirheitum Framsfl. og efndunum á þeim í þessum stjórnarsáttmála. Fjarvist formanns Framsfl., hæstv. utanrrh., í kvöld þar sem hann telur fund í útlöndum vera mikilvægari en að mæta til stefnuumræðu ríkisstjórnarinnar á Alþingi Íslendinga er sláandi tákn um stöðu Framsfl. í þessari ríkisstjórn.
    Virðulegi forseti. Það er verkefni vinstri manna og félagshyggjufólks að veita þessari ríkisstjórn mótspyrnu. Í því verki er mikilvægt að okkur skiljist öllum að í samstöðunni felst afl, að dreifing kraftanna dregur úr áhrifum, að öflung samfylking vinstra fólks og jafnréttissinna er eina aðferðin sem dugir til að brjóta þessa ríkisstjórn á bak aftur.
    Alþb. var á síðasta ári reiðubúið að mynda slíka samfylkingu. Alþb. sýndi í kosningunum að við teljum mikilvægt að efna til samstarfs með óflokksbundnu félagshyggjufólki og Alþb. er enn og verður á næstu árum opið fyrir öllum hugmyndum og öllum aðferðum til að breikka þá sveit sem ætlar sér að binda enda á valdaferil hægri stjórnar sem birti hér í kvöld boðskap sinn í fyrsta sinn.
    Íslenskir vinstri menn, við skulum vanda þá samvinnu vel því mikið er í húfi.