Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 11:49:46 (65)


[11:49]
     Rannveig Guðmundsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég óska að leggja orð inn í þessa umræðu. Það sem við erum að ræða er stórt mál og er afar mikilvægt að taka það til góðrar umræðu hér eins og við höfum áður gert með mál sem snúa að áfengis- og tóbakseinkasölu ríkisins. Það er mikilvægt að reyna að átta sig á hver áhrif þess eru og hvernig bregðast skuli við og ef óumflýjanlegt er að gera þær breytingar sem hér er lagt til hvort þær eiga að vera í þessa veru eða hvort hægt væri að sameinast um aðrar leiðir.
    Það er alveg ljóst að þegar á að einkavæða, eins og við gjarnan orðum svo, áfengissöluna að einhverju leyti þá koma upp mjög ólík sjónarmið. Það eru ólík sjónarmið á milli flokka en það eru einnig ólík sjónarmið innan flokka og einstaklingar í öllum flokkum geta haft harða afstöðu gagnvart því sem snýr að áfengismálum og haft uppi þau sjónarmið að það hvernig við höfum haldið á málum hingað til sé besta formið þó e.t.v. verði að beygja sig fyrir því að þurfa að gera breytingar.
    Þetta frv. sem við erum að ræða í dag var endurflutt og var stjfrv. þegar minn flokkur var í ríkisstjórn. Það var fallist á að þetta væri flutt sem stjfrv. en ég vil gjarnan að það komi fram hér að það voru þó skiptar skoðanir um þetta mál innan þingflokksins og það eru einnig skiptar skoðanir um þetta mál innan flokksins. Það er eðlilegt þegar flokkar eru í samsteypustjórnum og ljóst að ýmis stjórnarfrumvörp fara fram þrátt fyrir að ágreiningur sé innan flokkanna um þau.
    Ég tel að ég muni það rétt, virðulegi forseti, að það hafi verið samþykkt að leggja þetta frv. fram á sl. vetri, sýna það en ekki endilega pressa á um afgreiðslu þess þá. Ég sjálf hef skilið það þannig að þetta frv. væri afgerandi tengt EES-samningi okkar og þess vegna tek ég undir þau undrunarorð sem komu fram fyrr í umræðunni um að hæstv. fjmrh. hafi ekki tengt frv. EES-samningnum við umræðuna í desember og ég vil, með leyfi virðulegs forseta, vísa í orð fjmrh. í þeirri umræðu, en þá sagði hann:
    ,,Ég vil í fyrsta lagi taka það skýrt fram að ég sagði hvergi í minni ræðu að frv. væri flutt vegna fyrirheita sem hefðu verið gefin í EES-samningnum, það sagði ég hvergi. Þetta frv. er algerlega flutt vegna stefnu ríkisstjórnarinnar og það er alveg ljóst hver fyrirvari Íslands var í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.``
    Það kemur einnig fram, virðulegi forseti, síðar í ræðu fjmrh. að það sé hins vegar rétt að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hafi gert athugasemdir við innflutninginn en að við höfum svarað því til og bent til fyrirvarans sem við gerðum þegar samningurinn var undirritaður. Þá endurtekur ráðherrann að þetta frv. sé auðvitað fyrst og fremst flutt vegna þess að við teljum það skynsamlega ráðabreytni. Það eru þessi orð sem ollu mér nokkurri undrun og ég vil endilega upplýsa það hér að ég er ekki í hópi þeirra sem telja þetta beinlínis skynsamlega ráðabreytni.
    Það er hins vegar aldrei trúverðugt ef það kemur þannig út fyrir þingmann að hann hafi viðhorf sem eru ólík eftir því hvort hann situr í stjórn eða er í stjórnarandstöðu og ég tel að mínar vangaveltur við þessa umræðu séu fullkomlega óháðar þeirri stöðu.
    Ég hef áður átt orðastað við fjmrh. varðandi einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og hæstv. ráðherra þekkir það að í þessum málum er ég íhaldssöm og fremur stolt af því. Þannig er að í störfum mínum á Alþingi hef ég látið mig varða heilbrigðisþátt og varnaðarmálefni sem snúa að áfengis- og vímuefnanotkun og ég hef staðið fyrir tillöguflutningi míns þingflokks á nokkrum þingum um varnir gegn vímuefnum og jafnframt flutt frv. um merkingar á áfengisumbúðum, um skaðsemi áfengisneyslu fyrir vanfærar konur og að áfengisneysla og akstur fara ekki saman. Og það er alveg ljóst að sá sem þannig er að fjalla um og lætur sig varða þá þætti sem snúa að verslun okkar með áfengi og tóbak er auðvitað uppteknari af varnaðarþætti og að fara varlega og er fremur hlynntur að vera með einokun í þessum málum en frelsi. Það er engan veginn auðvelt að sættast á aukið frelsi í innflutningi og sölu áfengis og tóbaks og fyrir mér er það form einkavæðingar sem ég á erfiðast með að styðja. Ég tel að það að aflétta ríkiseinokun á þessum þætti sé afar stórt skref, en ég tel jafnframt að almennt varðandi einkavæðingar geti ýmislegt í þeim farvegi verið góð og eðlileg ákvörðun og það fari eftir eðli máls hverju sinni. Þetta ræddum við einmitt í umræðu um frv. fjmrh. um gjald af tóbaksvörum, sem rætt var í þinglok árið 1993, en náði ekki fram að ganga og hefur ekki verið hreyft síðan og ég tel að hafi verið góð ráðabreytni að fallið var frá að knýja það til enda.
    Þá ræddum við það einmitt að sumt af því sem hefur verið á hendi hins opinbera í gegnum tíðina hafi verið barn síns tíma, þótt eðlilegt að það væri á höndum ríkis eða sveitarfélaga á þeim tíma sem það var sett á laggir og jafnvel nauðsynlegt til að kæmist á, en það hefur yfirleitt tekið langan tíma að aflétta slíku fyrirkomulagi af hendi hins opinbera og verið umdeilt þegar það var gert. Þetta á við um marga hluti sem ég hef sjálf talið að væru betur komnir síðar á frjálsum markaði og þess vegna tel ég það að breyta og létta af hendi hins opinbera ýmsum þáttum geti verið góður hlutur og eigi ævinlega að skoða með opnum huga og líta á það sem lagt er til hverju sinni. En sumir þættir svokallaðra einkavæðingaráforma eru af þeim toga að ég er þeirrar skoðunar að varlega ætti að fara og ég vísa þar til þess sem hægt er að álykta að á einhvern hátt varði almannaheill á þeim tíma.
    Það kom fram í umræðunni í desember og í framsögu fjmrh. í dag, ef ég man rétt, að ekki væri um að ræða breytingu á áfengisstefnu hins opinbera. Um hana væri full sátt og ekki væri fyrirhugað að breyta henni. Hins vegar er það alveg ljóst að þetta er þannig skref að við verðum að spyrja okkur sjálf hvort óhjákvæmilega verði ekki breyting á áfengisstefnunni þegar það hefur verið stigið, ekki það að við séum að áforma eða ákvarða breytingu á áfengisstefnu heldur að breyting sem við gerum óháð slíkri ákvörðun verði til þess að þegar upp er staðið og skömmu síðar þá hafi orðið breyting á áfengisstefnunni sem við teljum að sé á verri veg.
    Ég vil líka geta þess að það að frv. var ekki flutt vegna fyrirheita sem hefðu verið gefin í EES-samningnum heldur eingöngu vegna stefnu ríkisstjórnarinnar, þá er það alveg ljóst núna að þrátt fyrir fyrirvarann sem Ísland hafði við þessi mál við gerð EES-samningsins, og reyndar önnur Norðurlönd, þá virðist hann ekki duga núna eftir að ákveðið ferli hefur átt sér stað. Þar er ég að vísa til þess dómsúrskurðar sem felldur var í Lúxemborg vegna Ítalíu og Portúgals og forúrskurðar sem felldur var í kjölfarið vegna Finnlands án þess að ég ætli nánar í þau mál enda ekki sérfræðingur beinlínis í að rekja þessa þætti.
    Þess vegna árétta ég það, virðulegi forseti, og leyfi mér að halda því fram við hæstv. fjmrh. að frv. þetta hafi í raun og veru tengst EES-samningnum, sem við höfum lagt mjög mikla áherslu á, og það sé okkar vandi nú að okkur sé nauðsynlegt að gera breytingar eftir að forúrskurður hefur verið felldur og krafa hefur verið gerð um breytingar gagnvart Íslandi og Noregi.
    Ég hef leyft mér, virðulegi forseti, að kalla eftir því í morgun hvernig Norðmenn hafa brugðist við þeirri kröfu sem sett hefur verið fram við Ísland og Noreg og það er alveg ljóst að Noregur, eins og Ísland, telur sig þurfa að gera breytingar á þeim þætti sem snúið hefur að einkasölu ríkisins á áfengi og tóbaki, bæði hvað varðar framleiðslu, innflutning og smásölu eins og kom fram í ræðu hv. 17. þm. Reykv.
    Mér hefur fundist það fróðlegt á þessari stuttu stundu að glugga í þá tillögu sem norska þingið er að fá til umfjöllunar, það hefur ekki fjallað enn þá um þessa tillögu. Ég held ég fari rétt með að tillagan hafi farið beint frá félagsmála- og heilbrigðisráðuneytinu til félagsmálanefndar norska þingsins og þar er verið að fara yfir hana en það er áformað að ljúka umfjöllun tillögunnar og afgreiða hana áður en þingi lýkur nú fyrri part sumars.
    Það er alveg ljóst að í Noregi er enn þá meiri andstaða við að afnema einkarétt á innflutningi á áfengi en hjá okkur þó ég leyfi mér að halda því fram að hjá íslensku þjóðinni sé andstaða við það og ótti við hvað geti gerst þegar við höfum gert þessa breytingu. Ég hef reynt að líta dálítið á þessa tillögu og það er alveg ljóst að í henni felst að afnuminn er einkaréttur norsku áfengisverslunarinnar á innflutningi og heildsölu á víni og brennivíni eins og þar er sagt og útfluttningi á brennivíni. Tillagan byggir á því að einkasölu áfengisverslunarinnar norsku til smásölu verði viðhaldið á þann sama hátt og hún er í dag. Enn fremur að önnur starfsemi sem í dag er á hendi norsku áfengisverslunarinnar og sem í megindráttum verður nú samkeppnisfærð verður sett út í eigin hlutafélög. Þannig ætla Norðmenn að leysa þessa kröfu sem uppi er af hálfu ESA að þeir skilja upp starfsemina og sá þáttur sem verður samkeppnisfær verður settur í hlutafélög. Það er mjög fróðlegt að líta á það hvernig Norðmennirnir ætla að leysa þetta mál. Þeir ætla að hafa einkaleyfi til innflutnings og heildsölu, og ætla að breyta þessu einkaleyfi þannig að það verði einhvers konar leyfisveitingar fyrir þá sem vilja viðhafa innflutning og heildsölu. En það er alveg ljóst að sú leyfisveiting á að innihalda og uppfylla þörfina fyrir áframhaldandi strangt eftirlit með þessum hluta af umsetningu eða fyrirkomulagi umsetningar á alkóhóli í Noregi.
    Það kemur líka fram þegar maður skoðar það fyrirkomulag sem Norðmenn eru með að þeir hafa verið að skipta upp starfseminni og eins og reyndar 17. þm. Reykv. fór yfir hér. Í tillögunni sem þeir hafa lagt fyrir þingið er verið að fjalla um hvernig eigi að deila upp starfseminni, hvaða form eigi að velja á því sem verður samkeppnisfært, hvernig félagaform í smásölunni sem fullkomlega verður á hendi ríkisins og hvernig félagaform fyrir samkeppnishlutann. Þar leggur ráðuneytið til að starfsemin verði fullkomlega í ríkiseigu og að samkeppnishlutinn, sem fari í hlutafélagaform, verði ríkishlutafélag. Ég tel, virðulegi forseti, að það sé afarmikilvægt að um mál eins og þetta náist eins góð samstaða og eins víðtæk samstaða og unnt er þegar gera þarf breytingar.
    Ég hef skilið það svo í allri umfjöllun stjórnmálamanna eftir að við höfum samþykkt EES-samninginn og eftir að reynsla hefur fengist af því hvers virði hann er fyrir íslenskt athafnalíf að jafnvel þeir sem greiddu atkvæði gegn samningnum á Alþingi geri sér grein fyrir því að ekki muni verða aftur snúið. Menn muni byggja á þessum samningi þar til annað og e.t.v. stærra skref verður tekið í samvinnu við Evrópu og þess vegna sé mjög mikilvægt að gera hlutina sem fylgja í kjölfar þessa samnings eins vel og unnt er.
    Ég tek eftir því, virðulegi forseti, að í tillögu sem lögð hefur verið fyrir norska þingið segir að þessar breytingar skuli hafa tekið gildi fyrir 1. jan. 1996 á meðan í frv. fjmrh., sem hér er lagt fram, er lagt til að það taki gildi 1. ágúst 1995. ( Gripið fram í: Hvaða breytingar eru gerðar hjá Norðmönnum?) Ég treysti mér ekki til þess umfram það sem ég hér hef getið að fara nákvæmlega í gegnum það. Þeir eru að losa þennan samkeppnishluta frá og búa til hlutafélagaform varðandi innflutning og dreifingu og heildsöluformið á því sem er innflutt en halda smásöluhlutanum. En tillagan er um að þessir hlutir taki gildi 1. jan. 1996. Eftir þessa stuttu skoðun á því máli tel ég að það eigi að vera fullkomlega svigrúm fyrir Alþingi að ná samstöðu um breytingar og skoða hvort þær breytingar sem lagðar eru fram í frumvarpsformi eru þær einu eða hvort e.t.v. megi líta á hvernig grannar okkar sem eru mjög umfram um evrópska samvinnu vilja stíga þau skref, sem nauðsynleg eru, til þess að sú samvinna geti orðið sem öflugust en eru hins vegar varkárir varðandi áfengismálin. Ég tel að það væri mjög mikilvægt að nefnd sem fær þetta mál til skoðunar kanni einmitt hvernig tillagan hefur verið sett fram fyrir norska þingið, skoði hvort við getum lært af henni og e.t.v. gert þær breytingar sem náist betri samstaða um en lítur út fyrir með því frv. sem hér hefur verið lagt fram. Ég ber þá spurningu fram við hæstv. fjmrh. hvort ekki geti komið til greina að hann skoði að gildistaka verði síðar þannig að það megi vinna í þessu máli í nefnd í sumar, málið fari til nefndar, það verði hægt að kalla eftir umsögnum frá sem flestum aðilum, skoða hvaða tillögur liggja fyrir hjá nágrönnum okkar og hvort samvinna náist um breytingar því það er það mikilvægasta skref sem við getum stigið. Það væri jafnframt afar mikilvægt með fyrsta almenna mál sem við tökum fyrir á Alþingi í upphafi þessa kjörtímabils og í máli sem tengist samningnum, sem er svo mikilvægur fyrir þjóð okkar, ef við getum unnið þetta mál þannig að samkomulag yrði um vegna þess að allir sem að því koma vita að ef við ætlum að búa við þennan samning þá verðum við að gera breytingar. Þessa tillögu legg ég fram, virðulegur forseti, við fjmrh., að hann reyni að koma til móts við það að hægt verði að skoða þessi mál mjög vel og gera breytingar á frv. sem samstaða næst um.