Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 22:01:24 (30)


[22:01]
     Jón Baldvin Hannibalsson :
    Virðulegi forseti. Fyrstu orð mín úr þessum ræðustól í upphafi nýs kjörtímabils skulu vera þau að árna þeim hv. alþingismönnum sem valist hafa til setu í ríkisstjórn Íslands persónulega velfarnaðar í störfum fyrir land og þjóð. Þetta segi ég þrátt fyrir það hvernig til þessa stjórnarsamstarfs var stofnað, --- með vél og táli, en vegna þess að ég veit að þeim mun ekki af veita að árnaðaróskir fylgi í upphafi. Það sést strax í upphafi af því að hæstv. forsrh. treysti sér ekki til þess í ræðu sinni hér áðan að skýra stefnu ríkisstjórnar í meginmálum nema í hálfkveðnum vísum. Hann tæpti á nokkrum fyrri pörtum en botnarnir eru uppi í Borgarfirði eða í þessu tilviki e.t.v. norður á Höllustöðum. Orðfærið er slétt og fellt en inntakið vantar. Og hvar eru stjórnarfrumvörpin um breytingar á stjórnun fiskveiða og framkvæmd GATT-samningsins sem þetta þing á að fást við? Þau höfum við ekki séð enn svo að þau ræðum við ekki í þessari umferð.
    Virðulegi forseti. Fáein orð um kosningaúrslitin og stjórnarmyndunina. Ég vil fyrst nota þetta tækifæri og þakka þeim 19 þúsund kjósendum sem veittu Alþfl. og málefnum hans brautargengi í kosningunum. Fyrir ykkar atbeina hélt fyrrv. ríkisstjórn að vísu velli, en afl atkvæða var ekki nóg til að tryggja að stefna okkar jafnaðarmanna yrði áfram mótandi afl í stjórn landsins. Það er ekki við þessa 19 þúsund kjósendur að sakast. Kosningaúrslitin sýna ótvírætt að hefði forustumenn okkar jafnaðarmanna borið gæfu til að varðveita samstöðu hreyfingarinnar, þá hefði Alþfl. styrkt stöðu sína í kosningunum og vafalaust verið áfram við völd í aðdraganda nýrrar aldar. Fyrir vikið eru jafnaðarmenn nú án afgerandi áhrifa á stjórn landsins. Fyrir vikið var Framsfl. afhent lyklavöldin í Stjórnarráðinu. Páll Pétursson er ekki bara orðinn félmrh., hann er ekki bara orðinn pósturinn Páll frá Brussel, og verði honum að góðu, heldur er hann líka orðinn ásýnd þessarar ríkisstjórnar sem jafnréttismálaráðherra.
    Fyrir vikið var forðagæslumönnum framsóknarkerfisins gefið tækifæri til að renna saman í nýja, hefðbundna helmingaskiptastjórn um varðveislu sérhagsmuna og óbreytt ástand. Þeir kjósendur sem létu telja sér trú um að leiðin til þess að sameina jafnaðarmenn væri að sundra þeim, hljóta nú að naga sig í handarbökin. Ekki vantaði að við vöruðum við í kosningabaráttunni að einmitt þetta yrði líklegasta niðurstaðan ef Alþfl. bæri skarðan hlut frá borði í kosningunum. Þetta eru dýrkeypt mistök eins og síðar mun koma í ljós.
    Það mun koma í ljós á þessu kjörtímabili hvort við getum sameiginlega látið okkur mistökin að kenningu verða og gert það sem skyldan býður til að bæta fyrir þau. Ég sagði mistök, herra forseti, því að þegar við jafnaðarmenn lítum til baka yfir farinn veg eftir átta ára ríkisstjórnaraðild megum við vel við una þann árangur sem náðst hefur. Það eru því mikil mistök, einmitt þegar okkur hafði tekist að snúa erfiðri varnarbaráttu undanfarandi ára í sókn, að yfirlýstir jafnaðarmenn stöðvi þá sókn í miðjum klíðum með sjálfsmarki, á íþróttamáli, og afhendi andstæðingunum völdin á silfurfati.
    Herra forseti. Það er til marks um það hversu málflutningur framsóknarmanna í stjórnarandstöðu var marklaus og haldlaus að nú þegar þeir setjast í stjórnarstólana, þá geta þeir ekki kvartað undan því að þeir taki ekki við góðu búi. Og þeir munu engum nema sjálfum sér geta um kennt ef þeir glutra niður árangrinum eins og þeir gerðu vissulega í ríkisstjórnum framsóknaráratuganna.
    Verðbólgan er lægri en í flestum viðskiptalöndum. Það ríkir einstæður verðstöðugleiki á Íslandi. Samkeppnisstaða útflutnings- og samkeppnisgreina er betri en nokkru sinni á grundvelli rétts og hagstæðs gengis. Viðskiptajöfnuður við útlönd hefur verið hagstæður þrjú ár í röð. Það hefur tekist að stöðva erlenda skuldasöfnun þjóðarbúsins þótt ríkissjóður sé enn með innbyggðum halla og safni skuldum, en það verður eitt meginviðfangsefni þessa kjörtímabils að gera þar bragarbót á. Skuldir fyrirtækja hafa farið minnkandi og afkoma þeirra batnandi. Eftir sjö ára erfiðleikatímabil er hagvöxtur tekinn að glæðast á ný. Kjarasamningar til tveggja ára hafa eytt óvissu um stöðugleikann. Nýjum störfum fer fjölgandi. EES-samningurinn sem hinn nýi stjórnarflokkur, Framsfl., fór hamförum gegn, ekki síst pósturinn Páll, hefur verkað sem vítamínsprauta á íslenskan sjávarútveg og reyndar þjóðarbúskapinn í heild. Fyrir hans tilverknað erum við nú að vinna verðmætari vöru úr minni afla. Og stóriðjuframkvæmdir eru loksins í sjónmáli á ný. Þennan efnahagsbata má nýta bæði til þess að bæta lífskjör, að jafna lífskjör og að jafna kjör milli kynjanna á vinnumarkaðnum ef rétt er á málum haldið.
    Þessi efnahagsbati byggðist hvorki á töfrabrögðum né skyndilausnum. Hann er árangur skynsamlegrar hagstjórnar sem Framsfl. í stjórnarandstöðu fór hamförum gegn. Það er umhugsunarefni að þvílíkur árangur í stjórn efnahagsmála hefur aldrei í lýðveldissögunni náðst nema þegar Alþfl. hefur verið í ríkisstjórn. Slíkur árangur hefur aldrei náðst í helmingaskiptastjórnum Sjálfstfl. og Framsfl. Sú sögulega staðreynd segir sína sögu. Það hlýtur að vera frjálslyndu og umbótasinnuðu fólki sem hingað til hefur talið sig eiga samleið með Sjálfstfl. alvarlegt umhugsunarefni að hinir andlegu leiðtogar hans nú, þeir Davíð Oddsson og Björn Bjarnason, skuli ótilneyddir telja sig helst eiga samleið á vit 21. aldarinnar í félagsskap póstsins Páls og Guðna Ágústssonar. Það segir líka mikla sögu.
    Sérstaklega er þetta frjálslyndu fólki raunverulegt áhyggjuefni vegna þess að því fór auðvitað fjarri

að allur vandi væri leystur í tíð fyrrv. ríkisstjórnar. Innri veikleikar og óleyst vandamál blasa við þegar við skyggnumst undir yfirborðið og horfum til framtíðarinnar. Lausnir á þessum vandamálum kalla á langtímahugsun, áræði og umbótavilja frammi fyrir varðstöðu kerfislægra sérhagsmuna sem þessi ríkisstjórn er mynduð utan um. Það er einmitt slíka langtímahugsun, stefnufestu og framtíðarsýn sem er hvergi að finna, hvorki í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna svokallaðri né í ræðu hæstv. forsrh. Það er þetta sem vantar. Og það er þetta sem vekur ugg í brjóstum frjálslyndra og umbótasinnaðra Íslendinga þegar þeir hugleiða það hlutskipti þjóðarinnar að vera undir stjórn þessara dauflyndu kerfisflokka allt til aldamóta.
    Hverjir eru þessir innri veikleikar og þessi óleystu vandamál sem ég nefni svo? Íslenskt atvinnulíf er einhæft og fábreytt. Það ber sterk einkenni þróunarlands vegna þess hversu háð við erum vinnslu hráefna. Og þótt forsrh. hafi í ræðu sinni hér áðan talað drýgindalega um landsframleiðslu á mann, þá er þar aðeins hálf sagan sögð vegna þess að framleiðnin í íslensku atvinnulífi, verðmætasköpunin á hverja unna vinnustund og fjármagnseiningu er einhver hin lægsta í okkar heimshluta. Fyrirtækin eru smá. Eiginfjárstaða þeirra er veik og vaxtarfæri þeirra á heimamarkaði er afar takmörkuð fyrir iðnað og þjónustugreinar sem við verðum að byggja upp ef við meinum eitthvað með orðum okkar um að skapa ungu kynslóðinni atvinnu við arðbær störf. Það er þessu sem við þurfum að breyta. Okkur vantar kerfisbreytingu í úreltum kerfum í landbúnaði og sjávarútvegi. Við verðum að leysa sambúðarvanda sjávarútvegsins annars vegar og iðnaðar- og þjónustugreina hins vegar með því að taka upp veiðileyfagjald fyrir aðgang að auðlindum sjávar. Þannig leggjum við grunn að raunverulegri hagvaxtarstefnu sem byggir á jafnræði allra atvinnugreina í opnu samkeppnisþjóðfélagi með þátttöku erlends áhættufjármagns með vaxandi útflutning að meginmarkmiði. Það er ekki síst þess vegna sem við eigum í alvöru út frá þjóðarhagsmunum að búa okkur með kerfisbundnum hætti undir aðildarumsókn að Evrópubandalaginu. Ella er hætt við því að við höldum áfram að dragast aftur úr þeim þjóðum sem við hingað til höfum reynt að halda til jafns við. Ella er hætt við að okkur takist ekki að skapa þau arðbæru og vel launuðu störf sem hvarvetna eru vaxtarbroddur hinna tæknivæddu þjóðfélaga framtíðarinnar. Þess vegna má þjónkun við sérhagsmuni, sem er erindi Framsfl. í pólitík og framsóknarmannanna í Sjálfstfl., ekki fæla okkur frá róttækum kerfisbreytingum og tefja för okkar inn í 21. öldina.
    Þess vegna hlýtur það að vera meginverkefni okkar íslenskra jafnaðarmanna á þessu kjörtimabili að læra af mistökum fortíðarinnar, að finna nýjar leiðir til þess að brjóta niður þá múra úrelts flokkakerfis sem sundrar afli okkar til umbóta þegar mest ríður á. Það, herra forseti, verður því meginverkefni okkar á þessu kjörtímabili sem nú gegnum trúnaðarstörfum fyrir Alþfl. -- Jafnaðarmannaflokk Íslands.