Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 12:10:45 (67)


[12:10]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að það hafi komið mjög skýrt fram í máli mínu að ég er þess mjög meðvituð að við erum búin að fá þá athugasemd frá ESA að athugasemd hefur verið gerð bæði gagnvart Íslandi og Noregi og að við munum þurfa að taka á þessu máli, það er alveg ljóst, ef við viljum ekki fá á okkur málshöfðun. Ég tel að enginn óski þess ef hann á annað borð ætlar að vera í því samstarfi sem við höfum þegar skipað okkur í. En þrátt fyrir að það hafi verið farið síðar af stað með athugasemdir gagnvart Norðmönnum get ég ekki ímyndað mér að við þurfum að afgreiða mál okkar einhverjum mánuðum fyrr. Ef það er nægilegt að tvær Norðurlandaþjóðir, tvær þær síðustu, séu búnar að skipa málum sínum í réttan farveg fyrir ákveðinn tíma hlýtur það að vera þannig að sé það nægilegt fyrir Noreg að vera búinn að því fyrir 1. jan. 1996 sé það jafnframt nægilegt fyrir Ísland.
    Ég vek einnig athygli á því að annars staðar á Norðurlöndum var búið að gera þessa breytingu áður vegna þess að þau ákváðu að sækja um inngöngu í Evrópusambandið og þjóðir þeirra samþykktu að

ganga í Evrópusambandið og það flýtti ákvörðun þeirra vegna þess að krafan gagnvart þeim löndum þegar þau voru komin með aðildarumsókn og voru á leið inn í sambandið var harðari en gagnvart þeim löndum sem eftir sitja með EES-samninginn.