Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 11:19:54 (61)


[11:19]
     Ögmundur Jónasson :
    Þingforseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, með síðari breytingum. En eins og fram hefur komið í umræðunni tengist þetta frv. öðrum frv. sem senn verða einnig til umræðu þannig að það ber að skoða þetta að vissu leyti sem eina heild. En mig langar í upphafi máls míns að lýsa furðu minni á málflutningi hæstv. fjmrh. hér áðan þegar hann ver nokkrum tíma í að skýra okkur frá því hvaða embættismenn hafi komið að þessum málum. Hvaða embættismenn í starfi hjá ríkinu hafi verið fengnir til að aðstoða við smíði þessa lagafrv. Mergurinn málsins er náttúrlega sá að hér er á ferðinni stórpólitískt mál sem snertir ýmsa þætti í þjóðlífinu. Við erum ekki einungis að fjalla um sölu á vöru, við erum að fjalla um áfengisstefnu, við erum að fjalla um heilbrigðisstefnu og við erum að fjalla um fjármál ríkisins. Það sem um er að ræða er að réttir aðilar gangist við þeirri ábyrgð sem er þeirra. Þetta er pólitískt mál og það eru pólitískir aðilar sem eiga að axla þá ábyrgð, sem þeim ber, en þeir eiga ekki að vísa til manna sem eru fengnir til að aðstoða við frumvarpssmíðina með einum eða öðrum hætti.
    Hvað er hér um að ræða? Það er um það að ræða að afnema eigi einkarétt ÁTVR á því að flytja inn áfengi til landsins. Í þessum pakka öllum er gert ráð fyrir því að ÁTVR hætti að vera innheimtuaðili fyrir hönd ríkissjóðs, gjöldin eiga hér eftir að afgreiðast í tolli. Það sem skiptir máli er að menn geri sér grein fyrir því að við erum að fara inn í fyrirkomulag þar sem um er að ræða gerbreytta stöðu ÁTVR sem nú á einvörðungu að reka sem áfengisverslun og eftir markaðslögmálum. Eins og segir í athugasemdum við frv. til laga um gjald á áfengi, með leyfi forseta:
    ,,Eftir þessa breytingu mun ÁTVR verða með álagningu á áfengissölu sem standa á straum af kostnaði fyrirtækisins og skila hæfilegum arði af því og fjárfestingum þess. Ekki er gert ráð fyrir að settar verði reglur um heildsölu- og smásöluálagningu ÁTVR fremur en annarra sem annast sölu áfengis.``
    Þarna er með öðrum orðum verið að beina ÁTVR inn í samkeppni sem hefur ekki verið við lýði fram til þessa. Samkeppni við aðra aðila sem annast innflutning á áfengi.
    ÁTVR hefur haft að leiðarljósi að selja sem minnst áfengi og tóbak með sem mestum hagnaði. Með öðrum orðum hefur markmiðið með starfsemi ÁTVR verið að takmarka sem mest neyslu áfengis og tóbaks í landinu en um leið að skila sem mestum tekjum af sölunni í ríkissjóð. Það má spyrja: Hvað gerist þegar sala á áfengi og tóbaki er komin í hendur einkaaðila? Munu þeir hafa sömu markmið að leiðarljósi? Getur verið að það verði markmið innflytjenda að selja sem minnst? Er ekki líklegt að innflytjendur muni keppa innbyrðis um viðskiptavini sína sem verða hótel og veitingastaðir? Hvaða braut erum við eiginlega að fara inn á? Hvað skyldu þeir sem hafa látið sig áfengisvarnarmál varða segja um þessi efni? Ég ætla ekki í þessari umræðu að lesa upp úr öllum þeim samþykktum sem áfengisvarnaráð hefur látið frá sér fara, samtökin Vímulaus æska eða önnur samtök sem hafa beitt sér af krafti hér á liðnum árum til að sporna gegn áfengisneyslu í landinu og aukningu áfengisneyslu. Ég ætla ekki að lesa upp úr þeim gögnum á þessu stigi, ég mun gera það síðar ef þörf krefur. En niðurstaða þessara aðila er öll á einn veg. Það er varað mjög eindregið við því að við fetum okkur inn á þá braut sem boðuð er með þeim frv. sem hér liggja fyrir.
    Margoft hefur komið fram í máli fjmrh. að það er langtímastefna að leggja niður Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Þetta hyggst ráðherrann gera í áföngum. Fyrsti áfanginn var að selja framleiðsludeild ÁTVR, því er lokið. Framleiðsludeild ÁTVR var seld hæstbjóðanda á 15 millj. kr. Það verð var langt undir raunvirði og er nú reyndar kapítuli út af fyrir sig sem er vert að leiða hugann að því að það hefur allt of lítið verið fjallað um þetta mál. Framleiðslan á áfengi fór fyrst og fremst fram í pásum hjá ÁTVR á lagernum, fór fram með mjög litlum kostnaði, en um mitt ár 1992 seldi fjmrh. framleiðsludeild ÁTVR. Þá þurfti ekki gera neinar lagabreytingar varðandi söluna því að hún var einvörðungu ákvörðun fjmrh. Mér þykir miður hve lítið var fjallað um þessa sölu á sínum tíma því þetta tengist allt saman þeirri stefnu sem hér er verið að fylgja fram og nauðsynlegt er að menn geri sér glögga grein fyrir því hvert samhengi hlutanna er. Almenningur á kröfu á að vita hvort einkavæðingarstefna ríkisstjórnarinnar er til góðs eða ills.
    Það er fróðlegt að skoða hvaða afleiðingar þessi sala hefur haft fyrir ríkissjóð. Salan á framleiðsludeildinni var boðin út og samið við hæstbjóðanda sem átti reyndar nokkur hæstu boðin og féll hann frá þeim efstu. Samkvæmt kaupsamningi fengust rúmlega 15 millj. kr. án skatts fyrir framleiðsludeildina en áður

en kaupsamningur var undirritaður lá fyrir það álit yfirmanns framleiðsludeildarinnar að of lágt verð væri í boði. Það álit var virt að vettugi og greinilegt að framleiðsludeildin skyldi seljast hvað sem það kostaði, jafnvel gefin í burtu. Í útboðsgögnum komu fram tölur úr framleiðslubókhaldi ÁTVR fyrir árið 1990 kom fram að framleiðsludeildin skilaði hagnaði upp á tæpar 6 millj. kr. og að auki rúmlega 12 millj. upp í fastan kostnað hjá fyrirtækinu. Eftir söluna tapar ÁTVR hagnaðinum við framleiðsluna en situr uppi með fastakostnaðinn. Því má segja að beint tekjutap ríkissjóðs vegna sölu á framleiðsludeildinni sé um 17 millj. kr. Söluandvirði búnaðarins hrökk ekki einu sinni fyrir tekjumissi eins árs. Þetta var fyrsti áfanginn í því að leggja niður Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
    Núna er um það rætt að eftir að framleiðsludeildin hefur verið seld eða gefin, alla vega verið færð kaupendum á silfurfati, að til standi að selja iðnaðardeildina hjá ÁTVR. Það á smám saman að tína fjaðrirnar af þessu fyrirtæki og þessari stofnun, iðnaðardeildina þar sem t.d. kökudropar eru framleiddir. Ég vil vekja athygli á því að þar starfa fjórir til fimm fatlaðir einstaklingar sem missa allir vinnuna. Það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því hvað er hér á ferðinni. Það er verið að stíga markviss úthugsuð skref í þá átt að leggja ÁTVR niður. Með þeim breytingum, sem hér var talað um, kom fram í máli hæstv. fjmrh. áðan ef ég skildi það rétt, að ekki yrði um tekjutap að ræða. Ég sá ekki betur í grg. með þessum frv. að talað væri um að ÁTVR yrði af 50 millj. við þær breytingar sem eru boðaðar í því frv. sem hér er til umræðu, verslunin mundi að öllum líkindum missa um 10% af sölunni til hótela. Margir ætla að þetta tekjutap yrði miklu meira.
    Við þurfum öll að gera okkur grein fyrir að verið er að boða byltingu í íslensku þjóðlífi þegar við erum að tala um breytta heilbrigðisstefnu, breytta áfengisstefnu. Nauðsynlegt er að staldra við og skoða hvort þessar breytingar eru til góðs eða ills, sérstaklega á þeim erfiðu tímum sem við glímum við í dag.
    Menn spyrja hvers vegna verið er að gera þessa hluti, hvers vegna verið er að framkvæma þessar breytingar. Við höfum fengið hluta af svörunum, það er verið að þjóna hugsjónum, pólitískum markmiðum og e.t.v. er verið að þjóna hagsmunum líka. Það eru miklir hagsmunir í húfi líka. Báða þessa þætti þarf að ræða rækilega. Síðan hefur það komið upp á borð núna að einnig sé verið að verða við skuldbindingum sem við höfum gefið í tengslum við hið Evrópska efnahagssvæði.
    Í júnímánuði 1992 ritaði ég fyrir hönd BSRB utanrrn. bréf þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um það hvaða breytingar þyrfti að framkvæma innan lands varðandi rekstrarform opinberra stofnana til þess að við stæðumst þær skuldbindingar sem við verðum að gangast undir gagnvart EES. Þetta bréf sendi ég í júnímánuði 1992 og fékk svar að bragði. Ég leyfi mér að vitna í það bréf sem barst frá utanrrn. 1. júlí 1992, með leyfi forseta:
    ,,Samningurinn krefst þess ekki að ríkisfyrirtæki eða stofnanir verði færð yfir í einkarekstur og skerðir á engan hátt möguleika ríkis eða sveitarfélaga til þess að taka þátt í atvinnustarfsemi. Rekstur einkasölu er þó bundinn ákvæðum 16. gr. EES-samningsins en þar er skylt að tryggja að ekki sé gerður greinarmunur milli ríkisborgara aðildarfélaga EB og EFTA-ríkja hvað snertir skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar.
    Einstaklingar í Noregi hafa sýnt áhuga á að keppa við áfengiseinkasölu þar og telja EES-samninginn opna þar nýja möguleika. Vísa þeir til úrskurðar EB-dómstólsins í svonefndu Manghera-máli þar sem talið var að tóbakseinkasala á Ítalíu samrýmdist ekki 37. gr. Rómarsáttmála. Í því máli er hins vegar um að ræða hreina verndarstefnu ítalskra yfirvalda sem vildu standa vörð um ítalska tóbaksrækt.
    Ekkert mælir gegn starfsemi ÁTVR, sem í raun hefur haft í hendi einkaleyfi á smásölu fremur en við innflutning, sem mismunar ekki á grundvelli þjóðernis. Þess má og geta að í öðrum dómsúrskurði EB-dómstóls hefur komið fram skýr skilningur á því að sérstakar reglur skuli gilda um viðskipti með áfenga drykki.
    Þetta er mjög afdráttarlaust. Ég spyr: Hvað hefur breyst?
    Mér finnst nauðsynlegt að þeir sem gefa út yfirlýsingar af þessu tagi, og hér er vitnað til stjórnvalda, skýri okkur greinilega frá því hvað hafi breyst. Menn vitna til Finnlands í þessu sambandi og ábendingar sem fram hafi komið frá stofnunum hins Evrópska efnahagssvæðis en ég vil leyfa mér að halda því fram og staðhæfa að þetta séu ekki sambærileg efni. Eftir því sem ég fæ skilið þessi mál þá er nóg að breyta tveimur lagaákvæðum sem bæði gilda um ÁTVR. Það er nóg að gera smávægilegar breytingar hér á lögum til að við stöndumst fyllilega þær kröfur sem gerðar eru af hálfu EES-samkomulagsins sem við höfum gengist undir.
    Í fyrsta lagi mætti fella niður framleiðsluréttinn eða aðskilja á skýran hátt söluhlutann og framleiðsluhlutann. Það er reyndar sáralítil framleiðsla eftir að Svarti dauðinn var færður svokölluðum kaupendum á silfurfati á sínum tíma. Þá nægir sem sagt að aðskilja mjög rækilega söluhlutann og framleiðsluhlutann. Þetta eru menn t.d. að gera í Noregi og þar verður eftir sem áður sami forstjóri yfir öllu batteríinu en það eina sem menn gera er að menn aðskilja rækilega söluhlutann og framleiðsluhlutann.
    Í öðru lagi þyrfti að tryggja að einkaleyfisrétti ÁTVR verði ekki beitt til að mismuna. Reyndar þarf enga lagabreytingu til að svo verði en það mætti, ef mönnum liði betur og teldu sig standa betur að vígi gagnvart EES, ráðast í lagabreytingu sem gæti, með leyfi forseta, hljóðað svo: ,,Komi fram ósk um að tiltekin tegund áfengis eða tóbaks verði flutt til landsins má eigi synja þeim tilmælum nema með vísun til annarra laga en þessara enda hafi sá er tilmælin bar fram tryggt að innflytandi fái andvirði vörunnar greitt.``

    Hér væri einvörðungu um að ræða staðfestingu í lögum á því sem þegar er viðhaft hjá ÁTVR.
    Með öðrum orðum þá eru rök fyrir því að með smávægilegum breytingum væri hægt að taka af allan vafa gagnvart EES-samkomulaginu.
    Þá kemur að hinum pólitíska þætti og hinni pólitísku ábyrgð í þessu máli. Mér er kunnugt um að starfsmannafélag ÁTVR hefur kynnt sér þessi mál mjög rækilega. Það hefur einnig verið gert á vettvangi BSRB og ég get upplýst hér að fyrir kosningarnar ræddum við við marga stjórnmálamenn sem sátu þá á þingi og sitja enn á þingi og ég sakna þess sárlega að sjá ekki t.d. marga ágæta framsóknarmenn sem gáfu mjög afdráttarlausar yfirlýsingar, bæði í þingsölum og einnig í samtölum við þá aðila sem ég vitnaði til hér áðan. Ég vil t.d. nefna hæstv. viðskrh. sem er ekki hér staddur í dag og kom á fund okkar og gaf mjög afdráttarlausar yfirlýsingar um þessi efni. Að ekki sé vitnað til orða hæstv. félmrh., sem gaf yfirlýsingar úr þessum ræðustól á síðasta þingi, sem gefa ekki tilefni til mikilla túlkana, svo afdráttarlausar voru þær yfirlýsingar um að hann mundi aldrei ljá þessum frv. atkvæði sitt. Ég minni á þær áherslur sem voru á flettiskiltum um allan bæ fyrir kosningar þar sem menn horfðu ábúðarmiklir í stíl Kim Il Sungs í Suður-Kóreu niður í mannþröngina og sögðu að saman ætti að fara traust og trúverðugleiki. Það verður fróðlegt að hlusta á menn tjá sig um þessi efni hér á komandi dögum. Hvað finnst hæstv. heilbrrh. sem er einhvers staðar úti í bæ eða a.m.k. ekki í þingsal þegar þetta mikilvæga mál er til umræðu og snertir mjög heilbrigðisþáttinn í þjóðlífinu? ( Gripið fram í: Hún var hérna áðan.) --- Væri hægt að fá hæstv. heilbrrh. til að koma í þingsal?
    En eitt er víst að þegar allir þessir þættir eru teknir saman, fullyrðingar sem ég hef sett fram um að það þurfi ekki að gera breytingar og í besta falli afar litlar breytingar ef menn vilja viðhafa til að taka af allan vafa gagnvart EES. Í ljósi þessa, í ljósi yfirlýsinga sem stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar gáfu fyrir kosningar, í ljósi afstöðu sem fram hefur komið af hálfu allra þeirra sem hafa blandað sér í umræður um áfengisvarnir í landinu á liðnum missirum og árum, í ljósi afstöðu þeirra, mjög eindreginnar gegn þessum frv., finnst mér það fullkomið ábyrgðarleysi ef á að þröngva þessu í einhverjum andarteppustíl í gegnum þingið á örfáum dögum. Fullkomið ábyrgðarleysi.
    Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að hafa komið hingað í salinn til þess að hlýða á þessa mikilvægu umræðu sem er hafin og það væri fróðlegt að heyra sjónarmið heilbrrh. Ég er ekki að mælast til þess að heilbrrh. tali fyrir hönd framsóknarmanna sem gáfu yfirlýsingar fyrir kosningar um afstöðu til þessara mála og eindreginnar afstöðu gegn þessum frv. Ég er ekki að mælast til þess, það er eðlilegt að þeir geri það sjálfir þegar þar að kemur. En mig langar til að spyrja hæstv. heilbrrh. um afstöðu heilbrigðisyfirvalda til þeirrar gerbreyttu áfengisstefnu sem verið er að boða með þeim frv. sem hér liggja fyrir Alþingi.