Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 11:46:55 (63)


[11:46]
     Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónsson spyr heilbrrh. um þetta mál. Það er rétt sem fram kemur í máli þingmannsins að þetta kemur heilbr.- og trmrh. verulega við. Áfengislög, nr. 82/1969, hafa nokkra sérstöðu að því leyti að þau heyra beint eða óbeint undir þrjú ráðuneyti: Dómsmrn., fjmrn. og heilbr.- og trmrn. Í áfengislögunum er sérstakur kafli um áfengisvarnir, VII. kafli, sem heyrir undir heilbr.- og trmrn. Þar segir m.a. að umsagnar áfengisvarnaráðs skuli jafnan leita áður en reglugerðir samkvæmt lögum þessum séu settar. Því er mjög eðlilegt að heilbrrh. láti þessi mál til sín taka og mér finnst mjög eðlilegt að heilbr.- og trn. ræði þessi mál þegar þar að kemur. Mér finnst aðalatriðið í þessu máli að aðgengi barna og ungmenna að áfengi aukist ekki með þessari löggjöf.