Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 17:43:16 (112)


[17:43]
     Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af því sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði um heilbrigðismál þá er það alveg rétt en það kemur fram í áliti dómsins að því er varðar Finna að hér sé ekki um nægilega ástæðu að ræða, sem ég ætla ekki að fara að rekja nægilega, því að hér sé eingöngu verið að hrófla við innflutningnum og heildsölunni en ekki við smásölunni. Þess vegna er það ekki rétt að hér sé verið að opna fyrir allar gáttir. Það liggur alveg ljóst fyrir að ÁTVR mun áfram hafa einkasölu í smásölu. En það kemur fram þegar dómurinn er lesinn að því er varðar Finnland að þeir telja þessa tilvitnun ekki vera nægilega til að réttlæta slíka undanþágu að því er varðar heildsölu.
    Þetta eru staðreyndir málsins án þess að ég ætli að fara að vitna sérstaklega í ræður þess ágæta þingmanns Jóns Helgasonar sem fjallaði um málið á þeim grundvelli að það mætti ekki breyta hér um áfengisstefnu. Það er í sjálfu sér ekki verið að breyta um áfengisstefnu að mínu mati. Það er ekki verið að breyta smásölustiginu á neinn hátt, en það er verið að breyta heildsölustiginu og það má gera á grundvelli tvennra röksemda. Annars vegar að það sé æskilegt út frá almennum sjónarmiðum, en hins vegar verður ekki hjá því komist að líta líka til þess dóms sem féll og úrskurðar ESA. Sá úrskurður liggur fyrir og ég veit að þingmaðurinn hlýtur að hafa aðgang að honum eins og aðrir.