Uppsögn sérkjarasamninga hjúkrunarfræðinga

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 15:26:37 (91)


[15:26]
     Ásta R. Jóhannesdóttir :
    Herra forseti. Það hefur lengi viðgengist að greiða staðaruppbót eða sérstakar greiðslur til þeirra sem hafa starfað í heilbrigðiskerfinu úti á landi og það hefur verið á hendi heimamanna. En við verkaskiptasamningana í janúar 1991 var ákveðið að ríkisvaldið tæki að sér þessa samninga í samráði við verkalýðshreyfinguna. Er þetta mál ekki alfarið mál fjmrn.? Síðast þegar samið var við hjúkrunarfræðinga var alfarið miðað við aðstæður á sjúkrahúsunum í Reykjavík en ekki litið á aðstæður á landsbyggðinni. Það var ekki horft á raunveruleikann úti á landi eins og þeir hafa sagt. Er ekki með þessum sérkjörum verið að greiða fyrir aukna vinnu, svo sem störf sjúkrahúshjúkrunarfræðinga við heilsugæslustöðvarnar, aukið álag fyrir að annast ýmis verkefni sem eru ekki á höndum þeirra hjúkrunarfræðinga sem starfa hér? Kjarasamningar taka ekki mið af þessari vinnu. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á áðan eru aðstæður mjög mismunandi úti á landsbyggðinni og ber ekki að taka mið af því? Verður ekki að gera sérstaka ráðningarsamninga þegar erfitt er að fá ákveðna faghópa til starfa úti á landi?
    Varðandi sérstaka samninga þá man ég ekki betur en það hafi verið stefna hæstv. fjmrh., sem er reyndar ekki staddur hér, í síðustu ríkisstjórn að gefa bæri stofnunum hins opinbera sérstakt svigrúm til sérsamninga. Eru þessir sérkjarasamningar hjúkrunarfræðinga ekki í samræmi við þá stefnu? Ég spyr því nú: Hefur orðið einhver breyting á stefnu fjmrh. í launamálum? Og annað mál: Hvernig er með aðrar stéttir og þá karlastéttir? Eru þær ekki einnig með sérstakar greiðslur samkvæmt ráðningasamningi, t.d. læknar? Mér finnst umhugsunarefni hvort farið hefði verið út í þessar uppsagnir á sérkjarasamningum ef um karlastétt hefði verið að ræða. Ég tek undir með 19. þm. Reykv., ég held að þetta bendi til að það sé nauðsynlegt að taka launakerfi ríkisstarfsmanna upp í heild.