Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 11:44:59 (62)


[11:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það gefst ekki tækifæri til þess að svara öllu því sem kom fram í ræðu hv. þm. en það er þó eitt atriði sem ég vil strax að komi fram og það er vegna sölu á framleiðsludeildinni en það var gefið í skyn í ræðu hv. þm. að hún hafi verið gefin. Á sínum tíma tók Ríkisendurskoðun út sölu fyrirtækja í eigu ríkisins 1991--1994. Þar voru gerðar ýmsar athugasemdir en engin athugasemd við þessa sölu sem endaði í 18--19 millj. kr. Ég held að það sé allra manna mál að þessi sala hafi farið mjög eðlilega fram og verðið verið eðlilegt, en verðtilboðin sem komu í framleiðsluþáttinn voru frá 4,5 millj., sem var lægsta boð, en salan var endanlega á 18,8 millj. Þetta vildi ég að kæmi hér fram.
    Varðandi sölu iðnaðardeildarinnar þá er hún ekki að frumkvæði fjmrn. eða einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar. Það er flóknara fyrirbæri og að því kemur svokallaður Sunnusjóður, sem ég veit að hv. þm. hlýtur að kannast við ef hann hefur kynnt sér málið. Það er ekki að frumkvæði ráðuneytisins að breytingar eigi sér stað á framleiðslu á kökudropum, það er rangt, frumkvæðið kemur frá Áfengisversluninni sjálfri og þeim aðilum sem fjalla um það mál. Ég skal upplýsa hv. nefnd um það mál og kannski síðar í dag, hv. þm., þegar ég er búinn að fá frekari upplýsingar um málið.