Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 11:15:57 (57)


[11:15]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við ræðu hæstv. fjmrh. Hann gat þess í ræðu sinni að það mál, sem er til umræðu, hefði verið vel rætt á síðasta þingi og var ekki annað að skilja en að ekki þyrfti að eyða miklum tíma í það núna. Það vill svo til að hæstv. fjmrh. mælti fyrir þessu máli 21. febr. 1995 en þingi lauk 25. febr. Þingið hafði því hvorki meira né minna en fjóra daga til að ræða þetta mál.
    Á síðasta kjörtímabili átti ég sæti í efh.- og viðskn. sem hafði þetta mál til umfjöllunar og ég get alveg fullyrt að þetta mál var á engan hátt útrætt eða búið að vinna það enda hafði nefndin í ýmsu öðru að snúast. Ég vil þess vegna mótmæla því að þau frv., sem snúa að ÁTVR eða gjaldi á áfengi og annað það sem í þessu felst, hafi verið vel eða rækilega unnið af þinginu.