Tilkynning um dagskrá

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 10:39:03 (46)


[10:39]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið venjan hér í þinginu að reyna að taka tillit til eðlilegra og sanngjarnra óska sem fram hafa komið. Hins vegar hefur það líka verið venja hér í þinginu, hæstv. fjmrh., að hafa að engu hótanir. Ef hæstv. fjmrh. hefði flutt ósk sína hér fram með eðlilegum rökum hefði verið sjálfsagt að skoða það. En fyrst hæstv. fjmrh. tengdi við ósk sína hótun um það og rangtúlkun á þann veg að ef ekki yrði farið að þessari ósk hans þá mundi hann líta á það sem tilkynningu um það hér strax í þingbyrjun að þar með ættu ráðherrar að fara að hengja öll sín mál saman í bandorm sem almennt hefur verið talið undantekningaraðferð hér í þinginu.
    Ég held að það sé ekki farsælt, hæstv. fjmrh., að byrja þessa samvinnu hér í þinginu með hótunum og útúrsnúningum af því tagi sem komu fram hjá hæstv. ráðherra. Ég get alveg sagt það strax við ráðherrann að fyrst að beiðnin var sett fram í þessum stíl og í þessum búningi þá kemur ekki til greina að fallast á hana. Það kemur ekki til greina. Sérstaklega líka í ljósi þess hver ástæðan er fyrir því að umræðan fer fram hér í dag. Ástæðan er sú að hæstv. fjmrh. er að fara til útlanda. Og hver er ástæðan fyrir því að forsrh. á að halda umræðunni áfram eftir helgina þegar hæstv. fjmrh. er í útlöndum? Hún er sú að málið er talið svo mikilvægt að staðgengill fjmrh. á að halda því áfram þó að fjmrh. sjálfur megi ekki vera að því.
    Ég vil bara spyrja hæstv. fjmrh. fyrst hann er að opna hér umræður um meðferð málsins: Hvað er svona mikilvægt í útlöndum að fjmrh. biður um það gagnvart formönnum þingflokka í þessari viku að það sé haldinn fundur hér í dag, sem ekki var ætlast til að gera, til að þóknast utanferðarplani hæstv. fjmrh.? Ég hélt að það hefði verið nóg fyrir ráðherrann að við féllumst á það hér formenn þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna að halda þennan fund í dag svo ráðherrann mætti mæla fyrir þessu áður en hann færi til útlanda. Svo á það eftir að koma í ljós hvort menn fallast á það að halda umræðunni áfram þegar hæstv. ráðherra er fjarverandi. Ég verð að segja alveg eins og er, þó að maður hafi kannski verið tilbúinn til þess hér fyrr, að eftir þessar hótanir og stærilæti áðan í ráðherranum þá efast ég satt að segja um að við munum fallast á það að hæstv. forsrh. muni standa fyrir þessum frv. fyrst hæstv. fjmrh. má ekki vera að því.
    Það er sagt við okkur hér í þinginu að þessi mál séu svo mikilvæg að þau verði að vera fyrstu mál stjórnarinnar. Þau eru svo mikilvæg í öðru lagi að það verður að halda fund á sérstökum degi þó það hafi ekki verið ætlast til þess. Svo eru þau svo mikilvæg að forsrh. á að vera í forsvari fyrir þeim eftir helgina. Ef þessi mál eru af slíkri þungavigt, hæstv. fjmrh., þá ber hæstv. fjmrh. að vera hér á þinginu. Það er satt að segja alveg nauðsynlegt að segja það við hæstv. ráðherra í upphafi kjörtímabilsins að æðsta skylda ráðherra í ríkisstjórn Íslands er að mæta til að standa fyrir sínum málum á þjóðþinginu. Fundir í útlöndum af hvaða tagi sem þeir eru eru ekki mikilvægari heldur en að standa fyrir sínum eigin frumvörpum á Alþingi Íslendinga.