Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 17:45:41 (113)


[17:45]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að hér er verið að gera margvíslegar breytingar á sölu áfengis á Íslandi. Það er að vísu hægt að kalla það heildsölu, hæstv. utanrrh., en það er verið að gera þá breytingu að hvaða aðili sem er getur flutt inn áfengi til landsins, tekið það út úr tolli, geymt það sjálfur í eigin birgðastöð og selt það síðan frá eigin birgðastöð hvaða aðila sem er sem stundar veitingahúsarekstur á Íslandi en þeir skipta hundruðum talsins. Hér verður þess vegna hægt að koma upp í landinu mörgum tugum eða jafnvel mörg hundruð litlum birgðastöðvum eins og starfsmenn ÁTVR hafa lýst í greinargerð sem liggur núna í hólfum allra þingmanna og það er auðvitað breyting á því kerfi sem hefur verið í landinu. EES-samningurinn felur það fyrst og fremst í sér að það eigi ekki að mismuna innkaupaaðilum eftir ríkisfangi en hann kveður ekkert á um það að samkeppni einstaklinga með sama ríkisfang eigi að breytast með þeim hætti sem lagt er til í frv. Það er þess vegna sem m.a. hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur verið að lýsa því hér hvernig hægt væri að gera breytingar án þess að innleiða um leið þá eðlilsbreytingu á sölumálum áfengis sem við höfum mörg lýst í umræðunum.