Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 12:16:15 (70)


[12:16]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst af efni þeirra frumvarpa sem við fjöllum um og þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að það eru margar hliðar á þessu máli sem skoða þarf vandlega og ljóst að sá tími sem þingið virðist hafa er afar knappur til þess að fjalla um svo stórt mál. Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni að það er afar mikilvægt að það verði skoðað hvort við getum ekki haft það svigrúm sem Norðmenn hafa þannig að okkur gefist tækifæri og lengri tími til þess að fjalla um allar hliðar á þessu máli.
    Ég nefni líka, sem ég fagna mjög, að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur raunverulega tekið undir það með okkur sem hér höfum talað að þetta mál þurfi mjög rækilegrar skoðunar við og hæstv. ráðherra leggur raunverulega sjálf til að heilbr.- og trn. fjalli sérstaklega um kannski stærsta atriðið í þessu máli, hvort þessi frumvörp geti haft þau áhrif að við séum að breyta um áfengisstefnu. Ég vil taka undir það og leggja það eindregið til að heilbr.- og trn. fjalli einnig um þetta mál.
    Það er alveg ljóst að við virðumst vera að ræða um eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar um að gefa innflutning á áfengi frjálsan, eins og það heitir, og ég skil satt að segja ekki það ofurkapp sem hæstv. fjmrh. hefur lagt á þetta mál. Það hefur verið rætt um það hér hvort við séum að ræða um raunverulega stefnu ríkisstjórnarinnar um það að gefa innflutning á áfengi frjálsan eða hvort við séum að ræða þessi mál núna vegna athugasemda og kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Það er alveg ljóst af því sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. í desember sl. að við erum hér að ræða stefnu fyrri ríkisstjórnar og þá væntanlega þessarar í áfengismálum vegna þess að hæstv. ráðherra sagði

þá, með leyfi forseta:
    ,,Þetta frv. er algerlega flutt vegna stefnu ríkisstjórnarinnar og það er alveg ljóst hver fyrirvari Íslands var í samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta fer hvorki í bága við fyrirvarana né heldur við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er hins vegar rétt að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur gert athugasemdir um innflutninginn en við höfum svarað því til og bent til fyrirvarans sem við gerðum þegar samningurinn var undirritaður. Þetta frv. er auðvitað fyrst og fremst flutt vegna þess að við teljum það skynsamlega ráðabreytni.``
    Við getum líka velt fyrir okkur annarri hlið á þessu máli. Af hverju er komið svo að Eftirlitsstofnun EFTA er að gera þessa athugasemd? Það kemur fram í samantekt sem er gerð af fjmrn., að mér skilst 23. febr. 1995, og ég vitna til hennar orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Fljótlega eftir að ESA tók til starfa hóf stofnunin að skoða starfsemi áfengiseinkasala á Norðurlöndum. Tilefnið var m.a. kæra frá Verslunarráði Íslands, dags. 30. des. 1993, en ráðið taldi m.a. að hér á landi væri jafnræðis ekki gætt meðal framleiðenda áfengis og einkasalan sem slík hefði ekkert með félagsleg og heilsufarsleg markmið að gera.``
    Ástæðan sem sagt til þess, virðulegi forseti, að ESA fer að skoða þetta mál er kæra frá Verslunarráði Íslands. Og hver skyldi vera framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands sem flytur þessa kæru fyrir hönd ráðsins? Jú, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að vekja athygli á þessu vegna þess að mér skilst að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson muni verða kosinn formaður þeirrar nefndar sem síðan á að fjalla um þetta mál í þinginu sem væntanlega á að hraða í gegnum þingið ef ég skil orð fjmrh. rétt.
    Þá vaknar spurning, virðulegur forseti, um hæfi hv. þm. Vilhjálms Egilssonar til þess að taka á þessu máli þegar hann hefur frumkvæði að því fyrir hönd Verslunarráðsins að kæra til ESA sem er tilefni þess að við erum að ræða þetta mál hér í dag. Ég tel að hér sé um alvarlega hagsmunaárekstra að ræða og raunverulegt vanhæfi að hv. þm. skuli eiga að leiða þá nefnd og stýra henni sem á að keyra þetta mál í gegn.
    Við gerum miklar kröfur samkvæmt stjórnsýslulögum um hæfi aðila utan þingsins. Hvað gildir innan þingsins, hæstv. forseti? Ég held að það sé nauðsynlegt að áður en þessu máli verður vísað til nefndar, áður en þessari umræðu lýkur, að forseti skeri úr um það hvort hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem hefur átt frumkvæði að því fyrir hönd Verslunarráðsins að kæra þetta til ESA, sé hæfur til þess að stýra þeirri nefnd sem á að fjalla um þetta mál. Ég held að það sé mikilvægt að áður en þingheimur greiðir atkvæði um að vísa þessu máli til þessarar nefndar liggi fyrir úrskurður forseta í þessu máli.
    Auðvitað væri einnig mjög brýnt, virðulegi forseti, að fá úr því skorið, af því að við erum hér að fjalla um stjórnarfrumvörp, hvort hér sé um stjórnarfrumvörp að ræða. Það hefur ítrekað komið hér fram, m.a. hjá hv. 17. þm. Reykv. Ögmundi Jónassyni, að hæstv. félmrh. hafi marglýst því yfir að hann mundi aldrei greiða atkvæði slíku frv. Ég hef alltaf skilið það svo, og hef ég nú verið ráðherra, að það væri skylda ráðherra að greiða atkvæði með stjfrv. Annað væri sama og að víkja úr ríkisstjórn. Auðvitað þarf því þingheimur líka að fá vitneskju um það hvort allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar styðji málið en mér fannst ég heyra á máli heilbrrh. að hann hefði ákveðnar efasemdir í þessu máli og vildi a.m.k láta heilbr.- og trn. skoða þetta mál áður en afstaða ráðherrans lægi fyrir þannig að við þurfum að vita það hvort þetta mál hafi meiri hluta á þingi áður en málið fer mikið lengra. ( Gripið fram í: Viðskrh. líka.) Já, hv. þm. beinir líka spurningu að viðskrh. eða gerði áðan þannig að auðvitað þurfa allir þessir ráðherrar að koma í ræðustól og svara fyrir það hvort þeir standi að þessum frumvörpum.
    Ég held nefnilega að það sé rétt sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir rakti mjög áðan að ef grannt er skoðað, alveg sama hvað hæstv. fjmrh. segir, þá mun þetta frv. hafa þær afleiðingar að við erum að breyta um áfengisstefnu. Hér er því ekki um eitthvert einfalt frv. að ræða þar sem við erum að gefa innflutning á áfengi frjálsan, afnema einkarétt áfengissölunnar að því er varðar innflutning, heldur erum við að breyta um áfengisstefnu. Og það er einmitt þetta atriðið sem við þurfum að skoða mjög nákvæmlega.
    Eins og fyrirkomulagið er núna þá hefur ÁTVR haft mjög náið samráð bæði við lögreglu og skattyfirvöld. Til hvers? Til þess að hafa með því eftirlit og t.d. að fylgjast með því að ekki sé smygl eða brugg á boðstólum. Og hvað skeður við þessa breytingu? Áfengi sem selt er í veitingahúsum er merkt sérstaklega og það er hægt að merkja áfengi hverju húsi fyrir sig og því hægt að fylgjast með því hvort um er að ræða smygl eða ekki. Og ég spyr: Á að hætta öllu þessu eftirliti? Verður öllu þessu eftirliti hætt með þeirri breytingu sem við erum að ræða hér? Og hver fylgist með því að umboðsmenn selji eingöngu til veitingahúsa en ekki til almennra neytenda? Hvar verður eftirlitsþátturinn í þessu máli sem er mjög mikilvægur? Og hverjir græða á þessu öllu saman?
    Ég var að ræða áðan, virðulegur forseti, um það sem ég álít vanhæfi væntanlegs formanns efh.- og viðskn. Og maður spyr líka: Var það tilviljun, hæstv. forseti, að þegar fjmrh. skipaði nefnd til þess að skoða rekstrarform ÁTVR þá sátu í þeirri nefnd formaður stjórnar tollvörugeymslunnar, Júlíus Hafberg Ólafsson, og stór hluthafi og umboðsmaður margra áfengistegunda, Ingi Björn Albertsson. Maður spyr hvort hér hafi ekki verið um hagsmunaárekstra að ræða.
    Við gerum á Alþingi ríkar kröfur til þess, m.a. með stjórnsýslulögunum sem við höfum sett, að

ekki sé um hagsmunaárekstra að ræða úti í þjóðfélaginu. Síðan er það fjmrh. sem skipar með þessum hætti menn í nefnd til þess að fjalla um breytt rekstrarform sem vissulega hafa hagsmuna að gæta af þeirri breytingu sem hér á sér stað.
    Maður getur líka spurt sig af því að hæstv. ráðherra heldur því fram að ríkið muni í engu tapa á þessari breytingu og allir vita að ríkið hefur verulegar tekjur af áfengissölu og það er kannski liður í áfengisstefnunni líka að halda áfengisverði háu. Ráðherrann telur að þetta feli ekki í sér neinar breytingar á tekjum ríkissjóðs. Það má auðvitað skoða málið í þessu ljósi. Ég held að það sé alls ekkert í hendi að ríkið muni hafa af þessu sömu tekjur vegna þess að hvernig verður fyrirkomulagið eftir þessa breytingu? Eins og ég skil málið þá gerir fjmrh. ráð fyrir að innheimta öll opinber gjöld í tolli áður en innflytjendur fá vöruna afhenta í sína vörslu. Ef viðkomandi innflutningsfyrirtæki nýta sér pappírslaus viðskipti við tollayfirvöld fá þau samkvæmt núgildandi lögum allt að 45 daga gjaldfrest á opinberum gjöldum. Þetta þýðir að hver einkaaðili sem flytur inn áfengi eða tóbak getur haft hundruð millj. kr. af opinberu fé í sinni vörslu um lengri eða skemmri tíma allt árið um kring. Fyrir utan áhættuna af því að hafa svo mikið fé í vörslu einkafyrirtækja, þá tapast miklir vextir af þessu fé, en vaxtatekjur ÁTVR voru á árinu 1992 um 40 millj. kr. og þær tekjur renna ásamt öðrum tekjum ÁTVR beint í ríkissjóð og maður spyr: Hvers vegna á að færa 9 milljarða frá ríkisfyrirtæki til einkaaðila til þess eins að þeir skili ekki öllu þessu fé í ríkissjóð vegna þess að þetta er vissulega áhætta nema fjmrh. breyti lögum og innflytjendur á áfengi fái engan gjaldfrest á opinberum gjöldum. Það þýðir aftur á móti að innflytjendur verða að hafa mjög hraða umsetningu á sínum vörum.
    Það er því auðvitað margt að skoða í þessu máli og ég ítreka það, virðulegi forseti, að ég tel að það sé ekki endilega í hendi að ríkissjóður standi uppi með sömu tekjur eftir þessa breytingu.
    En ég ítreka samt aftur að alvarlegasta hliðin á þessu máli er breytt áfengisstefna og hana óska ég eftir að heilbr.- og trn. og heilbrrn. reyndar einnig segi álit sitt á. Maður spyr hvort ákafi sjálfstæðismanna í því að einkavæða þetta með þessum hætti sé ekki hluti af einkavinavæðingunni. Það verður fróðlegt að sjá hverjir standa uppi með gróðann eftir að þessi breyting hefur átt sér stað. Fróðlegt verður að fylgjast með því.
    Hv. 17. þm. Reykv., Ögmundur Jónasson, kom inn á ýmsa þætti, m.a. iðnaðardeildina og áform um sölu á henni. Ég tek undir og deili með þingmanninum áhyggjum af því að þarna eru eins og hv. þm. bendir á sex manns við störf, þar af fimm fatlaðir einstaklingar sem þarna mundu missa sína vinnu. Ég held að við ættum einmitt að skoða reynsluna af því að selja framleiðsludeildina áður en verður farið út í slíkt.
    En hv. þm. nefndi einnig að það væri nægjanlegt að gera ákveðna breytingu á lögum um ÁTVR sem tryggja að einkaleyfi verði ekki beitt sem banni. Hv. þm. fór nákvæmlega ofan í þetta mál, nákvæmlega ofan í þá breytingu sem hann taldi nægjanlegt að gera til þess að uppfylla þær kröfur sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur sett fram.
    Ég tel, virðulegi forseti, að þessi ábending sé mjög góð hjá hv. þm. og að þingið og sú nefnd sem fær þetta til umfjöllunar hljóti að láta skoða það mjög gaumgæfilega hvort að þetta nægi til þess að við uppfyllum þær kröfur sem Eftirlitsstofnunin hefur sett fram. Við hljótum að kalla þar til færustu sérfræðinga okkar á þessu sviði til þess að gefa þinginu álit sitt um það hvort þessi breyting nægi sem hv. þm. benti á. Það er þetta sem við þurfum að fá fram. Við þurfum að fá fram afstöðu heilbr.- og trn., við þurfum líka að fá fram hvort við höfum ekki sama svigrúm og Norðmenn eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á vegna þess að við þurfum á þessum tíma að halda til þess að fara ofan í allar hliðar á þessu máli. Það verður ekki aftur snúið ef við förum í þessar breytingar vanhugsaðar án þess að skoða afleiðingarnar.
    Það er líka spurning sem við hljótum að skoða mjög vandlega, virðulegi forseti, þegar við lítum á forsöguna í þessu máli hvað Eftirlitsstofnunin getur í raun og sanni staðið á þessari athugasemd sinni. Ef við lítum aðeins á forsöguna, virðulegi forseti, sem ég ætla að gera í lok máls míns þá kemur fram í greinargerð við 16. gr. EES-samningsins að í samningaviðræðum um EES hafi Norðurlönd innan EFTA, sem öll hafa með hendi ríkiseinkasölu á áfengi, ekki talið að skuldbindingar samningsins gefi ástæðu til að breyta fyrirkomulagi áfengissölu svo fremi sem einkasölurnar ábyrgist að þær mismuni ekki áfengistegundum eftir uppruna þeirra. Bent hefur verið á að í raun sé um að ræða fyrirkomulag smásölu og því innanríkismál fremur en mál sem snertir alþjóðaviðskipti.
    Síðan kemur það sem ég vil vekja athygli á: ,,Í greinargerð segir að framkvæmdastjórn EB hafi í samningaviðræðunum ekki dregið þessa túlkun í efa.``
Auðvitað þarf að skoða hvaða stöðu þeir hafa til þess nú að breyta túlkun á þessu máli. Ísland hefur ekki viðurkennt það.
    Virðulegi forseti. Ég vitna aftur í samantekt fjmrn. 23. febr. 1995 en þar kemur fram afstaða Norðurlanda. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Á fundi í sameiginlegu EES-nefndinni í febrúar sl. var fjallað um einkasölumálið. Lögð voru fram bréf Finnlands og Svíþjóðar til ESB sem rituð voru í tengslum við aðildarviðræður þessara landa. Þar lýsa þessi ríki sig sammála því viðhorfi ESB að afnema þurfi einkasölu á öðrum stigum en smásölu við aðild þeirra að ESB þar sem annað sé andstætt Rómarsáttmálanum. Á fundi nefndarinnar lýsti fulltrúi íslenskra stjórnvalda, Hannes Hafstein sendiherra, því yfir að yfirlýsinga Svía og Finna sem gefnar væru í tengslum við aðildarviðræður þessara landa hefðu engin áhrif á afstöðu íslenskra stjórnvalda.``
    Ég tel ekkert sjálfgefið miðað við þessa forsögu sem ég hef lýst að við mundum tapa þessu máli jafnvel þó það gengi svo langt að fara fyrir dómstólana. Við skulum því fara varlega í þessu máli, við skulum gefa okkur þann tíma sem við þurfum til þess að fjalla um þetta mál sem getur orðið svo afdrifaríkt eins og ég hef hér lýst.
    Ég ætla að láta þetta nægja við 1. umr. nema tilefni gefist til en ítreka aftur, virðulegi forseti, að ég óska eftir því að áður en þessari umræðu lýkur úrskurði forseti um það hvort hv. þm. og væntanlegur formaður nefndarinnar sem fær þetta mál til umfjöllunar, Vilhjálmur Egilsson, sé hæfur til þess að stýra meðferð þessa máls í nefndinni með þeim rökum sem ég setti fram. Ég ítreka einnig að ég tel mjög brýnt að nefndin sem fær þetta til meðferðar leiti álits færustu sérfræðinga á því hvort sú tillaga sem hv. 17. þm. Reykv., Ögmundur Jónasson, setti hér fram að verði sú lagabreyting gerð þá uppfylli hún þær kröfur sem Eftirlitsstofnunin hefur sett fram.