Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 22:11:58 (32)

[22:11]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Góðir Íslendingar. Sérhver ný ríkisstjórn leggur að sjálfsögðu upp með þann staðfasta ásetning að gera sitt besta fyrir land og þjóð. Núverandi ríkisstjórn er engin undantekning frá því og fyrir mitt leyti óska ég henni velfarnaðar í starfi. Hún nýtur þess umfram margar fyrri stjórnir að taka við svo góðu búi að það þarf sennilega sérstaka afreksmenn til að koma í veg fyrir að í hönd fari veruleg uppsveifla. Enn er of snemmt að spá um hvort slíka afreksmenn er að finna í ríkisstjórn Íslands. Hæstv. félmrh., sem jafnan er þó í essinu sínu þegar hann leikur hlutverk fílsins í glervörubúðinni, er þó þessa dagana að gera heiðarlega tilraun til að sprengja upp samninginn um EES og takist honum það er aldrei að vita nema honum takist líka að sprengja upp þann efnahagsbata sem ella væri óumflýjanlegur.
    Samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. hefur alltaf leitt af sér stöðnun og jafnvel afturför. Það er einfaldlega söguleg staðreynd. Ástæðan er eðli slíkra stjórna. Innan þeirra verða óhjákvæmileg átök á milli ósættanlegra stefnumiða, annars vegar sérhagsmunagæslu Framsóknar og hins vegar frjálslyndis þess arms Sjálfstfl. sem hægt er að kalla framfarasinnaðan. Afleiðingin hefur jafnan orðið pattstaða þegar kemur að róttækum ákvörðunum og niðurstaðan er kyrrstaða sem í stjórnmálum jafngildir afturför. Og það er fróðlegt að sjá að á örskömmum ferli núv. ríkisstjórnar, þá er pattstaðan þegar komin upp. Stjórnarliðar úr Sjálfstfl. segja að ríkisstjórnin muni einkavæða ríkisbankana. En hverjir börðust hatrammlegast gegn því á síðasta kjörtímabili? Það voru núv. félmrh. Páll Pétursson og fyrrverandi tilvonandi landbrh., hv. þm. Guðni Ágústsson, en landbúnaðarráðherraefnið fyrrverandi er maður ódeigur og hefur þegar lýst því yfir í Alþýðublaðinu að fyrr mundi hann kaldur liggja en hann einkavæddi Búnaðarbankann.
    Annað dæmi vil ég taka, herra forseti. Frumkvöðlar í atvinnulífi vildu kaupa sig inn í mjólkurbúið í Borgarnesi, ráðast í nýja framleiðslu á grundvelli hefðbundins mjólkuriðnaðar og innleiða samkeppni í einokunarveldið sem Framsókn hefur byggt upp í greininni. Eðlilega vakti þetta mikinn fögnuð í Sjálfstfl. Nei takk, sagði Framsókn og setti hramminn í borðið. Af hverju? Af því að það hefði skaðað einokunarfyrirtæki í Reykjavík sem á kostnað neytenda stórgræðir á því að þurfa ekki að standa í samkeppni. Og Framsókn var nákvæmlega sama að það kostaði 30 störf í landbúnaðarhéraði þar sem atvinna liggur ekki á lausu. Og sannarlega er það dapurlegt hlutskipti fyrir formann Sjálfstfl. að vera í hlutverki útfararstjórans þegar frumkvæði að nýju framfaraskeiði í stirðnaðri atvinnugrein er jarðsungið með þessum hætti. En

svona, ágætu tilheyrendur, verða afleiðingarnar af kjötkatlastjórn Framsóknar og Sjálfstfl. í hverju framfaramálinu á fætur öðru á komandi árum: Kyrrstaða, stöðnun, afturför.
    Við hverju á svo sem að búast? Djúpstæð og gagnkvæm tortryggni er aldrei lykill að farsælu hjónabandi. Leyfist mér, herra forseti, að lesa nokkrar tilvitnanir í texta sem á eftir að verða sígildur. Þar segir m.a.:
    ,,Kjósendur ættu að vera farnir að átta sig á því að síst af öllu er ástæða til að treysta framsóknarmönnum þegar fjármál eru annars vegar. . . .  Sagan kennir okkur að framsóknarmenn fara hvorki vel með eigið fé né annarra.``
    Hver talar svo um hina ágætu framsóknarmenn? Þetta, herra forseti, er tilvitnun í blað sem sjálfstæðismenn í Reykjavík gáfu út fyrir nokkrum vikum og oddviti þeirra situr hér --- hæstv. forsrh. Þetta er lýsing sjálfstæðismanna á sínum eigin samstarfsflokki.
    Í Morgunblaðinu birtist líka auglýsing um að Framsfl. hefði verið ábyrgur fyrir áratuga óstjórn, hefði brennt upp sparifé landsmanna, sett verðbólguna yfir 100%, skapað skjól fyrir pólitísk hrossakaup, staðið fyrir stórfelldu sjóðasukki, sóað 45 milljörðum af fé skattborgaranna. Þar er sagt að pólitísk spilling í stjórnartíð Framsóknar hafi verið svo gífurleg að fjármunum hafi beinlínis verið úthlutað eftir flokksskírteinum.
    Herra forseti. Það voru ekki góðvinir Framsóknar í Alþfl. sem sömdu þetta stórfróðlega safn köpuryrða. Nei, herra forseti, það var birt á ábyrgð formanns Sjálfstfl. sem er þó orðvar maður eins og þjóð veit.
    Þetta eru sem sagt ástarhótin sem gengið hafa millum þeirra manna sem nú þæfa sameiginlegt sokkaband á kærleiksheimili ríkisstjórnarinnar. Ber þetta vitni um gagnkvæmt trúnaðartraust? Er hægt að ætlast til þess að samstarf manna sem tala af þvílíkri ást hver um annan leiði til farsældar fyrir þjóðina? Það er vissulega hægt, --- ef menn trúa á kraftaverk.
    Gagnvart eigin flokksmönnum þá varði formaður Sjálfstfl. þá ákvörðun að leiða Framsókn inn í ríkisstjórn með því að segja að Framsfl. væri breyttur flokkur. Hann hefði nýtt andlit. Þetta nýja andlit sáum við þegar raðað var á ráðherrabekkinn. Framsfl. átti kost á því að sýna breytingarnar í verki með því að leiða inn í ríkisstjórnina fulltrúa nýja andlitsins, unga fólksins, og viti menn, þegar upp var staðið þá var fulltrúi ungu kynslóðarinnar Páll Pétursson félmrh. Hins vegar verður það að segjast Páli Péturssyni, ráðherra jafnréttismála og barnaverndar, til hróss að hann er ekkert að hafa fyrir því að fela hið nýja andlit Framsóknar. Fyrsta verk hans var að reyna að hindra staðfestingu á reglum um vernd barna og ungmenna sem á að takmarka óhóflega vinnu þeirra. Og svo merkilega vill til að bæði ASÍ og VSÍ sóttu fast að fá reglurnar staðfestar. Og hvað veldur þessari vinsamlegu afstöðu ráðherrans til íslenskra barna? Jú, reglugerðin á sér rætur innan EES og besti vinur barnanna hefur sem kunnugt er sýnt EES afskaplega lítil ástarhót. Það skiptir hann engu þó afstaðan geti leitt yfir þjóðina dýrkeyptar gagnaðgerðir ríkjanna sem standa að EES.
    Þetta, herra forseti, þetta er hið nýja andlit Framsfl., þetta er andlitið sem hæstv. forsrh. þótti slægur í. Það vill hins vegar íslensku atvinnulífi til happs að formaður Framsfl. hefur tekið hæstv. ráðherra félagsmála á hné sér í fjölmiðlum og tugtað hann eins og óþægan krakka. Kannski dugar það. EES er staðreynd og Alþfl. er stoltur af því að hafa með þeim samningi samræmt gönguleið þjóðarinnar inn í nýja framtíð.
    Steinn Steinarr orti einu sinni ljóð sem mér þykir lýsa vel stöðu Framsfl. um þessar mundir. Ljóðið heitir ,,Undanhald samkvæmt áætlun``. Það er nefnilega engu líkara en að Framsókn sé á vel skipulögðu undanhaldi frá sínum eigin kosningaloforðum. Húsnæðismálin voru helsta tromp flokksins og þau sýna þetta í hnotskurn og það var sannarlega ekki skorið við nögl þegar Framsókn setti fram loforðin. Það átti að ráðast í víðtækar skuldbreytingar. Það átti að koma upp sérstökum björgunaraðgerðum. Það átti að koma upp sérstakri greiðsluaðlögun. Það átti að frysta húsnæðisskuldir tímabundið. Það átti að lækka af þeim vexti. Það átti jafnvel að lækka skuldirnar sjálfar.
    Herra forseti. Ég hygg að það sé Íslandsmet en ekkert af þessum loforðum finnst í sáttmála stjórnarinnar. Ekkert einasta.
    Hæstv. heilbrrh. hefur sem kunnugt er sérstakan áhuga á öldrunarmálum. Er ekki tilvalið að hún láti nú athuga hvort þetta ótrúlega minnistap stafi af ótímabærum hrumleika Framsóknarforustunnar eða hvort verið geti að flokkurinn sé einfaldlega kominn á skipulegan flótta frá sjálfum sér? Enginn lofaði þó jafnmiklu og hæstv. viðskrh. sem hét t.d. að lækka greiðslubyrði húsnæðislána um 25%. Nú er hins vegar staðfest að aðferðin sem átti að nota til þessarar miklu lækkunar byggðist á röngum útreikningum. Reikningsskekkjuna er sjálfsagt að fyrirgefa. Það tók hæstv. vaxtamálaráðherra ekki nema fimm daga í embætti til að sýna þjóðinni fram á að á flestu hefur hann betra vit heldur en vaxtamálum. Og af því tilefni sagði fyrrv. ráðherra Sjálfstfl. af mikilli vinsemd það ,,gróflega dapurlegt`` að hæstv. viðskrh. skyldi yfirleitt koma nálægt vaxtamálum. Ég vænti þess að þingmenn Sjálfstfl. séu sammála þessum fyrrv. ráðherra sínum og reyndasta bankastjóra landsins.
    ,,Styrkurinn liggur í undanhaldinu`` --- segir í kvæði Steins Steinars og samkvæmt því er Framsfl. fullur af styrk þessa dagana. Hann hefur flúið næstum því öll þau loforð sem hann gaf í kosningabaráttunni. Hann hlýtur að geta notað þennan styrk til að beita handafli til að lækka vexti eins og flokkurinn

predikaði allt síðasta kjörtímabil.
    Eins og frægt er, virðulegi forseti, tók það loforðaglaðasta framsóknarmanninn, hæstv. viðskrh., einungis fimm daga að missa frá sér vaxtafótinn. Það mun þó tæpast vefjast fyrir hinum lýríska ritstjóra Tímans, hv. þm. Jóni Kristjánssyni, að mæra ráðherrann vel í vikulegum skjallpistlum sínum um forustu Framsfl. og ef í óefni stefnir getur hann alltént leitað til höfundar Grettissögu og gert að einkunnarorðum um hæstv. vaxtamálaráðherrann og raunar framsóknarráðherrana alla það sem þar segir um Öndund tréfót: ,,Hann var fræknastur einfættra manna sem þá voru uppi á Íslandi.``