Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 11:13:54 (56)


[11:13]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég lýsi furðu minni á þessum málflutningi sem segir mér að hv. þm. hlustar ekki vel á það sem sagt er. Í fyrsta lagi varðandi smásöluna þá er enginn sem segir að áfengi að seljast í öllum búðum. Það eina sem var sagt var að það gæti verið að dómstóllinn tæki það mál upp. Í bréfum frá ESA hefur margoft komið fram að þó að það sé ekki þeirra álit þá hafa þeir bent á að svo kynni að fara að það væri álit dómstólsins. Þessi gögn hafa öll legið fyrir nefndum þingsins á fyrra kjörtímabili og ég veit að fulltrúi þingflokks Alþb. er maður sem stundum talar við hv. þm. og hefði getað sagt honum þetta fyrr.
    Í fyrsta lagi er frá því að segja að auðvitað heldur Ísland uppi vörnum á þeim grunni sem þeir telja vera réttan. Það er engin ástæða fyrir okkur að segja annað en það sem við höfum sagt frá öndverðu, að við teljum að við séum ekki að brjóta gegn þessum samningi.
    Í öðru lagi er það okkar mat að það sé alveg óþarfi að láta reyna á þetta fyrir dómstólum þegar á það er litið, sem er aðalatriði málsins, að við teljum að það sé heppilegt að breyta þessari skipan okkar vegna algjörlega burt séð frá því hvað líður niðurstöðu dómstólsins eða niðurstöðu ESA. ( ÓRG: Er það líka afstaða Framsfl.?) Það er þetta sem skiptir máli. (Gripið fram í.) Ég bið hv. þm., þó ég skilji vel að hann sé órólegur eftir kosningaúrslitin, aðeins að gæta hófs og sýna a.m.k. smákurteisi í þingsölum. Hann hefur nægan tíma til þess því að hann er búinn að fara fram á að tala tvöfaldan tíma og við erum einungis komin fram í andsvör við fyrstu ræðuna.