Uppsögn sérkjarasamninga hjúkrunarfræðinga

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 15:16:00 (87)

[15:16]
     Össur Skarphéðinsson :
    Herra forseti. Allt síðasta kjörtímabil gagnrýndi Framsfl. vinnubrögð þáv. ríkisstjórnar í heilbrigðismálum og núv. hæstv. heilbrrh. var þar framarlega í flokki og hún tók m.a. þátt í því að Framsfl. samþykkti þessa ágætu stjórnmálaályktun á síðasta flokksstjórnarfundi sínum á síðasta flokksþingi sínu og þar var harðlega mótmælt því sem Framsókn kallaði ,,fljótfærni og illa undirbúnar aðgerðir``. Kallað var eftir meiri ábyrgð í verkum. Þess var því að vænta að einmitt þegar Framsfl. hafði tekið við heilbrigðismálunum yrði þess gætt að tekið yrði ákveðið á málum.
    Herra forseti. Nú höfum við fengið forsmekkinn af þessum nýju vinnubrögðum hæstv. heilbrrh. og ef þau eru lýsandi fyrir framhaldið lofar það sannarlega ekki góðu. Á næstsíðasta kjörtímabili var rekstur sjúkrahúsanna fluttur yfir til ríkisins. Þá var það jafnframt gert skýrt af hálfu fjmrn. að einungis það ráðuneyti mætti fara með gerð sérkjarasamninga. Á síðasta kjörtímabili gerði síðan fjmrh. fyrsta heildarsamninginn við félag hjúkrunarfræðinga og gert var ráð fyrir því að staðbundnir sérkjarasamningar yrðu leiðréttir með tilliti til heildarsamningsins. Fyrir þessu var gert ráð við samþykkt síðustu fjárlaga og fyrrv. heilbrrh. vann að sjálfsögðu í anda þeirrar samþykktar sem Alþingi hafði gert með fjárlögum. Þetta olli vissulega deilum í röðum hjúkrunarfræðinga en sjúkrahúsin urðu ásátt um að verða samstiga við lausn málsins. Það brast þegar á hólminn var komið. Fyrrv. heilbrrh. hafði hins vegar náð einingu um það meðal forsvarmanna sjúkrahúsanna að gerður yrði samræmdur samningur þar sem í senn yrði tekið tillit til heildarsamningsins við stéttarfélagið en jafnframt til aðstæðna í héraði og þær voru auðvitað mismunandi milli staða. Núv. hæstv. heilbrrh. virðist hins vegar bresta kjark til að taka á sig ábyrgð. Hún veigrar sér einfaldlega við að hafa stefnu í málinu. Hvað gerir hún í staðinn? Hún sendir stjórnum sjúkrahúsanna bréf og segir þeim að leysa málið með samningum. Það gerir hún án þess að tryggja fjármagn til varanlegrar lausnar og vitandi vits um þá staðreynd að fjmrn. bókstaflega bannar það. Hún hendir einfaldlega málinu til þeirra og segir: Þetta er ekki á mína ábyrgð heldur ykkar.
    Hæstv. heilbrrh. Þetta tel ég ekki eðlileg vinnubrögð og þetta er ekki að þora að horfast í augu við ábyrgð sína. Það er fróðlegt að horfa til þess hvaða einkunn forsvarsmenn sjúkrahúsanna gefa þessum vinnubrögðum. Framkvæmdastjóri Sjúkrahúss Suðurlands hefur eftirfarandi orð um þetta vinnulag: ,,Algjört klúður.``
    Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það með forsvarsmanni Sjúkrahúss Suðurlands.