Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 21:08:06 (24)


[21:08]
     Bryndís Hlöðversdóttir :
    Herra forseti. Góðir Íslendingar. Við höfum í kvöld hlýtt á boðskap hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar. Þar er með almennum orðum tæpt á ýmsu sem góðra gjalda er vert eins og því að stuðla að bættum kjörum í landinu og minnkandi atvinnuleysi, að laga skattkerfið að réttlætisvitund manna um jafnræði í skattheimtu, að berjast fyrir lýðræði og mannréttindum í samfélagi við aðrar þjóðir.
    Hér er fagur boðskapur á ferð og það væri óskandi að úr honum rættist.
    Atvinnuleysi er eitt mesta böl sem á þjóð getur herjað og því hlýtur það að vera meginverkefni þeirra sem við stjórnvölinn sitja að takast á við það af öllum mætti. Skattkerfið á vissulega að vera réttlátt og lýðræði og mannréttindi vilja allir Íslendingar í hávegum hafa. Því miður er það þó svo að mér hættir til að efast um að þessi háleitu markmið nái fram að ganga og það á áreiðanlega við um marga.
    Í þjóðfélagi sem vill berjast fyrir lýðræði og mannréttindum á að ríkja jafnræði á milli fólks. Í slíku þjóðfélagi á ekki að líðast misrétti af neinu tagi og fólkið í landinu á að eiga jafna möguleika á að njóta lífsins gæða. Í slíku samfélagi á að ríkja samhjálp svo þeir sem minna mega sín geti reitt sig á að samfélagið hlaupi undir bagga þegar í harðbakkann slær. Þar á ekki að ríkja lögmál frumskógarins um að hver sé sjálfum sér næstur. Það á að vera hlutverk stjórnvalda að sjá til þess að landsmenn geti notið réttlætis á sem flestum sviðum. Stjórnvöld eiga ekki að sitja aðgerðalaus og horfa upp á misréttið viðgangast og komi slíkt misrétti upp á yfirborðið er það skylda þeirra sem sitja við stjórnvölinn að vinna að því að því sé eytt.
    Virðulegi forseti. Fyrsta þingskjal þessa vorþings er frv. til laga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar er ásamt fleiru lagt til að inn í stjórnarskrána verði sett almenn jafnræðisregla auk þess sem sérstaklega er vikið að því að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Ekki þótti nægilegt að í stjórnarskránni væri almenn jafnræðisregla heldur þótti nauðsynlegt að hafa sérstakt ákvæði um að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Og hvers vegna? Jú, rökin fyrir því að hafa slíkt ákvæði í stjórnarskránni eru m.a. þau að þrátt fyrir að jafnrétti kynjanna sé nú tryggt í lögum þá ríkir það ekki í framkvæmd. Það þurfi því að tryggja það í raun en einhverra hluta vegna hefur gengið illa að gera jafnréttislöggjöfina gildandi hér á landi.
    Nýleg skýrsla Jafnréttisráðs um launamyndun og kynbundinn launamun staðfestir það sem marga hefur grunað lengi, að konur eru rétt rúmlega hálfdrættingar á við karla í launum. Í öllum stéttum þjóðfélagsins búa konur við rýrari hlut en karlar launalega séð þótt misréttið aukist með aukinni menntun. Með öðrum orðum, á Íslandi ríkir gífurlegt launamisrétti.
    Íslenskar konur eru orðnar langþreyttar á að bíða eftir viðhorfsbreytingu sem leiðir til þess að störf þeirra verði metin til jafns á við störf karla. Auk þess er málið ekki einkamál okkar kvenna. Það snýst hreinlega um mannréttindi.
    Ríkisstjórn sem vill berjast fyrir mannréttindum á ekki að láta slíkt misrétti líðast. Hún á að beita sér fyrir því af öllum mætti að eyða slíku misrétti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er að finna örlitla klausu um það að hún muni vinna gegn launamisrétti af völdum kynferðis og stuðla að jafnari möguleikum kvenna og karla til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína.
    Við sem viljum jafnrétti fyllumst ekki bjartsýni við lestur þessarar klausu enda er erfitt að sjá hvernig framkvæma eigi herlegheitin. Hún felur reyndar líka í sér ákveðinn misskilning því staðreyndin er sú að launamisréttið er ekki byggt á því að konur hafi svikist um að þroska hæfileika sína. Þær hafa verið að þroska hæfileika sína allt sitt líf, rétt eins og karlar, en það hefur bara ekki fært þeim ábata.
    Ég sakna þess að hæstv. forsrh. hafi ekki séð ástæðu til þess að minnast neitt á þetta mikilvæga úrlausnarefni í stefnuræðu sinni. Í kosningabaráttunni mátti nefnilega sjá margs konar merki þess frá báðum stjórnarflokkunum, að ekki sé minnst á stjórnarandstöðuflokkana, að taka þyrfti á launamisréttinu. Kjósendur máttu því í einlægni vænta þess að á því yrði tekið af fullri einurð. Því miður verð ég að segja það

í hreinskilni að ríkisstjórnin gefur ekki þá mynd af sér að hún sé líkleg til afreka í þessum efnum. Hún er í huga margra ríkisstjórn stöðnunar og í raun ávísun á óbreytt ástand á flestum sviðum þjóðlífs. Skýrast kemur það fram í ráðherravali stjórnarflokkanna þar sem nú situr aðeins ein kona af tíu. Skilaboðin til íslenskra kvenna eru þessi: Það er ekki komið að ykkur en við ætlum að hjálpa ykkur til að þroska hæfileika ykkar og njóta eigin atorku. Haldið ykkur á mottunni á meðan.
    Góðir tilheyrendur. Launamisréttinu verður að linna. Við getum ekki státað af því að búa í þjóðfélagi lýðræðis og mannréttinda á meðan slíkt misrétti viðgengst og að því er virðist án þess að stjórnvöld hafi af því teljandi áhyggjur. Stjórnvöld verða að gera sér grein fyrir því einnig að launamisréttið er aðeins ein mynd þess misréttis sem ríkir á milli kvenna og karla og þurfum við ekki að tíunda það að hvert skref í átt til jafnræðis skiptir máli. Þess vegna skiptir það líka máli hvert hlutfall kvenna og karla er í ríkisstjórn eða í stjórnmálum almennt. Þeir sem vilja leiðrétta misréttið þurfa því líka að líta í eigin barm og huga að því í hvívetna hvort eigin stefna hvetji til jafnréttis kynjanna í einu og öllu.
    Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Hróplegt misrétti á ekki að viðgangast. Réttlætisvitund allra þeirra sem vilja gott þjóðfélag með mannréttindi í fyrirrúmi krefst þess að launamisrétti kynjanna verði leiðrétt og að til þess verks verði gengið strax.