Uppsögn sérkjarasamninga hjúkrunarfræðinga

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 15:29:24 (92)


[15:29]
     Kristín Halldórsdóttir :
    Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Suðurl. fyrir að taka upp þetta mál sem er til umræðu. Á því er full þörf því þetta er í rauninni stærra mál en margur hefur áttað sig á og nauðsynlegt að skoða allar hliðar þess af gaumgæfni. Einn alvarlegasti flötur þess er sá hvernig ríkisvaldið hefur reynt að fría sig ábyrgð á þeim vanda sem skapast hefur á sjúkrahúsum landsins og verður ekki á nokkurn hátt rakinn annað en beina leið til ríkisvaldsins.
    Það sem ég vil leggja inn í þessa umræðu er að sú deila sem er uppi milli hjúkrunarfræðinga utan

höfuðborgarsvæðisins og vinnuveitenda þeirra, sem virðist nú raunar vera leyst í bili en aðeins í bili, sýnir í hnotskurn þann mikla og alvarlega vanda sem við er að fást í launakerfinu. Rætur þess vanda liggja fyrst og fremst í tvennu. Það er annars vegar láglaunastefna hins opinbera og hins vegar launamisrétti kynjanna, einmitt þeim atriðum sem Kvennalistinn hefur gagnrýnt svo mjög alla sína tíð og ítrekað lagt til að tekið verði á.
    Hv. 10. þm. Reykn. gladdist yfir því að málið snerist um sérkjör kvenna og virtist telja það innlegg í jafnréttisumræðuna. Ég vil biðja hv. þm. að íhuga hvort það sé tilviljun að barátta fyrir bættum kjörum hefur að undanförnu einkum verið háð af hefðbundnum kvennastéttum, ekki síst innan heilbrigðiskerfisins. Hvaða sögu segir það okkur svo? Það er auðvitað öllum ljóst að láglaunastefnan hefur leitt til þess að víða í kerfinu hafa orðið til aukagreiðslur til þess að bæta starfsfólki lágu launin en það kerfi hefur aftur leitt af sér óþolandi mismunun milli einstaklinga, milli kynja og jafnvel milli heilla stétta. Menn mega hins vegar ekki rugla saman aukagreiðslum af þessu tagi og svo aukagreiðslum fyrir sannanlega vinnu eða álag eða starfskostnað af einhverju tagi. Það er misjafnt eftir stöðum í hverju þessar aukagreiðslur eru fólgnar en ég hef upplýsingar um samninga hjúkrunarfræðinga við Sjúkrahús Suðurnesja og það eru einkum sex liðir sem er tekið mið af. Það er álagsgreiðsla sem nemur 8% af stöðuhlutfalli, það er ein klukkustund fyrir að vera ein á vakt, það eru 20 klukkustundir til deildastjóra, hjúkrunarframkvæmdastjóra og hjúkrunarforstjóra, það er fastagjald af síma vegna gæsluvakta og greiðsla fyrir akstur og svo auk þess sérstakar bókanir sem voru gerðar samhliða samningum.
    Ég hef ekki tíma til að ræða þetta frekar en vildi kynna í hverju þetta er fólgið svo að menn geti metið það hvað hér er lagt til grundvallar.