Tilkynning um dagskrá

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 10:50:49 (50)

[10:50]
     Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Ég tel að það sé sjálfsagt að greiða fyrir þingstörfum. Það hefur stjórnarandstaðan

einmitt gert hér í dag með því að fallast á þennan fund sem upphaflega var ekki á því plani sem rætt var hér a.m.k. fyrir nokkrum dögum. Það var gert til þess að greiða fyrir flutningi fjmrh. til útlanda og sjálfsagt að hann verði þar en hins vegar er það svo að þetta þing átti upphaflega ekki bara að snúast um það áfengisvandamál sem ríkisstjórnin hefur gagnvart EES heldur var það tilkynnt hér mörgum dögum fyrir þing að þetta vorþing ætti fyrst og fremst að snúast um tvennt, um sjávarútveg og um GATT. Nú er liðin ein þingvika og hæstv. forsrh. hefur í fjölmiðlum lýst því yfir að stefnt sé að því að ljúka þingi á tíu dögum. Það kom fram hér áðan hjá hæstv. fjmrh. að það verði ekki nema þrír þingdagar í næstu viku og enn bólar ekkert á þeim mikilvægu frv. sem ríkisstjórnin hefur boðað um stjórn fiskveiða og um GATT. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að það verður að ganga á báða bóga að stjórn og stjórnarandstaða reyni að greiða fyrir þingstörfum. Stjórnarandstaðan hefur fyrir sitt leyti gert það eins og ég hef rakið hérna en ég sé ekkert bóla á því að hæstv. ríkisstjórn leggi sitt af mörkum til þess að greiða fyrir þingstörfum með því að leggja fram þau frv. sem hún og einstakir þingmenn hennar, eins og þingmenn Vestf., hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Einar K. Guðfinnsson, hafa margsinnis boðað að komi hér fram á vorþinginu. Þess vegna vil ég inna hæstv. forseta eftir því: Veit hann til þess að þessi stjórnarfrv. séu á leiðinni? Veit hann til þess að hæstv. ríkisstjórn hyggist reyna að greiða fyrir þingstörfum og standa við að ljúka þingi á skikkanlegum tíma með því að koma fram með þessi frv.? Eða er það svo að við séum hér að byrja vorþing með allt upp í loft þegar á kærleiksheimili ríkisstjórnarinnar? Getur það verið að frv. um GATT og um stjórn fiskveiða séu ekki fram komin af þeirri einföldu ástæðu að það er hvorki sátt millum stjórnarflokkanna né innan stjórnarflokkanna um þetta mál?