Uppsögn sérkjarasamninga hjúkrunarfræðinga

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 15:32:16 (93)


[15:32]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er rætt í dag er vandasamt og á sér vissulega sérstæða fortíð. Það var í klúðri þegar fyrrv. heilbrrh., Sighvatur Björgvinsson, yfirgaf ráðuneytið. Enda þótt Alþingi hafi eignast breiðleita og kokhrausta stjórnarandstöðuþingmenn eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson verða þeir að átta sig á því að þegar núv. hæstv. heilbrrh. kom að þessu máli var það í strandi, ekkert svigrúm til staðar. Nú finnst mér að menn hafi fengið viðbótartíma til að ljúka þessu máli enda hefur formaður Hjúkrunarfræðingafélagsins tekið undir þá skoðun að þarna hafi gefist viðbótartími. Ég treysti heilbrrh. fullkomlega í þessu máli og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. og menn hans beri fulla ábyrgð í þessu máli. Hann verður að koma af fullum krafti inn í þetta mál og ég veit að sjúkrahúsin munu koma að þessu máli. Auðvitað munu hjúkrunarfræðingar einnig gera það því að það eru sjúklingarnir sem verða að ganga fyrir og friður um þá starfsemi. Fjögurra ára ófriði Alþfl. í heilbrigðismálum er lokið og fram undan er nýr tími. Þetta hygg ég að menn verði að gera sér grein fyrir. ( Gripið fram í: Þinn tími er kominn.)
    Það er nú svo, hæstv. forseti, að í þessu tafli hafa menn sett skákina í bið um sinn og fengið viðbótartíma. Ég vona að hann verði nýttur og að Alþingi gefi heilbrrh. frið til þess að vinna að því máli.
    Ég treysti því einnig að hæstv. heilbrrh. muni á þessu kjörtímabili ná að endurskipuleggja starfsemi sjúkrahúsanna, styrkja landsbyggðarsjúkrahúsin með þeim hætti eins og ég gat um hér áðan að um þessa starfsemi ríki friður.