Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Fimmtudaginn 18. maí 1995, kl. 23:10:51 (38)


[23:10]
     Ágúst Einarsson :
    Herra forseti. Ríkisstjórn á að dæma af verkum hennar og það er kjósenda að gera það. Hlutverk stjórnarandstöðu er að ræða um ætluð verk stjórnarinnar í ljósi stefnuyfirlýsingar hennar og stefnuræðu. Þar er ekki feitan gölt að flá. Yfirlýsingin er óljós og fáir skýrir drættir.
    Það eru vond stjórnmál þegar framkvæmdarvaldið kýs að stjórna frá degi til dags í krafti óljósra fyrirheita. Stefna ríkisstjórnarinnar er vitaskuld ekki byggð á úrræðum félagshyggju eða jafnaðarmanna þar sem samhjálp og sjálfsvirðing einstaklinga eru grundvallaratriði. Þessi ríkisstjórn er mynduð um aðdráttarafl ráðherrastóla og óbreytt valdakerfi stjórnmálamanna. Völundarhús valdamannanna í Sjálfstfl. og Framsfl. nær ekki einungis yfir stjórnmálin heldur fyrirtækin, verkalýðshreyfingu, bankakerfi, útflutning og margt, margt fleira. Það er einungis angi ríkjandi valds sem blasir hér við á hinu virðulega Alþingi. Þetta vald flokkanna í þjóðfélaginu er ólýðræðislegt og flestum hulið. Það er e.t.v. gott að þessi samstaða afturhalds, stöðnunar og íhaldssemi hafi náð saman í ríkisstjórn. Það skerpir skilin í stjórnmálum.
    Stefnuyfirlýsingin er í anda þeirra manna sem taka eigin völd fram yfir breytingar byggðar á hugsjónum. Í stefnuyfirlýsingu og stefnuræðu hæstv. forsrh. eru engin nýmæli. Við búum við mikið atvinnuleysi og félagsleg vandamál vegna þessa hafa stóraukist. Ríkisstjórnin hefur enga stefnu á því sviði.
    Við höfum lengi búið við misrétti atkvæðisréttar sem er grunnréttur samfélagsins. Engin afdráttarlaus fyrirheit eru um að leiðrétta þetta.
    Stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum er máttlaus. Þingmenn Þjóðvaka munu flytja tillögu um upptöku veiðileyfagjalds og skipun nefndar til að undirbúa það mál.
    Í kosningabaráttunni lagði Þjóðvaki mikla áherslu á að breyta verðmyndunarkerfinu í sjávarútvegi. Nú þegar fer þriðjungur botnfisksaflans um fiskmarkaði og við teljum að það hlutfall verði að auka. Sjómannasamtökin eru sama sinnis. Væntanlegt verkfall á flotanum verður ekki leyst nema komið verði til móts við þessar hugmyndir.
    Við skulum þó reyna að standa saman í einu máli, ríkisstjórn og stjórnarandstaðan, og það er baráttan fyrir rétti okkar á úthafinu. Það er mikið áhyggjuefni ef erlendur floti ofveiðir karfastofna okkar á Reykjaneshrygg eða við fáum ekki sanngjarnan hlut í síldar- og þorskstofnum í norðurhöfum. Það ber að íhuga hörðustu aðgerðir til að tryggja rétt okkar, m.a. útfærslu landhelginnar, einir eða með öðrum þjóðum, tímabundið þar til niðurstaða fæst á alþjóðvettvangi.
    Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar felst í því að efla fjárhag ríkisins á kostnað velferðakerfisins. Þetta er slæm stefna. Auðvitað á að skapa meiri verðmæti í þjóðfélaginu frekar en að ráðast á velferðarkerfið og til er einföld aðferð sem ríkisstjórnin virðist ekki hafa hugmynd um. Framleiðni íslenskra fyrirtækja er með því lægsta í Evrópu. Þjóðvaki, ein stjórnmálahreyfinga, benti mjög ákveðið á þetta í kosningabaráttunni. Nú tóku vinnuveitendur þetta upp á sínum aðalfundi. Þarna liggja sóknarfærin. Fyrirtækin verða að standa sig betur, en íslensk fyrirtæki greiða nú einna lægsta skatta í Evrópu. Samt ætlar ríkisstjórnin enn að bæta hag fyrirtækja.
    Hvers konar efnahagsstefna er þetta? Á að vernda íslenskt atvinnulíf eins og þurfalinga? Á að knýja launastigið hér enn neðar niður og krefjast sífellt lengri vinnudags af launafólki? Stjórnarandstaðan mun bíða enn um sinn eftir stefnu ríkisstjórnarinnar. Víst er, herra forseti, að sjaldan hafa þingheimi í upphafi þings verið birt jafninnihaldslítil plögg og stefnuyfirlýsingin og stefnuræða hæstv. forsrh. Ef þetta verður til marks um stjórnarhættina, þá verður vandlifað hér fyrir marga næstu fjögur árin. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.