Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 11:06:41 (53)


[11:06]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrir um það bil fimm mánuðum sagði hæstv. fjmrh. hér á Alþingi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þetta frv. er algjörlega flutt vegna stefnu ríkisstjórnarinnar og það er alveg ljóst hver fyrirvari Íslands var í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta fer hvorki í bága við fyrirvarann né heldur við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði.``
    Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir eins ótvírætt og fram kemur á þessari tilvitnun sem ég hér las að það frv. sem hann var að mæla fyrir og er endurflutt nú væri algjörlega, svo notuð séu hans orð, flutt vegna stefnu ríkisstjórnarinnar. Það væri ekkert varðandi samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sem væri því valdandi að nauðsynlegt væri að gera þessa breytingu.
    Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh.: Var þessi ótvíræða yfirlýsing, sem hann gaf á Alþingi 8. des. sl., ekki rétt? Hvað hefur breyst frá því að yfirlýsingin var gefin 8. des. á þann veg að nú var það meginuppistaðan í röksemdafærslu hæstv. ráðherra að það væri nauðsynlegt að flytja þetta frv. vegna einhverra álitsgerða frá stofnunum EES-svæðisins? Nú eru það álitsgerðir frá stofnunum EES-svæðisins sem eru helsti hvatinn að því að ráðherrann ekki aðeins flytur frv. heldur telur brýnt að það sé afgreitt á þessu sumarþingi. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Var yfirlýsing hans 8. des. röng eða hvað hefur breyst?