Uppsögn sérkjarasamninga hjúkrunarfræðinga

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 15:10:57 (86)



[15:10]
     Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu utan dagskrár vandi sjúkrahúsanna á landsbyggðinni og staða

200 hjúkrunarfræðinga sem hefur verið yfirvofandi að gangi út af sjúkrahúsunum 1. júní nk. Fjöldi þeirra lítur svo á að með uppsögnum einstaklingsbundinna ráðningarsamninga sem sagt var upp 1. mars sl. hafi þeim verið sagt upp störfum. Þetta er einn af þeim mörgu hnútum sem fyrir lá að leysa þyrfti þegar ég tók við embætti heilbrrh. Margir þeirra verða ekki leystir í bráð en aðrir þola enga bið samanber þetta deilumál.
    Vandi sjúkrahúsanna er mikill og verður ekki leystur á skömmum tíma og hann verður varla leystur nema með miklum skipulagsbreytingum í heilbrigðisþjónustunni. Hv. fyrirspyrjandi ætti að þekkja þennan vanda eftir langa veru sína í fjárln. Alþingis.
    Að því er varðar fyrirspurn þá sem hér er til umræðu vil ég svara einstökum efnisatriðum hennar sem hér segir.
    Spurt er hvers vegna heilbrrn. gaf fyrirskipun um málsmeðferð til stjórnarnefnda sjúkrahúsanna í febrúar sl.
    Forsaga málsins er sú að hér er um að ræða samræmdar aðgerðir stjórnenda þessara sjúkrastofnana og að frumkvæði ráðuneytis til þess að segja upp einstaklingsbundnum ráðningarsamningum milli stofnana og hjúkrunarfræðinga. Sú samstaða var síðan engin eða lítil.
    Önnur spurning er varðandi túlkun á bréfi fjmrn. frá 21. jan. 1991 og forræði málsins.
    Forræði málsins hefur alltaf verið í höndum stjórnenda stofnananna þar sem þær gerðu sjálfar þessa samninga við einstaka hjúkrunarfræðinga og hópa þeirra. Hér hefur aldrei verið um sérkjarasamning að ræða heldur einstaklingsbundin ráðningarkjör.
    Tilvitnun hv. fyrirspyrjanda í bréf fjmrn. frá 21. jan. 1991 tel ég að sé best svarað með samningi þeim sem tók gildi 1. apríl 1994 sem var miklu hagstæðari fyrir hjúkrunarfræðinga en fyrri samningur.
    Spurt er um tilboð ráðuneytis varðandi staðaruppbætur og fleira.
    Tilboð það sem er til vitnað var ekki fellt úr gildi en fljótlega var ljóst að ekki var samstaða um landið varðandi tilboðið.
    Niðurstaða mín varðandi þetta mál kom fram í bréfi sem ég sendi stjórnendum þessara stofnana hinn 15. maí sl. þar sem ég tilkynni þeim að ég hafi ákveðið viðbótarfjárveitingu til þeirra alls 34,7 millj. kr. til að bæta upp niðurskurð vegna þessara sérkjarasamninga í 10 mánuði á þessu ári. Jafnframt var það tilkynnt að ég gerði ekki athugasemd að þeir greiddu þessi laun ef hægt væri að fjármagna það rekstrarfé. Auk þess hvatti ég til að skoða og samræma sérkjör allra starfsmanna viðkomandi stofnana þannig að sérkjör allra stétta væru skoðuð í einu.
    Ljóst er að svigrúm einstakra stofnana til að leysa þetta mál innan ramma fjárlaga er mismunandi eins og kom fram hjá hv. þm. og ég geri mér fyllilega ljóst að þetta er mjög erfitt fyrir mörg sjúkrahús úti á landi.
    Síðan er spurt um afstöðu mína til að greiða sérstaka staðaruppbót og spurning um starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga.
    Starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga hafa verið mjög mismunandi eftir vinnustöðum, stærð þeirra og þeirri starfsemi sem þar fer fram, það veit ég af eigin reynslu og vissulega eru starfsaðstæður á litlum vinnustað á landsbyggðinni verulega frábrugðnar því sem er t.d. á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík. Ég tel að sérstakar aðstæður geti verið nauðsynlegar til að meta til launa starfsaðstæður, landfræðilega legu, einangrun og sérstakt álag á starfsfólk, t.d. vegna mannfæðar, en það tel ég að eigi að gerast í kjarasamningum milli ríkisins og viðkomandi stéttarfélags eða í beinum tengslum við gerð kjarasamninga.
    Síðan er spurt um viðbrögð mín ef einhver sjúkrahúsanna ná ekki samningum og hjúkrunarfræðingar ganga út. Staða þessa mála í dag er sú að framkvæmdastjórar og stjórnendur þessara stofnana eru að vinna að því að leysa málið gagnvart viðkomandi starfsmönnum. Víðast hvar á landinu er þetta leyst sem betur fer og góðar vonir um lausnir á flestum stöðum. Enda þótt ég viti að um mikla erfiðleika sé að ræða er mikill vilji til að leysa þetta mál. Ég tel því ekki tímabært að tjá mig um það sem hugsanlega kann að koma upp um næstu mánaðamót.
    Virðulegi forseti. Ég vona að ég hafi hér svarað þeim fyrirspurnum sem hv. þm. lagði fyrir mig.