Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 13:21:09 (73)


[13:21]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom skýrt fram hjá hæstv. fjmrh. eins og hann sagði hér í lokaorðum sínum að verðpólitíkin væri aðalatriðið í íslenskri áfengislöggjöf. Það er kannski skoðun hæstv. fjmrh. En það eru margir aðrir sem eru þeirrar skoðunar að áfengisneyslan í landinu og salan séu líka hluti af heilbrigðiskerfinu og það er sá þáttur sem ég gerði hér að umræðuefni.

    Varðandi merkingarnar, þá er mér það alveg fyllilega ljóst að það á ekki að merkja vöruna ÁTVR, en ég hef hvergi séð þann texta í þessu frv. sem knýr á um að einstaklingarnir eða fyrirtækin sem flytja inn áfengið og selja veitingahúsunum eigi að merkja það með einhverjum skýrum og augljósum hætti. Ég sé engin slík ákvæði í þessu frv.
    Það er svo jafnframt upplýst hér að til einkanota merkir fyrir sjálfan sig og gesti og þar með er verið að opna fyrir það að þau hundruð ef ekki þúsundir af einkasamkvæmum sem eru haldin hér í fjölmörgum samkomusölum um allt land, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, verði líka vettvangur fyrir áfengissölu þar sem áfengið er flutt beint inn milliliðalaust. Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem hæstv. fjmrh. var að lýsa hér, þá verður opnað á það að í einkasamkvæmum úti í bæ sé neytt áfengis sem flutt er inn milliliðalaust, án Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að hafa staðfest það hér í sínu andsvari að hér er einmitt verið að gera grundvallarbreytingar á skipan áfengismála í landinu.