Uppsögn sérkjarasamninga hjúkrunarfræðinga

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 15:21:10 (89)


[15:21]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég býst við að að flestra mati sé um allvandasamt mál að ræða. Ég held að það skipti mjög miklu máli að framkvæmdarvaldið fari varlega í sínum aðgerðum varðandi umfjöllun og hvernig á því er haldið. Það sem skiptir m.a. máli í þessu sambandi er rétturinn. Það liggja fyrir misjöfn sjónarmið, andstæð sjónarmið um það hvort þeir samningar sem taldir eru einstaklingsbundnir af hálfu heilbrrn. og fjmrn. eru það í reynd og hvort þeir tengjast ekki ráðningarsamningum eins og lögfræðingar félags hjúkrunarfræðinga halda fram og reisa andsvör sín við aðgerðum framkvæmdarvaldsins á. Ég held að það væri skynsamlegt fyrir ráðuneytin, heilbrrn. og fjmrn., að samræma í fyrsta lagi aðgerðir sínar og málflutning í málinu sem nokkuð skortir á um að gert sé og í öðru lagi að fela stjórnum sjúkrahúsanna úti um landið að draga til baka þær uppsagnir í bili á meðan verið er að vinna í þessum málum þannig að það gerist í sæmilegum friði. Ég sé ekki annað en að það stefni beint í dómsmál um þessi efni. Menn ættu m.a. að hafa í huga þá dóma sem fallið hafa varðandi kjarasamninga sem gerðir hafa verið af sjúkrahúsanna hálfu og sem hafa fallið á ríkið og nýlega verið greiddar út háar upphæðir af þeim sökum.
    Ég held líka að það þurfi að skýra betur en hæstv. ráðherra hefur gert hvernig eigi að halda á málum varðandi aðrar starfsstéttir á sjúkrahúsum sem haldið er fram af ráðuneytinu og vafalaust á sér stað í vissum tilvikum að njóti einstaklingsbundinna kjara. En ráðuneytið hefur verið að hvetja til þess að ofan

í þá sauma verið farið og þau mál verði gerð upp fyrir næstu áramót. Ég held að það verði afskaplega lítill starfsfriður á sjúkrahúsunum ef haldið verður áfram á þessari braut. Ég hvet ráðuneytin til þess að ætla meiri tíma til að fara ofan í þessi efni og reyna að skapa frið því á því er mjög brýn þörf innan sjúkrastofnana út um land allt.