Stjórnarskipunarlög

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 16:13:30 (98)


[16:13]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Hæstv. forseti. Samkvæmt stjórnarskrá íslenska lýðveldisins ber að leggja allar stjórnarskrárbreytingar tvisvar sinnum fyrir, þ.e. nýtt þing verður að samþykkja þær breytingar sem hið fyrra gerði á stjórnarskránni. Hér stöndum við einmitt frammi fyrir því að leggja fram að nýju það frv. sem við gengum frá á síðasta þingi sem var hið 118. í röðinni.
    Framsögumaður hefur gert ítarlega grein fyrir þeim breytingum sem þetta frv. felur í sér og það er ekki ástæða til að fara mjög náið út í þær. Þó vil ég halda til haga nokkrum atriðum sem snerta þetta frv. ekki síst til þess að ítreka það að annars vegar er hér um mörg og mjög merkileg nýmæli að ræða í íslensku stjórnarskránni, bæði málefni sem hér eru tekin upp og ekki tíðkast annars staðar en líka málefni sem við erum að uppfylla nú loksins ýmsa þá sáttmála sem Ísland hefur gerst aðili að á undanförnum árum og áratugum eins og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópuráðsins.
    Ég vil líka halda því til haga eins og ég nefndi að í ýmsum atriðum hefðum við kvennalistakonur viljað ganga lengra í þessu máli en hér er auðvitað um málamiðlun að ræða, skref sem er verið að stíga í þá átt að aðlaga íslensku stjórnarskrána nútímaþjóðfélagsháttum, en það þarf að ganga lengra bæði hvað varðar félagsleg réttindi og efnahagsleg réttindi eins og reyndar er gert í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem við erum aðilar að en eins og hv. þm. vita hefur mannréttindasáttmáli Evrópuráðsins lagagildi hér á landi.
    Áður en ég vík að einstökum atriðum þá er rétt að rifja það upp hvernig staðið var að þessu máli. Það urðu gífurlegar umræður úti í þjóðfélaginu um frv. og verður það að teljast merkilegt hvað tókst að kalla fram mikil viðbrögð fólks í landinu. Það var gert m.a. með auglýsingu, það var auglýst eftir viðbrögðum einstaklinga, félagasamtaka og alls almennings og þau viðbrögð urðu gífurlega mikil. Að vísu var oft um misskilning að ræða og eins kom fram í framsöguræðu hv. 4. þm. Reykv. vorum við, sem upphaflega sömdum frv., borin þungum sökum um að ætla að svipta landslýð mannréttindum eins og tjáningarfrelsinu en það var á miklum misskilningi byggt en varð kannski til þess að menn kváðu skýrar á í þeim breytingum sem gerðar voru á frv.
    Ég vil þá aðeins nefna örfá atriði sem mér finnst skipta miklu máli í þessari umræðu um stjórnarskrána og þær breytingar sem verið er að gera á henni. Þar er fyrst að nefna 3. gr. frv. þar sem samkomulag náðist um að kveða sérstaklega á um það að konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Við erum með þessu ákvæði að komast í hóp þjóða sem hafa ákveðið að kveða á um það í sinni stjórnarskrá að það þurfi að taka sérstaklega á jafnrétti karla og kvenna og beri að kveða skýrt á um það. En hvað varðar þetta atriði þá hefðum við einnig viljað fá það fram að ríkinu bæri að grípa til sérstakra aðgerða til þess að ná þessu jafnrétti fram en svo langt var ekki gengið að þessu sinni.
    Það var mikil umræða á öllum stigum málsins um það hversu langt skyldi ganga í upptalningu í 3. gr. á ýmsum þeim þáttum sem rétt væri að telja upp til þess að undirstrika jafnræðisregluna en þar náðist ekki samkomulag um að ganga lengra en hér er gert. Vil ég sérstaklega nefna að við söknum þess reyndar, eins og fleiri þingmenn, að fatlaðir skyldu ekki vera taldir upp í þessari grein vegna þess að þeirra aðstaða í þjóðfélaginu er með þeim hætti að það þyrfti að vernda þá sérstaklega í stjórnarskránni. En það gildir einnig um aðra hópa og um það náðist einfaldlega ekki samkomulag.
    Þá vil ég nefna 6. gr. þar sem kveðið er á um bann við pyndingum. Þetta er í samráði við alþjóðlega sáttmála.
    Svo og vil ég sérstaklega nefna það atriði 7. gr. sem vakið hefur allnokkra athygli meðal þeirra sem fylgjast með mannréttindamálum en það er það ákvæði að í lögum megi aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.
    Við umræðu á hinu háa Alþingi fyrir síðustu kosningar þá nefndi ég það að í ýmsum löndum heims fer fram mikil barátta til þess að reyna að ná fram banni við dauðarefsingum sem tíðkaðar eru sums

staðar í stórum stíl, t.d. í Kína við jafnvel litlum brotum, og m.a. í Bandaríkjunum hefur um áratuga skeið geisað mikil umræða um réttmæti dauðarefsinga en samtök eins og Amnesty International hafa það á sinni stefnuskrá að afnema slíkar refsingar. Því vekur það auðvitað athygli þegar eitt ríki tekur það upp í sinni stjórnarskrá að í lögum megi aldrei mæla fyrir um dauðarefsingar. Þetta er að okkar dómi mjög þarft og gott ákvæði.
    Þá vil ég einnig árétta varðandi 9. gr. þar sem kveðið er á um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu að þar er auðvitað ekki meiningin að innan veggja heimilisins geti hvaðeina gerst heldur er einmitt tekið fram að með sérstökum lagaheimildum megi takmarka þennan frið, t.d. til þess að koma í veg fyrir heimilisofbeldi, ofbeldi gegn börnum og annað slíkt sem auðvitað ber að berjast gegn í samfélaginu.
    11. gr. er kannski sú grein sem olli hvað mestu uppnámi í allri þessari umræðu. Hún fjallar um skoðanafrelsið en þar hygg ég að tekist hafi að breyta orðalaginu á þann hátt að ekki sé hægt að vefengja það að allir skuli vera frjálsir skoðana sinna en þó beri að setja skoðana- og tjáningarfrelsi eðlileg takmörk til þess að vernda aðra, t.d. börn.
    Hið sama gildir um 12. gr. sem snýr að félagafrelsinu. Þar var einnig tekið mið af þeim miklu athugasemdum sem fram komu og svo mikið er víst að umræðan um þessa grein hefur fallið niður en það á kannski eftir að koma fram hér á eftir hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur hvort verkalýðshreyfingin er fyllilega sátt við þessa grein.
    Þá vil ég nefna það ákvæði 14. gr. að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst en þarna er líka um ákvæði að ræða sem verður að teljast til mikillar fyrirmyndar og er tilkomið m.a. fyrir tilstilli umboðsmanns barna. Þarna er um nýmæli að ræða sem þarf að fylgja eftir og vil ég þá aftur nefna ofbeldi gegn börnum og unglingum en með samþykkt þessa frv. verður þeirra réttur tryggður í stjórnarskránni.
    Hæstv. forseti. Hér er um staðfestingarfrv. að ræða. Það þýðir að hér má engu breyta þannig að við verðum að láta okkur þetta skref nægja að svo stöddu en ég vil sérstaklega nefna það að mönnum hættir til að líta þannig á að nú verði engu hægt að breyta fyrr en eftir fjögur ár. Menn vilja helst ekki leggja út í kosningar og leggja verk sín í dóm kjósenda. En auðvitað er það hin pólitíska nauðsyn sem á að ráða för. Ef samstaða er um það í þjóðfélaginu að það beri að breyta stjórnarskránni þá á auðvitað að ganga í það verk og þar eiga hagsmunir stjórnmálaflokkanna ekki að ráða för. Það er réttur borgaranna að fá stjórnarskránni breytt eins og öðrum lögum ef réttmæt krafa er uppi um það og Alþingi á ekki að sitja á því ef nauðsyn krefst.
    Að lokum, hæstv. forseti, þá fagna ég þessu skrefi sem hér er verið að stíga en ítreka það að hér er um áfanga að ræða. Við þurfum að halda áfram að vinna það verk að breyta stjórnarskránni þannig að hún standist fyllilega þá alþjóðlegu sáttmála sem við erum aðilar að og að stjórnarskráin endurspegli framsýni í þjóðfélagsmálum, réttlæti og að mannréttindi allra séu tryggð í hvívetna.