Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 12:38:37 (71)


[12:38]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Óskað var eftir því af hálfu þingflokks Alþb. að hæstv. heilbrrh. og hæstv. starfandi utanrrh. yrðu viðstaddir þessa umræðu ásamt hæstv. fjmrh. að sjálfsögðu og þessir tveir hæstv. ráðherrar Framsfl. hafa verið hér fyrr í dag. Ég óska eftir því við virðulegan forseta að leitað verði eftir því að þeir komi hér til umræðunnar vegna þess að ég hyggst bera fram ákveðnar fyrirspurnir til þessara tveggja hæstv. ráðherra í upphafi máls míns.
    ( Forseti (RA) : Það er verið að athuga hvort hæstv. landbrh. og hæstv. heilbrrh. eru í húsinu.)
    Ég þakka fyrir það, virðulegi forseti, en venja hefur verið sú að forseti hefur það á skjá hjá sér hvort þeir eru í húsinu þannig að það ætti kannski að liggja fyrir. Ég vænti þess að þeir komi til umræðunnar vegna þess að það var forsenda þess að hún gæti farið fram að þessir tveir ráðherrar svöruðu ákveðnum spurningum.
    ( Forseti (RA) : Hæstv. ráðherrar eru í húsinu og eru væntanlegir.)
    Meðan beðið er eftir hæstv. ráðherrum vil ég í upphafi þakka hæstv. fjmrh. fyrir að hafa við umræðuna greint bæði frá ákveðnum efnisþáttum í málinu og eins látið okkur fá utan við ræðustólinn ákveðin gögn sem hann var með í fórum sínum. Það er mjög mikilvægt að við höfum undir höndum alla þá þætti í þessu máli sem nauðsynlegir eru.
    Það mál sem er til umræðu er í grófum dráttum þríþætt. Í fyrsta lagi snertir það skipan áfengissölu á Íslandi. Í öðru lagi snertir það samskipti Íslands við stofnanir EES-svæðisins, sérstaklega í ljósi þeirra yfirlýsinga sem gefnar voru af íslenskum stjórnvöldum á sínum tíma. Í þriðja lagi er málið heilbrigðismál vegna þess að bæði í íslenskri löggjöf og eins í yfirlýsingum Alþingis er skipan áfengismála talin ríkur þáttur í heilbrigðismálastefnu íslensku þjóðarinnar. Þegar sú afdrifaríka breyting á skipan áfengismála er gerð að hugsanlega margir tugir ef ekki nokkur hundruð aðila geta farið að flytja beint inn áfengi og selja það síðan beint án nokkurra milliliða til yfir 300 veitingastaða sem starfandi eru hér á landi án þess að það áfengi sé sérmerkt þá er auðvitað alveg ljóst að það er verið að gera mjög afdrifaríka breytingu á skipan áfengismála á Íslandi. Það er verið að fjölga með svo afgerandi hætti að stórtíðindi hljóta að teljast hjá aðilum sem milliliðalaust geta verslað með áfengi. Jafnframt er verið að leggja niður það eftirlitskerfi sem hingað til hefur verið talið nauðsynlegur þáttur í framkvæmd áfengissölunnar á Íslandi, eftirlitskerfi sem hefur byggst á því að allar þær flöskur sem farið hafa til veitingahúsa á Íslandi hafa verið sérmerktar svo hægt væri að framkvæma eftirlit með því hvort brugg, smygl eða aðrar slíkar uppsprettulindir áfengis utan við sölukerfið væru inni á veitingahúsum. Þess vegna hefur legið fyrir, bæði í yfirlýsingum stjórnvalda, í löggjöf og í stefnuyfirlýsingum Alþingis að sú skipan sem við Íslendingar höfum haft á áfengismálum um langa tíð er ríkur þáttur í heilbrigðisstefnu okkar. Þess vegna er auðvitað alveg óhjákvæmilegt að hæstv. heilbrrh. geri grein fyrir því hér við umræðuna hvort heilbrrn. hefur fallist á þær breytingar á skipan áfengissölunnar á Íslandi sem lögð er til með þessu frv. og hvaða afleiðingar heilbrrn. telur að þær breytingar kunni að hafa fyrir framkvæmd heilbrigðisstefnunnar.
    Ég veit að ég þarf ekki að minna hæstv. heilbrrh. á það að áfengi er vímuefni. Áfengi er eina vímuefnið sem er löglegt að kaupa og selja á Íslandi en þjóðin hefur talið nauðsynlegt til að koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar af neyslu þessa vímuefnis að setja því skýrar skorður. --- Ég heyri að hæstv. heilbrrh. kallar fram í til hæstv. fjmrh. að sama gildi um kardimommudropa. Ég vona að það frammíkall lýsi ekki alvöruleysi hæstv. heilbrrh. gagnvart þessu máli. Hæstv. heilbrrh. ætti að kynna sér umsagnir áfengisvarnaráðs. Hæstv. heilbrrh. ætti að kynna sér umsagnir Vímulausrar æsku. Hæstv. heilbrrh. ætti að kynna sér tölur um unglinga sem í vaxandi mæli eru orðin áfengisneyslunni að bráð. Hæstv. heilbrrh. ætti að kynna sér tölur um alvarleg slys, um sjúkdóma, um eyðileggingu á fjölskyldulífi sem eru samfara neyslu á áfengi. Ég vona þess vegna að frammíkall hæstv. heilbrrh. um kardimommudropana lýsi ekki hugarástandi hæstv. heilbrrh. gagnvart því máli sem hér er á ferðinni. Hæstv. heilbrrh. verður að gera sér grein fyrir því að sú breyting á löggjöfinni sem felst í þessu frv. er að hver og einn Íslendingur sem er orðinn fullráða getur nú farið að flytja inn áfengi beint --- hefur hæstv. heilbrrh. gert sér grein fyrir því að samkvæmt þessu frv. getur hver og einn Íslendingur farið að flytja inn áfengi og selja það til veitingahúsa? Það eru engin takmörk sett í þessu frv. á þann fjölda einstaklinga sem geta farið að hefja viðskipti með áfengi. Og það sem meira er, þessir innflutningsaðilar sem geta orðið 50, geta orðið 200, geta orðið 500, geta orðið fleiri, þeir eiga sjálfir að hafa rétt til þess að varðveita þetta áfengi og geyma það. Þeir hafa líka rétt samkvæmt frv. að keppa um sölu á þessu áfengi til þeirra hundrað veitingahúsa sem eru í landinu.
    Það er alveg ljóst að miðað við það eftirlitskerfi sem hingað til hefur verið starfandi í landinu verður ekki nokkur leið að fylgjast með viðskiptum með áfengi samkvæmt þessum breytingum. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. heilbrrh.: Hafa verið gerðar einhverjar ráðstafanir til þess að gjörbreyta eftirlitskerfinu í landinu miðað við þær breytingar sem felast í þessu frv. þó ekki væri nema vegna þess eins að með þessum breytingum verður öllum sérmerkingum á áfengi til veitingahúsa hætt?
    Ég vil líka spyrja hæstv. heilbrrh. hvort heilbrrh. hafi áður en hún samþykkti framlagningu þessa frv. átt viðræður við áfengisvarnaráð og samtök á sviði áfengisvarna um frv. Eða er það virkilega þannig að heilbrrh. sem situr við ríkisstjórnarborðið hafi samþykkt að þetta frv. væri lagt fram sem stjfrv. án þess að taka það til meðferðar í heilbrrn.? Ég óska þess vegna eftir því að hæstv. heilbrrh. svari því: Hvaða umfjöllun fékk þetta frv. í heilbrrn. áður en það var lagt hér fram af núv. hæstv. ríkisstjórn?
    Ég veit að ég þarf ekki að minna hæstv. heilbrrh. á þau varnaðarorð sem hv. þáv. þm. Jón Helgason, þingmaður Framsfl., ráðherra Framsfl. og einn af helstu forustumönnum Framsfl. um áratuga skeið flutti hér í þessum þingsal fyrir fáeinum mánuðum síðan. Og þó ekki væri annað en það þá ætti hæstv. heilbrrh. að hafa séð ærna ástæðu til þess að kynna sér þessa þætti málsins áður en ráðherrann samþykkti við ríkisstjórnarborðið að málið yrði lagt fram.
    Ég vil líka spyrja hæstv. félmrh., Pál Pétursson, sem lýsti því yfir á Alþingi í tengslum við umræður um gjald af tóbaksvörum 15. apríl 1993 að hann væri andvígur því að gerð væri breyting á skipan áfengisverslunarinnar. Þáv. þm. Páll Pétursson, núv. hæstv. félmrh., lýsti því yfir 15. apríl 1993 eins og segir hér, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hæstv. fjmrh. var enn fremur með hótanir um að ganga lengra og ráðast næst á áfengisverslunina. Ég er líka andvígur því.``
    Hvenær skipti hæstv. félmrh. um skoðun? Var það áður en hann tók sæti í núv. ríkisstjórn eða á eftir? Hvaða rök færir hæstv. félmrh. nú fram fyrir því að styðja þetta frv. vegna þess að ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi samþykkt það sem stjfrv.?
    Þegar þetta mál var til umfjöllunar á síðasta þingi þá gafst ekki mjög mikill tími til þess, vegna anna þingsins og væntanlegra kosninga og annarra frv. sem hér átti að afgreiða, að ræða mjög ítarlega heilbrigðisþáttinn í frv. Ég vil hins vegar segja það alveg skýrt að að mínum dómi vegur heilbrigðisþátturinn í frv. þyngra heldur en umræðan um einkavæðinguna til eða frá. Í sjálfu sér er hægt að ræða það hvort ríkið á að vera eigandi sölufyrirtækis á áfengi eða ekki eða hvort það sé hlutafélag í eigu einstaklinga. Það er sérmál. Hitt er svo allt annað mál að til viðbótar við að breyta eignarformi á sölunni sem slíkri er verið að gera þá skipulagsbreytingu á sölunni að leyfa hverjum og einum með frjálsum hætti að gerast innflytjandi á áfengi og keppa hver við annan um að selja áfengi eftirlitslaust --- og ég legg áherslu á það orð --- eftirlitslaust til yfir 300 veitingastaða í landinu eða jafnvel 400--500 veitingastaða ef þeim fjölgar hér á næstu árum.
    Við vitum það t.d. vegna þess að það liggur nú fyrir að sú fjölgun veitingastaða sem varð með því að bjór var leyfður hér á Íslandi hefur aukið mjög drykkju ungmenna. Það liggur fyrir. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvort bjórsala sé æskileg eða óæskileg en það er ekki hægt að hafa skoðanir á því fram og aftur hvort breytingarnar á skipulaginu hafi minnkað eða aukið drykkju ungmenna því það liggur fyrir að þær hafa stóraukið drykkju ungmenna, einkum og sér í lagi ungra kvenna. Við hlustuðum fyrir fáeinum dögum á forráðamann meðferðastofnunar lýsa því í útvarpi hvernig vaxandi áfengisdrykkja og vímuefnanotkun ungra stúlkna og kvenna á Íslandi sé að verða stóraukið vandamál. Þess vegna er bara ekki hægt með einhverju pennastriki hér á Alþingi að hverfa frá áratuga skipulagi á áfengissölu án þess að taka ítarlega til umfjöllunar heilbrigðismálaþáttinn.
    Þegar íslensk stjórnvöld lýstu fyrirvara sínum í EES-málinu þá var hann byggður á heilbrigðismálastefnunni. Ekki á einkavæðingu eða ekki einkavæðingu. Fyrirvarinn var byggður á heilbrigðismálastefnunni. Framkvæmdin á þeirri stefnu er á verksviði hæstv. núv. heilbrrh.
    Það er einnig leitt að hæstv. landbrh. skuli nú hafa horfið úr salnum vegna þess að ég ætlaði að rifja það upp að þegar hann var heilbrrh., sá þingmaður Framsfl. sem síðast fór með embætti heilbrrh., þá lagði hann fram á Alþingi ítarlega stefnumótun í heilbrigðismálum. Sú stefnumótun í heilbrigðismálum sem þáv. hæstv. heilbrrh., Guðmundur Bjarnason, lagði fram var stolt Framsfl. í þessum málaflokki árin á eftir. Ég vil spyrja hæstv. núv. landbrh., fyrrv. hæstv. heilbrrh.: Hvernig samræmist sú breyting sem hér er verið að leggja til á sölukerfi áfengismála þeirri heilbrigðisstefnu sem þáv. heilbrrh., Guðmundur Bjarnason, lagði fram og mig minnir að hafi jafnvel verið samþykkt á Alþingi? ( Gripið fram í: Hún var samþykkt.) Var samþykkt á Alþingi, þess heldur. Þannig að það liggur fyrir að hér var samþykkt ályktun um heilbrigðisstefnu sem var eitt helsta stolt þáv. hæstv. heilbrrh. og þjóðin hefur ætlað sér að starfa eftir. Hvernig stendur á því að Framsfl. lætur það verða eitt sitt fyrsta verk í nýrri ríkisstjórn að ýta þessari heilbrigðisstefnu til hliðar með því að leggja fram það frv. sem hér hefur verið lagt fram?

    Það er þess vegna nauðsynlegt að þessir hæstv. ráðherrar Framsfl. geri ítarlega grein fyrir því, sérstaklega núv. hæstv. heilbrrh., hvernig hægt er að réttlæta þær tillögur sem hér eru gerðar í frv., annars vegar við gildandi lög um heilbrigðismál, gildandi lög um áfengisvarnir, og þá heilbrigðisstefnu sem samþykkt var á Alþingi á sínum tíma að frumkvæði ráðherra Framsfl. Eða er það kannski þannig að með því að ganga í þessa ríkisstjórn hafi Framsfl. líka horfið frá stefnumótun sinni í heilbrigðismálum? Ég vil líka spyrja af hálfu okkar sem stóðum hér með hv. þm. Framsfl. Jóni Helgasyni fyrir fáeinum mánuðum síðan: Hefur Framsfl. líka horfið frá þeim rökum sem hv. þm. Jón Helgason flutti hér fyrir hönd Framsfl. fyrir fáeinum mánuðum síðan? Staðreyndin var nefnilega sú að hv. þm. Jón Helgason var í fararbroddi baráttunnar gegn þessu frumvarpi í þingsalnum. Hann var í fararbroddi baráttunnar. Það var enginn þingmaður sem flutti jafnítarleg rök gegn þessum frumvörpum eins og þáv. hv. þm. Jón Helgason.
    Nú segir hæstv. fjmrh. hér fyrr í dag að ástæðan fyrir því að þetta frv. sé flutt sé sú skoðun ríkisstjórnarinnar að það sé heppilegra að breyta þessu okkar vegna, svo vitnað sé í hæstv. fjmrh. orðrétt. Ég vil spyrja hæstv. landbrh., varaformann Framsfl.: Er þetta líka skoðun Framsfl., að það sé heppilegra að breyta þessu okkar vegna eins og hæstv. fjmrh. sagði að væru meginrökin fyrir frv.? Hvenær varv það skoðun Framsfl.? Það var ekki skoðun Framsfl. í desember, ekki í janúar, ekki í febrúar. Hvenær varð það skoðun Framsfl. að það sem hér væri verið að leggja til væri heppilegra okkar vegna? Það gengur auðvitað ekki hjá einstaklingum sem hafa gegnt jafnábyrgðarmiklum störfum á sviði heilbrigðismála og notið til þess stuðnings okkar hinna. Það var t.d. ekkert sjálfgefið hér að tillagan um stefnumótun í heilbrigðismálum væri afgreidd hér á þarnæstsíðasta kjörtímabili. Það var m.a. fyrir stuðning okkar margra hér sem það var gert. Að það sé ekki útskýrt hér í þingsalnum hvernig Framsfl. með allan sinn feril í heilbrigðismálum, með alla þá löggjöf sem nú er fyrir hendi og með ábyrgðina á heilbrrn. kemur þessu heim og saman.
    Ég endurtek það hér að ég vænti þess að hæstv. heilbrrh. hafi kynnt sér umsagnir áfengisvarnaráðs, Vímulausrar æsku og annarra samtaka.
    Ég vil líka spyrja bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh., þegar skipulagið er orðið þannig að hver og einn einstaklingur sem flytur inn áfengi getur farið í tollvörugeymsluna og tekið þar út vörur og flutt þær í veitingahúsin án þess að vörurnar séu sérmerktar, hvernig ætla menn að framkvæma eftirlit með því að þar sé ekki verið að opna greiða leið fyrir smygl og brugg? Það hefur verið aðaltækið sem lögreglan hefur getað notað til eftirlits að allar flöskurnar sem veitingahúsin hafa fengið hafa verið sérmerktar. Nú á að leggja það kerfi allt saman niður. Við höfum fengið vitneskju um það hér því miður á undanförnum mánuðum að það er stórfellt brugg stundað hér á höfuðborgarsvæðinu, stórfellt brugg, í svo ríkum mæli að það eru nánast óhugnanleg tíðindi sem hafa verið flutt á undanförnum missirum af því magni sem framleiðendur á bruggi hafa verið að senda frá sér. Hverjir eru aðalkaupendurnir? Það eru unglingar, það er ungt fólk, og hugsanlega veitingahúsin sem blanda þessu saman við ýmsa aðra drykki sem þar eru seldir. Samkvæmt því frv. sem ríkisstjórnin er að krefjast hér afgreiðslu á með hraði á Alþingi á nánast að útiloka allt skipulagsbundið eftirlit með þessu.
    Við vitum líka að hér er stundað stórkostlegt smygl á framleiddu áfengi frá öðrum löndum, sterku víni, vodka og gini og öðrum slíkum tegundum. Eitt megintæki til þess að hindra að smyglararnir gætu komið smyglinu á markað veitingahúsanna hafa verið hinar sérmerktu flöskur frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Nú á að afnema það allt saman. Þannig að um leið er verið að opna greiðan aðgang fyrir smyglarana að koma sterkum drykkjum, eins og vodka, gini og öðrum slíkum, beint inn á markað veitingahúsanna hér á landi. Það eru ekki aðeins veitingahús hér á höfuðborgarsvæðinu, þetta eru veitingahús út um allt land. Þannig að það er verið að opna á það að þessar vörur, smyglaðar eða bruggaðar, séu teknar inn á veitingahúsin víða um land þar sem lögregla er mjög fámenn, þar sem hefðbundið eftirlit hefur ekki verið mjög sterkt. Síðan er ekkert í þessu frv. sem kemur í veg fyrir innbyrðis viðskipti veitingahúsanna, ég legg áherslu á það, innbyrðis viðskipti veitingahúsanna með áfengið, eftir að veitingahúsin eru búin að fá það í sínar hendur. Þannig að þar bætist við enn einn möguleikinn fyrir hina fjölþættu keðju veitingahúsa á Íslandi sem nú þegar telur nokkur hundruð veitingahús til þess að þróa þetta sölukerfi.
    Það er þess vegna ekki bara einn, ekki bara tveir og ekki bara þrír, þeir eru fjölmargir kranarnir sem eru opnaðir með þessu frv. og hefur ekkert með EES-samninginn að gera. Hefur ekkert með EES-samninginn að gera heldur er eingöngu tilraun til þess að smygla þeim í gegn með afsökun gagnvart EES-samningnum grundvallarbreytingu í áfengismálum Íslendinga.
    Enn einn kraninn í þessu frv. er svo sá að auk þess að geta flutt inn áfengi til sölu á veitingahúsum getur hver og einn flutt inn áfengi til einkanota, til einkanota. Hvað eru einkanot á áfengi? Er það að drekka áfengið einn? Er það bara þannig sem menn mega flytja inn áfengi samkvæmt þessu frv.? Eða eru einkanot samkvæmt frv. skilgreind á þann veg að menn geti boðið heim gestum? Ég gæti t.d. boðið heim hæstv. félmrh. þegar hann verður orðinn leiður á að hlusta á fyrri yfirlýsingar hér í þingsalnum og hresst hann aðeins við og boðið honum upp á kaffi og koníak heima hjá mér á Barðaströndinni? ( Félmrh.: Takk fyrir.) Þetta var nú ekki boð, þetta er hugsanlegt að gæti gerst. Er mér þá heimilt að hafa sjálfur flutt inn þetta koníak samkvæmt frv.? Eru það þá einkanot mín samkvæmt því að bjóða það gestum? Hvar eru mörkin? Dætur mínar útskrifast úr menntaskólanum í vor. Það getur vel verið að við bjóðum heim vinum þeirra og kunningjum, ættmennum og öðrum, jafnvel núverandi bæjarfulltrúa á Seltjarnarnesi

og núverandi þingmanni, kannski 50--60 eða 100 manns. Er þá heimilt samkvæmt þessu frv. að flytja inn kampavínið sjálfur? Eða eru það ekki einkanot að bjóða gestum samkvæmt frv.? Hvað er eiginlega verið að gera samkvæmt þessu frv.? Vita hæstv. ráðherrar það? Vita þingmenn Framsfl. það? Vita þingmenn Sjálfstfl. það? Kunna þeir svör við þessum spurningum hvað einkanot eru samkvæmt þessu frv.?
    Hvað með félög af ýmsu tagi sem rekin eru í tengslum við einstaklinga og halda ýmiss konar samkomur eins og menn þekkja að er staðreyndin á höfuðborgarsvæðinu a.m.k.? Hér er fjöldi félagsheimila og starfsmannasala sem einstaklingar geta tekið á leigu fyrir afmæli sín, fyrir jólafagnaði, fyrir þorrablót o.s.frv. Það eru einkasamkvæmi. Það eru ekki veitingahús. Samkvæmt frv. eins og það er lesið þá á það að vera heimilt fyrir viðkomandi einstaklinga að flytja sjálfir inn áfengið nema einkanot samkvæmt frv. sé bara þegar menn sannanlega drekka áfengið einir. Ef það er ekki skilgreiningin samkvæmt frv. að menn drekki áfengið einir þá er verið að opna á það að þúsundir Íslendinga í stað þess að fara í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og kaupa áfengið í smásölu, í stað þess að fara á veitingahús geti til einkanota heima hjá sér í einkasamkvæmum í margvíslegum sölum höfuðborgarsvæðisins og annarra landshluta flutt áfengið inn beint sjálfir.
    Menn hljóta þess vegna að sjá bara með því að skoða málið að í þessu frv. í svokölluðu skjóli EES-samningsins er verið að opna slíkar gáttir til breytinga á áfengisneyslu, kaupum og sölu, hér á landi, að það er grundvallarbreyting á skipan áfengismála á Íslandi og við skulum ræða þetta frv. á þeim grundvelli. Við skulum svo auðvitað líka ræða það út frá rekstrarformi og ýmsu öðru slíku. En gagnvart afstöðu minni til vímuefnamála, til margvíslegra vandamála í þjóðfélaginu, afstöðu minni til fjölskylduharmleikja, unglingavandamála, persónulegra harmsaga vegna neyslu á áfengi, vegna þess að við í auknum mæli þurfum að glíma við það sem stóraukið vandamál, sérstaklega hjá ungu fólki í þjóðfélaginu, skulum við ræða málið á þessum grundvelli. Það væri fullkomið ábyrgðarleysi af hálfu Alþingis Íslendinga að ætla sér ekki að ræða málið á þessum grundvelli. Að ætla að binda fyrir öll skilningarvit hvað heilbrigðismálaþáttinn snertir og segja bara: EES og við skulum bara keyra þetta í gegn. Því það er alveg ljóst að eins og frv. liggur fyrir eru allar þær breytingar sem ég hef hér verið að lýsa löglegar og heimilaðar.
    Ég vona þess vegna að hæstv. heilbrrh. geri ítarlega grein fyrir afstöðu sinni hér í umræðunum. Því hæstv. heilbrrh., ekki fjmrh., er samkvæmt lögunum um Stjórnarráð Íslands, ábyrgur fyrir öllum þessum þáttum málsins sem ég hef hér verið að lýsa. Innan Stjórnarráðsins hefur ávallt orðið að ríkja ákveðinn skilningur milli annars vegar fjmrn., sem hefur haft ábyrgð á því að selja og afla tekna vegna neyslu áfengis, og svo hins vegar heilbrrn. sem hefur borið ábyrgð á að koma í veg fyrir þær því miður alvarlegu afleiðingar sem áfengisneysla getur haft í för með sér.
    Ég hugsa að við höfum öll í kosningabaráttunni orðið vör við það að í þjóðfélaginu eru vaxandi áhyggjur af ofbeldi, af unglingavandamálum, af fjölskylduharmleikjum sem stafa af áfengisneyslu, vímuefnaneyslu, vaxandi ofbeldisbeitingu og öðru slíku. Ég segi það a.m.k. fyrir mig að auk ýmissa þátta efnahagsmála var þessi málaflokkur sá sem oftast bar á góma í samræðum við fólk í aðdraganda kosninganna. Mér er kunnugt um það að t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi, hafa skoðanakannanir sýnt að áhyggjur fólks vegna vímuefna, ofbeldis og unglingavandamála eru jafnvel meiri heldur en áhyggjur fólks vegna húsnæðismála eða atvinnuleysis. Við þurfum ekki annað en fara til nágrannalanda okkar, að ég nefni nú ekki Bandaríkin, til þess að sjá það hvernig slík vandamál geta á örfáum árum orðið þannig að þau verða illviðráðanleg. Ég held þess vegna að þingið þurfi rækilega að skoða það hér í meðferð þessa máls hvort ekki er hægt að uppfylla hugsanlegar kröfur vegna EES-samningsins með allt öðrum hætti en gert er í þessu frv. án þess að opna þær flóðgáttir fyrir aukna áfengisneyslu í landinu, sérstaklega áfengisneyslu ungs fólks sem gert er í frv.
    Ég vil síðan einnig spyrja hæstv. starfandi utanrrh. hvaða afstöðu utanrrn. sem ráðuneyti hefur gagnvart þeim fullyrðingum, sem fram hafa verið fluttar af hæstv. fjmrh. og fjmrn., að óhjákvæmilegt sé að gera þessar breytingar vegna husanlegs úrskurðar EES-dómstólsins. Það liggur fyrir eins og fram hefur komið hér fyrr í dag að utanrrn. lýsti því formlega yfir í bréfum og greinargerðum og á fundum, m.a. í bréfi til BSRB, dags. 1. júlí 1992, að það væri ekkert í EES-samningnum sem hefði í för með sér að það þyrfti að gera breytingar á sölukerfi áfengismála á Íslandi. Samkvæmt yfirlýsingum hæstv. fjmrh. hér í dag liggur fyrir, séu þær yfirlýsingar hæstv. fjmrh. réttar, að utanrrh. hefur haft rangt fyrir sér. Í þessu efni er ég ekki að tala um fyrrv. hæstv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson. Og þó að menn hafi kannski pólitíska tilhneigingu til að hengja þessa bjöllu um rangt mat utanrrn. um hálsinn á honum þá er það allt of ódýr aðferð vegna þess að þetta bréf sem dags. er 1. júlí 1992 er undirritað af Gunnari Snorra Gunnarssyni, sem var fremsti sérfræðingur utanrrn. í EES-málum og er núna sendiherra Íslands hjá EFTA. Sá maður sem í samskiptum við þingið var helsti handhafi útskýringa á eðli og innihaldi EES-samningsins. Það er þess vegna óhjákvæmilegt, hæstv. landbrh., starfandi utanrrh., að áður en þetta mál fer til nefndar þá sé farið yfir það hér í ræðustól á Alþingi við 1. umr. hvort utanrrn. sem stofnun er sammála þeirri skoðun sem hæstv. fjmrh. hefur lýst hér í þessum umræðum, að kynntar séu hér í ræðustól þær greinargerðir og þau bréf af hálfu utanrrn. þar sem slíkt mat kemur fram og að utanrrn. útskýri rækilega hvers vegna það hafði rangt fyrir sér. Nema utanrrn. sé ekki sammála fjmrn.
    Ég ætla ekki að fara að flytja þetta mál á grundvelli persónu núv. hæstv. fjmrh., eða persónu fyrrv. utanrrh. Málið er ekki þess eðlis. Það byggist á faglegri afstöðu utanrrn. sem stjórnvalds. Og vegna mikilvægis EES-samningsins og mikilvægis þeirra breytinga sem felast í því að með samningnum opnum við á vald Eftirlitsstofnunarinnar og dómstólsins til að vera Alþingi æðra --- ég bið menn að hafa það í huga --- vera Alþingi æðra í ákveðnum málum, þá er það auðvitað ekkert léttvægt mál þegar það kemur hér fyrir á fyrstu missirum EES-samningsins að utanrrn. reynist hafa rangt fyrir sér í einu af þeim atriðum sem einna helst voru til umræðu varðandi EES-samninginn. Það vekur upp þær spurningar hvort það séu einhver fleiri atriði þar sem utanrrn. hefur reynst hafa rangt fyrir sér og það vekur líka upp spurningar um það hvaða fagleg athugun og umfjöllun hefur farið fram í utanrrn. um þessi mistök utanrrn. að skýra Alþingi, almenningi og samtökum einstaklinga í landinu rangt frá. Nema það sé þannig að utanrrn. sé ósammála fjmrn. varðandi þetta atriði. Þess vegna er það líka þannig að hæstv. starfandi utanrrh. eða utanrrh. hér þegar umræðan heldur áfram verða að fara ítarlega yfir það með þinginu hér strax við 1. umr. hver sé afstaða utanrrn. til þessa mikilvæga atriðis. Þetta er fyrsta atriðið sem við stöndum frammi fyrir, Íslendingar, að verði vísað til EFTA-dómstólsins ef Alþingi samþykkir ekki frumvörp, og hugsanlega dæmt Íslendingum í óhag, fyrsta tilvikið. Og ef það kemur í ljós að í því fyrsta tilviki hafi utanrrn. haft rangt fyrir sér, þá eru það auðvitað mjög merkileg tíðindi. Og utanrrn. sem fagleg stofnun í meðferð alþjóðasáttmála getur ekki starfað þannig eins og bara ekkert hafi gerst. Það eru stór tíðindi þegar það gerist að í fyrsta sinn sem reynir á það hvort utanrrn. á Íslandi hafi rétt fyrir sér í fullyrðingu gagnvart Alþingi og þjóðinni eða hvort EES-stofnanirnar geta ónýtt það álit utanrrn. og það krefst ítarlegra reikningsskila af hálfu utanrrn. sem ábyrgðaraðila á milliríkjasamningum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að sinni ekki að hafa þetta mál mitt lengra, en ég vona að þessar fjölmörgu spurningar sem ég hef hér borið fram nægi til þess að menn átti sig á því að þetta mál er á engan hátt svo einfalt að það sé hægt að afgreiða það hér sem tiltölulega minni háttar spurningu um rekstrarform á ákveðnum þætti í áfengissölu sem hingað til hefur verið hjá ÁTVR. Þetta mál felur í sér aðra þætti sem eru ekki síður mikilvægir fyrir íslenska þjóð og fyrir réttarstöðu þjóðríkisins Íslands gagnvart þeim alþjóðastofnunum sem við höfum skuldbundið okkur til að starfa með en að velta því fyrir sér hvort ríkið eða einkaaðilar hafi með höndum einhvern tiltekinn rekstur.
    Ég vona því að þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á þeim þáttum málsins sem ég hef hér gert að umfjöllun muni gera þinginu rækilega grein fyrir þeim þáttum sem ég hef hér rakið. Mér þykir hins vegar leitt að geta ekki verið hér í þingsalnum næsta klukkutímann eða svo vegna þess að ég þarf að fara við jarðarför sem hefst kl. hálftvö og vona að menn skilji það og get þess vegna ekki hlýtt á þau andsvör sem hér verða sjálfsagt borin fram. Ég mun þá svara þeim í umræðum en ég verð því miður að geta mætt til þeirrar útfarar áður en hún hefst.