Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 14:08:37 (77)


[14:08]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta fyrra atriði varðandi Schengen-samstarfið. Það er alveg nauðsynlegt að það verði farið yfir stöðuna við skoðun þessa máls hérna vegna þess að þetta er ekki eins einfalt og mér fannst hæstv. fjmrh. vilja túlka málið, að þetta varði fyrst og fremst ferðafrelsi utan að inn á EES-svæðið ef við tækjum að okkur landamæravörslu fyrir Evrópusambandið. Ég held að framkvæmdastjórn þess muni gera mjög ákveðið þá kröfu að það gildi að það væru ekki landamæri á milli, að það yrði hliðstæð meðhöndlun um þá sem kæmu til Íslands.
    Menn skulu hafa það í huga af því að talað var um að þetta væri ekki bara vegabréfaskoðun heldur væri líka hægt að hafa tollskoðun uppi. Nú kann það að vera að það verði niðurstaðan, ég vil ekkert fullyrða um það, en innan Schengen-landanna hefur framkvæmdastjórnin nýlega kveðið upp úr um að það sé bannað að gera stikkprufur á farangri. Því skulu menn taka eftir. Menn héldu þetta og því hefur verið haldið fram á Norðurlöndunum af stjórnvöldum, kannski í góðri trú eins og hæstv. fjmrh. ætlaði einnig varðandi aðra þætti, að það verði teknar stikkprufur. Þessu eru þeir búnir að halda fram við fólk, m.a. í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslna. Nú er einnig búið að taka það út af borðinu með úrskurði framkvæmdastjórnarinnar, hinnar máttugu í Brussel.
    Varðandi svo hitt atriðið sem hæstv. ráðherra kom að varðandi það að ekki hafi verið um vísvitandi blekkingar að ræða. Við fáum hvorugur sannað okkar mál en nógu margir voru þeir sem vöruðu við og einn af þeim stendur hér sem dró þær ályktanir augljóslega af dómum sem fallið hafa hver yrði túlkunin. (Forseti hringir.) Og að lokum, virðulegur forseti, menn skulu hafa í huga að lykillinn að því að fá EES-samninginn í gegn í Noregi var að Kristilegi flokkurinn greiddi atkvæði með. Hann vildi sko sannarlega trúa því og tók það bókstaflega og þess vegna greiddi hann atkvæði með og komst samningurinn í gegn í Noregi, Kjell Magne Bondevik er formaður hans, tók það trúanlegt gagnvart sínu fólki og sannfærður um að þetta fengi staðist. Þetta hefði ráðið úrslitum, þetta var úrslitaatriði, því að fyrir þeim er áfengisstefnan mjög heilög.